Friðarósk Sýrlensk börn móta friðardúfu úr mósaík í Al Farah-miðstöðinni.
Friðarósk Sýrlensk börn móta friðardúfu úr mósaík í Al Farah-miðstöðinni. — Morgunblaðið/Gúna
Guðrún Hálfdánardóttir guna@mbl.is Sjö milljónir Sýrlendinga hafa flúið land og álíka fjöldi er á hrakhólum í eigin landi. Gayed Sened er ein þeirra sem komust yfir til Tyrklands eftir að hafa verið á flótta undan ógnarstjórn Ríkis íslams um árabil.

Guðrún Hálfdánardóttir

guna@mbl.is

Sjö milljónir Sýrlendinga hafa flúið land og álíka fjöldi er á hrakhólum í eigin landi. Gayed Sened er ein þeirra sem komust yfir til Tyrklands eftir að hafa verið á flótta undan ógnarstjórn Ríkis íslams um árabil. Þegar skera átti tunguna úr litlum syni hennar fyrir að mæla á ólögmætri tungu, ensku, að mati vígasamtakanna, var ekkert annað í boði en að flýja land ef þau vildu halda lífi.

Í kvennamiðstöðinni SADA í tyrknesku borginni Gaziantep hefur Gayed öðlast nýtt líf en miðstöðin var meðal annars stofnuð með stuðningi Íslendinga og UN Women. Íris Björk Kristjánsdóttir hefur starfað í rúm tvö ár hjá UN Women í Tyrklandi og eitt af hennar fyrstu verkefnum var að stofna SADA-miðstöðina sem hefði það að aðalmarkmiði að bæta stöðu kvenna og stúlkna á flótta í Tyrklandi.

„Konum og stúlkum er mun frekar haldið inni á heimilinu, þær ganga síður í skóla, eru frekar seldar í hjónabönd og mun líklegri til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þær eru einfaldlega líklegri til að verða fyrir skaða, vegna þessara aðstæðna sem þær eru settar í, en karlar og strákar. Á sama tíma beinist fjármagnið og allur viðbúnaður að þörfum karla frekar en kvenna og nýtist þeim betur,“ segir hún.

Fyrsta greinin í greinaflokknum Á leið til lífs birtist í Sunnudagsmogganum í dag.