Ótölulegur fjöldi verkamanna rogast með eða dregur vörur að og frá brúnni.
Ótölulegur fjöldi verkamanna rogast með eða dregur vörur að og frá brúnni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Howrah-brúin er oft kölluð hjarta mannlífsins í Kolkata. Yfir hana fara fleiri en yfir aðrar hengibrýr, við annan brúarendann er fjölsóttasta lestarstöð Indlands og víðfrægur blómamarkaður við hinn. Einar Falur Ingólfsson fylgdist með lífinu við brúna. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is

Hvernig sem heimurinn veltir sér og snýst, hvað sem gengur á nær eða fjær og hvernig sem viðrar, þá heldur fjöldinn áfram að streyma yfir hina hálfáttræðu Howrah-brú í Kolkata. Brúna sem heimamenn segja margir hjartað í borginni, og víst er hún þekktasta kennileitið og þrátt fyrir að nú orðið teygi fjórar brýr sig yfir Hooghly-fljótið, og tengi Kolkata og systurborgina Howrah á vesturbakkanum, þá er Howrah-brúin enn sú langfjölfarnasta af þeim en yfir hana fara um 100 þúsund bílar dag hvern og um 150 þúsund gangandi vegfarendur. Á árum áður fóru líka nokkur þúsund kýr yfir brúna dag hvern en það er ekki leyft lengur. Þetta er sjötta lengsta hengibrú jarðar en engin önnur er jafn mikið notuð, og er talið að notkunin hafi áratugum saman verið langt yfir þolmörkum brúarinnar.

Kolkata-borg hefur gengið gegnum margskonar breytingar. Ekki eru til að mynda nema 18 ár síðan breytt var um nafn á borginni sem hét áður Kalkútta. Hún var byggð upp á bökkum Hooghly-fljóts af hinu breska Austur-Indíafélagi sem náði á átjándu öld völdum í þessu víðfeðma landi, og þegar bresk stjórnvöld tóku við stjórninni á nítjándu öld varð Kalkútta höfuðborgin en hún var einnig orðin miðstöð viðskipta í hinu víðfeðma Bengal-ríki. Á síðustu öld var svo smám saman dregið úr mætti Kalkútta, Nýja-Delí varð höfuðborgin og við sjálfstæði og uppskiptingu Indlands árið 1947 varð stór hluti Bengal að Austur-Pakistan, sem nú er Bangladess, og þar með missti borgin stóran og mikilvægan hluta baklands síns.

En Kolkata skrapp þó ekki saman, þótt hún missti fyrri efnahagslegan styrk. Fólkinu hefur sífellt fjölgað og er hún í dag næstfjölmennasta borg Indlands – í henni búa yfir 14 milljónir manna – og er ein sú þéttbýlasta á jörðinni. Og hún er höfuðstaður ríkisins sem nefnist í dag Vestur-Bengal. Borgin hefur löngum verið rómuð miðstöð menningar, menntunar og lista á Indlandi en um og upp úr aldamótunum 1900 var skáldið Rabindranath Tagore (1861-1941) fyrir miðju menningarlífsins en þessi fjölhæfi listamaður, sem var einnig tónlistar- myndlistar- og kennimaður, varð fyrstur Indverja, og í raun Asíubúa, til að hreppa Nóbelsverðlaunin, árið 1913. Og brúin var reyndar árið 1965 nefnd eftir Tagore, Rabindra Setu, en það nafn hefur aldrei fest við hana.

Engin fegurðarverðlaun

Howrah-brúin er eins og segull í miðri Kolkata, segull sem dregur að sér fólk og vörur. Hún fengi seint fegurðarverðlaun, og er þvert á móti allklunnaleg með neti breiðra stálbitanna sem halda henni saman. En hún þykir vel og traustlega hönnuð en hafið milli turnanna sem bera brúna uppi er um 460 metrar. Þrátt fyrir að ferjur gengju strax á 18. öld milli bakka fljótsins, og geri enn, þá töldu stjórnvöld í Kalkútta afar mikilvægt að það yrði brúað og lausnin var gríðarmikil flotbrú sem fyrst komst í gagnið árið 1871 en oft gekk brösuglega að halda henni opinni. Verkfræðingar þess tíma sáu þó ekki aðra lausn, brúarhafið væri of breitt og leðjan of mikil í farveginum til að reisa stöpla. En síðar komu nýjar lausnir til sögunnar og ýmsar voru skoðaðar. Að lokum var fýsileg lausn fundin – að reisa gríðarmikla hengibrú – og bygging brúarinnar nýju hófst um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Og eftir allrahanda erfiðleika og uppákomur, þar sem heimsstyrjöld setti strik í reikninginn, var umferð hleypt á hana 1943.

Fjölskrúðugt mannlífið

Ein knýjandi ástæða fyrir byggingu brúarinnar var sú að á vesturbakkanum, gegnt Kolkata og alveg við brúna, er Howrah-lestarstöðin, sem er ekki bara sú fyrsta sem reist var á Indlandi heldur enn sú stærsta og notuð af flestum. Og þangað berst gríðarstór hluti allra flutninga til Kolkata, ekki bara fólk heldur líka vörur, og að sama skapi fara vörur frá borginni að hluta með lestum þaðan. Og fjöldinn sem fer um stöðina er með ólíkindum – um tvær milljónir manna á dag.

Það er heillandi að fylgjast með iðandi og gríðar fjölbreytilegu mannlífinu við og á Howrah-brúnni. Við lestarstöðina er fólk sífellt að koma og fara enda fara yfir sex hundruð farþegalestir um stöðina á hverjum sólarhring. Á tröppum skammt frá lestarstöðinni sem liggja niður í fljótið er oft margmenni, sumir afklæðast að nærfötum undanskildum, sápa sig og stinga sér í bað, konur og karlar á aðskildum tröppum. Ofar í tröppunum situr fólk sem ýmist er að bíða eftir vinum og vandamönnum með einhverri lestinni, eða bíður með farangur sér við hlið eftir að geta sjálft lagt upp í ferð. Tilsýndar má sjá látlaust streymi gangandi vegfaranda á brúnni miklu og þegar slegist er í för með þeim, eftir að hafa komist gegnum þröng götusala sem selja allskyns varning við brúna, þá er þar fjölbreytileg mannlífsflóra. Áberandi eru erfiðismenn sem bera þungar byrðar, oftast á höfðinu, og fara eins hratt yfir og þeir geta tiplandi á sandölum og margir berfættir. Þarna eru skólabörn á ferð í skólabúningum, húsmæður með vörur í skjöttum, glaðbeittir ungir vinir sem gantast við erlendan ferðalang og líka indverskir ferðamenn sem stöðva á miðri brú og sýna ættingjum í myndsamtali hvar þeir eru staddir. Á meðan þjóta allrahanda farartæki eftir miðri búinni; mishrörlegar hópferðabifreiðar, hjón saman á bifhjólum og sum með börn að auki, fólk á reiðhjólum, rikksjóar, mótordrifnir eða stignir, og meira að segja sumir dregnir af hlaupandi mönnum en Kolkata er eina borg Indlands þar sem það má enn sjá.

Þegar komið er yfir brúna til Kolkata er sjónarspilið ekki síðra því við brúna er víðfrægur og umfangsmikill blómamarkaður borgarinnar, þar hefjast viðskipti fyrir sólarupprás og standa fram á kvöld. Beggja vegna við markaðinn er síðan vöruflutningamiðstöð mikil og verkamenn strita við að draga og bera þangað og þaðan vörur allan sólarhringinn. Þarna er aldrei stöðvað og glamrið og höggin frá brúnni yfir höfði fólksins er hinn þungi og seiðmagnaði hjartsláttur Kolkata-borgar.