200 ár Þess er minnst að Jón Árnason þjóðsagnasafnari fæddist árið 1819.
200 ár Þess er minnst að Jón Árnason þjóðsagnasafnari fæddist árið 1819.
Börn Árna Böðvarssonar málfræðings og Bjarna Vilhjálmssonar þjóðskjalavarðar hafa fært íslensku þjóðinni að gjöf höfundarrétt að menningararfinum í útgáfu þeirra Árna og Bjarna á Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Börn Árna Böðvarssonar málfræðings og Bjarna Vilhjálmssonar þjóðskjalavarðar hafa fært íslensku þjóðinni að gjöf höfundarrétt að menningararfinum í útgáfu þeirra Árna og Bjarna á Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, tók við gjafabréfinu sem fulltrúi þjóðarinnar við athöfn á heimili Vilhjálms Bjarnasonar, sonar Bjarna, hinn 14. september sl. Þar voru börn þeirra Árna og Bjarna samankomin.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar voru gefnar út í sex bindum á árunum 1954-1961. Árni og Bjarni bjuggu þjóðsögunum búning og gerðu nafnaskrá sem fylgir þjóðsagnasafninu.

Í gjafabréfinu kemur m.a. fram að þeir Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson eigi eftir sem áður sæmdarrétt að útgáfunni. Þeir unnu að verkinu á árunum 1951-1961. Flest þau sem færðu þjóðinni gjöfina áttu nokkurn hlut að máli með prófarkalestri.

„Útgáfan á Þjóðsögum Jóns Árnasonar var stolt og heiður Árna og Bjarna, ásamt öðrum og fjölbreyttum verkum þeirra.

Þess er óskað að Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og aðrar þær stofnanir, sem munu varðveita og vinna úr þessum menningararfi, njóti stuðnings til að menningararfurinn varðveitist í hug íslensku þjóðarinnar,“ segir enn fremur í gjafabréfinu. gudni@mbl.is