Hallgrímur Helgason fæddist 30. júní 1927. Hann lést 18. september 2019.

Útför Hallgríms fór fram 28. september 2019.

Með fáum orðum kveð ég Hallgrím Helgason, minn kæra vin og samstarfsmann. Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands þakka ég honum gefandi samvinnu um áratugaskeið við verndun hins glæsilega torfbæjar á Bustarfelli í Vopnafirði sem hefur verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 1943. Bustarfell er fornt höfuðból sem hefur verið hefur í ábúð sömu ættar frá 1532 að stofni til, aldagamalt. Minjasafnið á Bustarfelli er til húsa í bænum, en þar má meðal annars sjá safngripi úr eigu Bustarfellsættarinnar.

Þar fer fram vandað safnastarf þar sem skynja má órofna taug kynslóðanna. Hallgrímur var bóndi á Þorbrandsstöðu í Vopnafirði og meðfram bústörfum vann hann við viðhald á gamla bænum að Bustarfelli í góðu samstarfi við fjölskylduna og Þjóðminjasafn Íslands. Hallgrímur var afar fróður um þjóðhætti og fjölhæfur handverksmaður sem lét sér annt um vandað verklag og lagði hann alúð við að byggt væri á hefðum og þekkingu á fornum búskapar- og þjóðháttum. Hann brýndi okkur hin til góðra verka af reynslu og visku.

Völundarsmiðurinn og öðlingurinn Hallgrímur gladdist yfir hverjum áfanga viðgerða gamla bæjarins. Hallgrímur var virkur í Félagi íslenskra safna og safnmanna.

Hann þekkti forna búskaparhætti betur en flestir og miðlaði af þekkingu sinni til okkar samstarfsfólksins og safngesta þar sem sýndi hvers kyns handverk á vegum Minjasafnsins á Bustarfelli. Bustarfell er minjastaður sem á brýnt erindi við samtímann þegar áherslur um sjálfbæra þróun gefa minjunum þar enn dýpri merkingu til framtíðar litið. Bustarfell er sannarlega mikilvægur hlekkur einstaks torfhúsaarfs Íslands sem er á yfirlitsskrá Íslands vegna heimsminjaskrár Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Hallgrímur var öðlingur með glampa í augum og hlýtt vinarþel og þegar ég hugsa til hans koma upp margar ljúfar minningar. Ég minnist ánægjulegra samskipta um yfirstandandi viðgerðir hverju sinni á liðnum áratugum þar sem hann var ætíð ráðagóður um réttu aðferðirnar. Einnig vingjarnlegra ábendingar um þarfar viðgerðir sem ekki mættu bíða. Ég minnist einnig gleðistunda með góðu samstarfsfólki hjá Minjasafninu á Bustarfelli þar sem ávallt ríkir vinátta og hlý gestrisni.

Þá minnist ég ógleymanlegrar sýningaropnunar um álfkonudúkinn merka frá Bustarfelli. Ég minnist með hlýju ógleymanlegrar heimsóknar og skoðunarferðar um Vopnafjörð fyrir tveimur árum þegar hann sýndi mér heimahagana í blíðskaparveðri. Þessar minningar mun ég varðveita og öll þau góðu ráð sem hann gaf. Hallgrímur var kær vinur og samstarfsmaður sem gaf af sér og fyrir það er þakkað.

Með þekkingu sinni og miðlun hennar hafði hann mótandi áhrif á varðveislu torfhúsaarfsins og sanngildi hans. Hann er sannarlega einn af okkar merku frumkvöðlum og fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands þakka ég Hallgrími vináttu, samstarf og ómetanlegt framlag til þjóðminjavörslu á Íslandi. Ég votta fjölskyldu Hallgríms sem var honum svo kær mína innilegustu samúð. Heiðruð sé minning Hallgríms Helgasonar.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður.