Aron Þórður Albertsson skrifar frá Beijing aronthordur@mbl.is Netsölurisinn Alibaba Group Holding hyggst á næstu árum einbeita sér í auknum mæli að því að byggja fyrirtækið upp á alþjóðavísu.

Aron Þórður Albertsson

skrifar frá Beijing

aronthordur@mbl.is

Netsölurisinn Alibaba Group Holding hyggst á næstu árum einbeita sér í auknum mæli að því að byggja fyrirtækið upp á alþjóðavísu. Þá verði minni áhersla lögð á markaðssetningu á kínverskri grundu enda býr fyrirtækið nú að gríðarlega stórum viðskiptavinahópi þar í landi. Þetta var meðal þess sem fram kom í tilkynningu sem Alibaba sendi frá sér á mánudag skömmu áður en fyrirtækið hóf fjárfestakynningu sína í Hangzhou í austurhluta Kína. Yfirlýsingin var í takti við það sem Zhang Yong, forstjóri Alibaba, hafði gefið út á tuttugu ára afmæli fyrirtækisins 11. september sl. Það var jafnframt fyrsta yfirlýsing hans í starfi en hann tók við sem forstjóri Alibaba 10. september sl. af Jack Ma Yun.

„Sú staðreynd að Alibaba setur alþjóðavæðingu framar eftirspurn innanlands sýnir að fyrirtækið er tilbúið að veðja á meiri vöxt á alþjóðavísu en innanlands. Það verður þó að teljast eðlilegt enda er sá markaður alltaf að færast nær því að vera mettur,“ sagði Li Yi, sérfræðingur í félagsvísindum hjá Internet Research Center of the Shanghai Academy of Social Sciences, þegar kínverskir fjölmiðlamenn inntu hann eftir viðbrögðum.

Í umræddri tilkynningu var farið ítarlega í saumana á markmiðum Alibaba til skamms og langs tíma. Óhætt er að segja að fyrirtækið stefni á gífurlegan vöxt á næstu árum, en meðal þess sem fram kemur þar er að fyrirtækið stefni á selja vörur fyrir samtals um 1,4 trilljónir bandaríkjadala á næstu fimm árum. Þannig muni fyrirtækið jafnframt halda áfram að stækka að því er fram kemur í framangreindri tilkynningu. Þá gera stjórnendur Alibaba aukinheldur ráð fyrir því að undir lok árs 2036 verði viðskiptavinir þess á heimsvísu orðnir tveir milljarðar ásamt því sem starfsmannafjöldi fyrirtækisins verði alls um 100 milljónir talsins.