Þingvellir Staður stórbrotinnar náttúru og ýmissa nýrra uppgötvana.
Þingvellir Staður stórbrotinnar náttúru og ýmissa nýrra uppgötvana. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fjallað verður um skráningarvinnu í tengslum við fornleifar á Þingvöllum á málþingi sem verður í dag á gestastofu þjóðgarðsins á Hakinu. Þar verður sagt frá notkun nýrrar tækni við vinnslu á útlínum búðatófta.

Fjallað verður um skráningarvinnu í tengslum við fornleifar á Þingvöllum á málþingi sem verður í dag á gestastofu þjóðgarðsins á Hakinu. Þar verður sagt frá notkun nýrrar tækni við vinnslu á útlínum búðatófta. Einnig verður rætt um hvernig notkun landupplýsingakerfa og vefsjáa nýtist til miðlunar upplýsinga. Í lok þingsins fer fram formleg afhending örnefnaskráningar þjóðgarðsins til Landmælinga Íslands og svo opnun nýrrar vefsjár þjóðgarðsins.

Málþingið hefst klukkan 13 og eftir opnunarávarp Einars Á.E. Sæmundsen þjóðgarðsvarðar flytja erindi Margrét Hrönn Hallmundardóttir, Gunnar Grímsson og Kevin Martin og Oddgeir Isaksen fornleifafræðingar.

Farið hefur verið yfir helstu mannvistarsvæði á Þingvöllum og þau skráð. Í þinghelginni hafa t.d. komið í ljós fleiri minjar en áður hafa verið skráðar. Meðal annars hefur fengist staðfest að 30 metra löng rúst, ásamt fleiri húsum, er á Miðmundartúni sunnan við Þingvallabæinn. Af öðrum minjum sem skráðar hafa verið eru leifar af fleiri þingbúðum, fundur fornlegra minja á Spönginni og búið er að kortleggja herstöð úr seinni heimsstyrjöldinni á Hakinu. Í skráningarvinnu hefur athygli einnig verið beint að Þingvallavatni og mögulegum fornleifum neðanvatns. Nokkrar minjar hafa verið skráðar undir vatnsyfirborði og komið hafa vísbendingar um ýmsar óþekktar minjar í Öxará. sbs@mbl.is