Vala Kristín og Júlíana Sara Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir. Þær tvær.
Vala Kristín og Júlíana Sara Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir. Þær tvær. — Morgunblaðið/Eggert
Leikkonurnar Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir leika saman í annarri þáttaröðinni af Venjulegu fólki sem fjallar um líf tveggja vinkvenna og dramað sem fylgir lífsgæðakapplaupi þeirra. Sigurborg Selma Karlsdóttir sigurborg@mbl.is

Vala Kristín og Júlíana kynntust í Versló en urðu ekki vinkonur fyrr en Júlíana flutti til Londnon í leiklistarnám en þær höfðu báðar tekið þátt í nemendasýningum Verzlunarskólans á sama tíma. „Ég man alltaf svo sérstaklega eftir því þegar ég kom heim til Íslands og við fórum út að skokka saman og þarna komumst við að því hvað við erum ótrúlega líkar að mörgu leyti,“ segir Júlíana og Vala bætir við: „Svo byrjuðum við að spjalla eitthvað og úr varð 40 mínútna hláturskast og það var svona byrjunin á okkar vinskap.“

Vala og Júlíana fundu fljótlega að þær langaði að búa til verkefni saman og þegar Júlíana útskrifaðist og flutti heim til Íslands árið 2013 byrjuðu þær að skrifa niður hugmyndir. „Við skrifuðum allskonar sem við tengdum við og sem okkur fannst fyndið og við ætluðum upphaflega að gera leikrit. Fyrrverandi maðurinn minn var að vinna fyrir 365 miðla á þessum tíma og sagði að það væri eitthvert bil í bransanum. Þá datt okkur í hug að gera sketsaþætti, sérstaklega því þetta voru mjög sketsa-kenndar hugmyndir sem við vorum með. Við byrjuðum á að taka upp tvo sketsa á iphone 4 og mættum á skrifstofur 365 miðla og sýndum þeim og þá byrjaði þetta að rúlla,“ útskýrir Júlíana en þátturinn sem úr varð ber heitið Þær tvær en tvær seríur af þeim þáttaröðum fóru í loftið við góðar viðtökur.

Lukka að vinna saman

Spurðar hvernig samvinnan hafi gengið eru Vala og Júlíana sammála um að það sé mikil lukka að fá tækifæri til að vinna saman.

„Það er ótrúlega mikill kostur að vinna með bestu vinkonu sinni af því að við getum verið svo beinskeyttar hvor við aðra. Hún getur alltaf sagt mér ef eitthvað mætti fara betur og ég sömuleiðis við hana. Ég held að vinasambandið sé sterkur grunnur í samvinnunni,“ svarar Júlíana.

Varðandi nýju þáttaröðina af Venjulegu fólki hafa handritshöfundarnir fjórir hist í hverri viku til þess að skrifa. Spurðar hvort það séu alltaf nægar hugmyndir á borðinu segir Júlíana það auðvelt að koma með efni þegar þær vinna með tveimur öðrum snillingum, þeim Fannari Sveinssyni og Dóra DNA. Þá spinnst fljótlega efni út frá samtali og hugmyndum.

„Það er held ég mikill misskilningur að maður þurfi að bíða eftir því að fá andann yfir sig til þess að geta komið með góðar hugmyndir,“ segir Vala Kristín, „þetta snýst ekkert um að fá andann yfir sig, þetta snýst um að vinna. Maður lærir verklag og leið til að hugsa og spyrja réttu spurninganna.“

Vandamálin verða svolítið skökk

Varðandi skrifin á annarri seríu segja þær það svolítið auðveldara að fara af stað þar sem þær vita hvernig karakterarnir eru núna og eru því nú bara að drífa söguna áfram.

„Mér fannst eiginlega auðveldara að skrifa aðra seríu, þá þekkir maður karakterana og veit hvað þeir gera og hvað er skemmtilegt að sjá þá fara út í og hvaða vandamál við viljum sjá þá leysa,“ segir Júlíana.

Karakterar Völu og Júlíönu í þáttunum bera sömu nöfn og þær og því kannski ekki úr vegi að spyrja hvort þeir séu ef til vill byggðir á þeim sálfum.

„Já, ég myndi segja að grunnurinn að Júlíunu í þáttunum væri grunnurinn á mér og ég myndi segja að við hefðum byrjað þannig að grunnurinn á karakterunum er við og svo fórum við alltaf lengra og lengra frá okkur sjálfum,“ svarar Júlíana.

„Þetta er samt ekki bara grunnur okkar sjálfra heldur líka svolítið grunnurinn í okkar vinasambandi. Frá því að ég kynnist Júlíönu þá hefur hún verið í sambandi, í skóla, hún útskrifaðist, gifti sig eignaðist tvö börn á meðan ég var alltaf bara „aftur orðin einhleyp“ og að djamma á meðan hún var bara uppi á fæðingardeild,“ segir Vala og hlær. „Þannig að það var alltaf þessi kontrast á milli. Þessi sem er komin „lengra í lífinu“ á móti þessari sem er alltaf að leita, sú dínamík. Það er ógeðslega skemmtilegt að eiga svona náið vinasamband þar sem við erum á svona ólíkum stað. Vandamálin verða svo skökk.“ Þrátt fyrir ólíkar leiðir í lífinu hefur þó aldrei slitnað upp úr sambandi vinkvennanna, svipað og hjá nöfnum þeirra sem við sjáum á skjánum.

Ranka við sér á frumsýningu

Vala og Júlíana eru sammála um það að tækifærð að sjá hugmyndina sína verða að veruleika vera það skemmtilegasta við ferlið.

„Að fá einhverja hugmynd sem er kannski bara pínulítil og kannski bara léleg og svo allt í einu ranka við sér á frumsýningu og maður spyr sig bara hvernig í andskotanum komumst við hingað?“ útskýrir Vala. „Og að sjá hvernig eitthvert lítið samtal getur allt í einu orðið að verkefni sem 50 manns bera ábyrgð á.“ Þær segja báðar tilfinninguna afar súrrealíska. „Við höfum líka hugsað (í þessum aðstæðum) bara hvenær ætlar fólk að fatta að við vitum ekkert hvað við erum að gera, hvenær kemst upp um mann,“ segir Vala og hlær.

Þær segja þó að á sama tíma geti reynst erfitt að sleppa tökunum og treysta fólkinu í kringum sig í ferlinu. Það geti vissulega tekið á að vera búin að skrifa senu í marga mánuði, svo taki kannski bara hálftíma að leika hana og þá sé það bara búið.

„Við áttum það til að keyra frá setti og leggja bílnum og gráta,“ segir Júlíana.

Ómögulegt að gera upp á milli

Aðspurðar hvort þær eigi uppáhalds karakter úr þáttunum geta þær hvorugar gert upp á milli enda þyki þeim svo vænt um alla karakterana. Dýnamíkin á milli karakteranna sé svo ólík og skemmtileg að það sé eiginlega ekki hægt að velja eitthvað eitt.

Þá segjast þær jafnframt oft hafa hlegið mikið við tökur, og eitt sinn þurfti að fresta tökum um klukkutíma vegna óstöðvandi hláturskasts. „Við fengum líka smá tiltal,“ rifjar Júlíana upp og þær hlæja báðar. „Þetta var örugglega skemmtilegasti dagurinn í báðum seríunum þegar við hlógum svo mikið að við fegnum tiltal. Svo var ég í svo miklu uppnámi að hafa klúðrað þessu að ég fór að gráta, ég fór að gráta þegar ég var tilbúin fyrir næstu senu, þá var ég klædd í uppblásinn typpabúning. Þannig að ég stóð miður mín í upplásnum typpabúningi hágrátandi,“ útskýrir Vala Kristín. „Þarna hugsaði ég einmitt, þetta er nákvæmlega svona atriði sem ætti einmitt heima í þættinum,“ segir Júlína og hlær.

Aðspurðar að lokum hvort við megum búast við fleiri seríum svara Vala: „Jú, við erum byrjuð að skrifa þriðju seríu. Ef það gengur vel þá sjáum við bara hvort það verði tekið upp og við vonum það besta.“

Önnur þáttaröð venjulegs fólks kemur inn á Sjónvarp Símans Premium 16. október næstkomandi.