— Morgunblaðið/Eggert
Jacques Chirac, fyrrverandi borgarstjóri í París, forsætisráðherra og síðar forseti Frakklands, var jarðsettur í vikunni með viðhöfn. Það kallaði fram margvíslegar minningar frá löngum kynnum.

Jacques Chirac, fyrrverandi borgarstjóri í París, forsætisráðherra og síðar forseti Frakklands, var jarðsettur í vikunni með viðhöfn. Það kallaði fram margvíslegar minningar frá löngum kynnum.

Fjölbreyttur ferill

Chirac átti um flest mjög glæsilegan feril en þó óvenjulegri en mætti ætla við fyrstu sýn.

Það er vel þekkt, en engu að síður sérstakt, að franskir stjórnmálamenn í fremstu röð gegna iðulega embætti borgarstjóra í borgum af ýmsum stærðum um leið og þeir sitja á þingi eða í ríkisstjórn.

Chirac var á virðulegasta enda þessarar hefðar, því hann var borgarstjóri Parísar frá 1977 til ársins 1995. Á þessu skeiði gegndi Chirac embætti forsætisráðherra á árunum 1986-88 og áður á árunum 1974-76. Á fyrra skeiðinu var hann forsætisráðherra d'Estaings flokksbróður síns en á hinu síðara var hann forsætisráðherra Mitterrands, pólitísks andstæðings.

Chirac var borgarstjóri Parísar þar til hann varð forseti árið 1995 og gegndi því embætti til ársins 2007.

Hann var um skeið forseti systurflokka Sjálfstæðisflokksins í Evrópu og hittust þeir bréfritari undir þeirri regnhlíf. En fundirnir áttu eftir að verða margir og undir ólíkum höttum, borgarstjóra og síðar forsætisráðherra og í hans tilviki forseta en samskiptin við forseta Frakklands fara að mestu fram á milli forsætisráðherra af Íslands hálfu, enda forseti Frakklands æðsti stjórnmálamaður franska stjórnkerfisins og hefur raunar mun meira vald en tíðkast um stjórnmálaforingja víðast í Evrópu. Þeirri skipan var komið á að undarlagi Charles de Gaulle með tilkomu „5. lýðveldisins“ en hershöfðinginn setti það sem skilyrði fyrir endurkomu sinni í frönsk stjórnmál, eftir lausatakatímabilið í kjölfar frelsunar Frakklands undan járnhæl Þýskalands.

Óvenjuleg byrjun

Chirac ákvað ungur að skella sér í stjórnmálaslaginn. En það vill gleymast hvernig upphafið var því að hann hóf sinn feril með því að skrá sig í flokk franskra kommúnista og hafði sig þar í frammi í nærri áratug. Það hafði afleiðingar sem slíku fylgdu á þeim tíma. Hann vildi komast í átökin í Alsír en yfirmenn hersins, sem þekktu fylgilag hans við kommúnista, reyndu að koma í veg fyrir það. Eins var hann í basli með að fá samþykki fyrir vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.

Þegar kommúnisminn rann af hinum unga stjórnmálamanni söðlaði hann algjörlega um og kaus sér flokkinn sem fylgdi de Gaulle.

En kannski varð þetta skeið í lífi hans til þess að festa í sessi velvilja í garð Rússa. Hann leit alla tíð á Pútín sem persónulegan vin sinn, enda vel heima í rússnesku og til dæmis um það er þýðing hans á Eugene Onegin eftir Pushkin á frönsku.

Sveiflast til

Þegar Chirac lét fyrir alvöru til sín taka í landstjórnarmálum þá gerir hann það sem efasemdamaður um EEC, eins og EU hét þá, eins og dæmið frá 1979 sýnir: „EEC er getulaust og staðreyndin er sú að það eru alþjóðlegir auðhringir sem eiga síðasta orðið um lagasetningu á svæði þess. Þetta er sú Evrópa sem blasir við Frökkum og þeir eru fastir í því kviksyndi sem hún er!“

Það má nefna fleiri leiðtoga sem hafa veifað þessu tré í upphafi brautar. John Major lét ekki standa sig að því að sjást í hópi samsærismanna þegar atlagan var gerð að frú Thatcher sem leiddi til falls hennar. Frægt var að þegar örlagaríkasti fundur samsærismanna var haldinn kom Major sér undan að mæta þar sem hann ætti tíma hjá tannlækni. Þessi feluleikur dugði honum til þess að frú Thatcher beindi stuðningi sinna manna að honum fremur en að þeim sem verið höfðu áberandi í hópi „svikaranna“. Og hann varð eftirmaðurinn. Sá hún mjög eftir þeim stuðningi síðar. Eins og sést hefur á slagnum um brexit er varla nokkur jafn ákafur undirlægjumaður ESB og John Major er og svífst hann einskis.

Reyndar eru mörg dæmi um þessa tvöfeldni í Íhaldsflokknum. Cameron og William Hague kynntu sig til sögunnar sem virka efasemdamenn um ESB-aðild Breta, en þegar þeir nálguðust valdið og áhrifin verulega fór fyrir þeim eins og svo mörgum öðrum.

Málið sem notað var til að fella frú Thatcher var ERM, aðlögunarefnið sem tengdist drauminum um hina sameiginlegu mynt. Frúin hafði illan bifur á þeirri hugmynd, en andstæðingarnir innan flokks notuðu hana til að koma henni frá. Bretar urðu svo aðilar að ERM og það endaði með miklum ósköpum fyrir þá og stórtjóni þegar alþjóðlegi braskarinn Soros gerði atlöguna að Bretum og Svíum með þeim afleiðingum að þeir töpuðu óhemjulegum fjármunum af heimsókn sinni í þetta spilavíti. Frú Thatcher hafði haft rétt fyrir sér.

En kannski varð þetta áfall til þess að Blair mistókst að koma Bretum í evrusamstarfið og eins að Svíar eru enn utan þess, þótt þeir séu, samkvæmt ESB-reglum, skuldbundnir til að taka upp evruna.

Forsetinn

Chirac lét sig hafa það að bera Maastricht-sáttmálann undir þjóðina, en hann var stórt skref í átt til eins ríkis í álfunni, sem er lokadraumurinn. Þegar lagt var í þjóðaratkvæðið með sáttmálann sýndu kannanir að 65% Frakka styddu aðild að honum. Kannski hafa þær kannanir orðið til þess að forsetinn lagði í þjóðaratkvæðið. En þegar atkvæðin komu upp úr kassanum studdi aðeins 51% þjóðarinnar þá niðurstöðu. Þá var ekkert fjasað um að munurinn væri sáralítill eins og gert er í umræðunni um útgöngu Breta nú, þar sem 52% samþykktu útgönguna.

Frakkar felldu hins vegar síðar nýja stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæði. ESB-leiðtogarnir þorðu ekki að nota hefðbundna aðferð sína, sem er að halda nýjar atkvæðagreiðslur þar til lýðurinn þreytist og segir já. Aðferðin sem nú var notuð var að samþykkja allt sem var í brotlentu stjórnarskránni og setja í svokallaðan Lissabon-sáttmála, en taka út alla beina vísun í orðið stjórnarskrá, þótt afleiðingin af báðum plöggum væri nákvæmlega hin sama.

David Cameron lofaði því hátíðlega að láta fara fram þjóðaratkvæði um Lissabon-sáttmálann yrði hann forsætisráðherra. Það varð hann, en sveik loforðið með aumu yfirklóri. Meðal annars þess vegna trúði enginn hjalinu um að hann myndi gera nýjan samning við ESB fyrir þjóðaratkvæðið um brexit í samræmi við kröfur sínar sem myndu gjörbreyta stöðu Breta í ESB. Merkel kanslari hafnaði öllum raunverulegum óskum hans og aðrir höfðu þá ekkert um málið að segja. Cameron fékk aðeins orðalagsbreytingar sem ekkert gildi höfðu og var þó með látalæti um árangur sinn. Þeir sem sáu um baráttuna gegn útgöngu sögðu honum að því fyrr sem kjósendur gætu gleymt hans sneypuför því betra. Cameron hafði heitið því margoft að fengi hann ekki sínar breytingar fram myndi hann leggja til við þjóðina að hún segði já við útgöngu. Hann fékk ekkert og sveik það heit líka.

Góður maður, grimm örlög

Jacques Chirac var mjög hlýr maður í viðkynningu og léttur í framgöngu og gæddur kímnigáfu sem var hvorki ögrandi né uppáþrengjandi. Hann naut þess að skiptast á skoðunum og umgangast fólk, svo hann naut lengi velvildar almennings.

En síðasta kjörtímabil hans reyndist honum erfiðast, þótt hann fengi kosningu í það sinnið með miklum meirihluta atkvæða. En því réð franska kosningakerfið en ekki vinsældir forsetans.

Foringi hins stórflokksins, sósíalista, lenti í þriðja sæti í fyrri umferð kosninganna og datt því út. Jean Marie Le Pen, forystumaður Þjóðfylkingarinnar, komst því í fyrsta sinn í lokaslaginn og „neyddust“ því stuðningsmenn sósíalista til að kjósa Chirac sem illskárri kost. Þótt hann fengi rúm 80 prósent atkvæðanna var staða hans nú veik.

Hann reyndi að styrkja hana með því að hlaupa frá stuðningi við Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í atlögunni gegn Saddam Hussein.

Það hafði ætíð þótt veikur blettur á Chirac að vingast um of við einræðisherra með engan lýðræðislegan bakgrunn og þess háttar samband hafði verið við Saddam Hussein. Þrálátur orðrómur var að auki um að einræðisherrann hefði lætt að forsetanum velvildarfé sem svaraði til hálfs milljarðs íslenskra króna. Það verður þó að teljast ósannað.

Forsetinn seldi svo Hussein kjarnorkuver, sem Ísrael laskaði verulega með fyrirbyggjandi loftárásum sínum. Á síðustu pólitísku metrunum voru franskir dómstólar að gera forsetanum fyrrverandi lífið leitt og enduðu með því að dæma hann til tveggja ára skilorðsbundinnar fangavistar, en Chirac var þá langt leiddur af sjúkdómum, meðal annars elliglöpum.

Þessi tilþrif rannsóknardómstóla urðu þó ekki til þess að forsetinn fengi ekki fullan sóma af ríkisins hálfu þegar kom að útför hans.

Fyrsti forseti 5. lýðveldisins, og annað stjórnmálastórmennið af tveimur, á eftir Napóleon, í franskri sögu, snuðaði hið opinbera um stórfenglega útför sem honum hefði örugglega staðið til boða og var jarðaður nánast í kyrrþey samkvæmt fyrirmælum hans. Það var aldrei áhættulaust að hunsa fyrirmæli hershöfðingjans og það var ekki heldur gert í þessu tilviki.

Smælki úr minningabanka

Eins og fyrr segir á bréfritari margar minningar af kynnum við Jacques Chirac á langri leið.

Sjálfur sagði hann einu sinni efnislega þegar þessir áttu tveggja manna tal. „Lýðræðisskipulagið leiðir til þess að þeir menn sem maður kynnist í alþjóðlegu samstarfi koma og fara. Það er gott og blessað og ekki skal amast við því. En við tveir erum alltaf til staðar. Það er ósköp þægilegt að geta gengið að minnsta kosti að einum manni vísum, hvort sem maður er borgarstjóri, forsætisráðherra eða forseti.“

Og þetta var rétt. Við hittumst alloft í Hotel de Ville, stundum á fundum, en stundum í dýrðlegum fögnuði í þessu ráðhúsi Parísar. Dýrindis rauðvíni var hellt í glös en um leið og fjölmiðlar voru á braut var glas borgarstjórans fjarlægt og komið með glas með Corona, mexíkönskum bjór, ef rétt er munað. Reyndar hafði Kohl kanslari sama hátt á og þeir báðir voru sólgnir í léttreyktar pylsur eða þunnt niðurskornar skinkusneiðar eða annað af því tagi. Sjálfsagt hefur áhætta kanslarans ekki verið jafnmikil og forsetans hvað rauðvínið varðar.

Minnisblöð voru gjarnan skrifuð í kjölfar mikilvægra alþjóðlegra funda og fjölluðu þau um þau mál sem efst voru á baugi í veröldinni þá stundina. En utan funda og ræðuhalda urðu stundum eftirminnileg atvik sem engu skiptu þó um framþróun mannkyns (svo maður gerist hátíðlegur). Eitt sinn eftir leiðtogafund í París þar sem fundað var á efsta þrepi leiðtoga Nato og Rússa var kvöldverðarboð í Élysée-höllinni fögru. Þar gekk allt fyrir sig með hefðbundnum hætti hvað gamla leikþáttinn um rauðvínið varðaði.

Þegar sal hafði verið lokað hófst tal yfir hið stóra hringborð þar sem setið var yfir kræsingum. Það voru ógleymanlegar efnislegar umræður. En öðru hvoru var skálað fyrir smáu eða stóru og stjórnaði gestgjafinn því að sjálfsögðu.

Einhverjir makar höfðu fylgt sínum leiðtogum til Parísar, en voru ekki á þessum „vinnukvöldverði“. Þannig hafði Hillary Clinton fylgt Bill til Parísar. Frakklandforseta þótti því sjálfsagt og tilhlýðilegt að skála fyrir bandarísku forsetafrúnni fjarstaddri. Var það gert með kostum. Fljótlega hallaði aðstoðarmaður gestgjafans sér að honum og hvíslaði í eyra hans. Í kjölfarið sagði Chirac að sér hefði verið bent á að önnur forsetafrú væri í París, frú Yeltzín, og nú skyldum við skála fyrir henni með jafn góðum óskum og fyrir Hillary rétt áðan. Allir litlu drengirnir teygðu sig í staupið sitt og lyftu því en þá var sagt „niet“ með þrumurödd.

Staupin stöðvuðust öll mislangt frá vörum hvers og eins. Hvað, sagði gestgjafinn á sínu máli og var þýtt. „Niet“ sagði Yeltzín aftur og bætti (efnislega) við: „Þegar ég var skorinn upp við hjartabilun nýverið þá lét sú kona sig hafa það að sofa á sitt græna eyra á meðan ég lá undir hnífnum. Það kemur ekki til greina að skála fyrir slíkri kerlu, þótt fjarri heimahögum séum.“

Og staupin sigu í átt að borðinu og nokkur stund leið áður en nokkur teldi rétt að teygja sig í þau á ný, uns gestgjafinn fann nýtt og óumdeilt tilefni. Fleira sögulegt gerðist í þessu hátignarboði en ekki eru efni til að rifja það upp að svo stöddu.

Margbrotinn maður

Chirac átti sér margvísleg hugðarefni auk stjórnmálanna og var hann þannig mikill áhugamaður um kínverska sögu, list landsins og menningu og þótti þekkingu hans á öllum þeim þáttum viðbrugðið.

Það kom því ekki á óvart þegar Xi Jinping forseti Kína minntist forsetans fyrrverandi með mikilli hlýju og að kínverskir miðlar gerðu mjög mikið úr fráfalli hans og útför.

Það var stundum haft á orði að Jacques Chirac hefði skipt oftar um meiriháttar skoðanir í stjórnmálum en hann skipti um meiriháttar hjákonur.

Um þetta seinna hafa öfundarmenn hans sjálfsagt ýkt en það var dálítið til í hinu fyrra.

En bréfritara þykir vænt um allar þær minningar sem hann á um þann mann og á að auki í safni sínu margar myndir af þessum tveimur frá ýmsum skeiðum og ýmsum stöðum sem skerpa þær.

Fari hann vel.