Þegar skoðunum er ekki mætt með mótrökum, bara fallist á þær eins og sannleika, þá er hætt við því að skoðanir breytist í staðreyndir í huga þess sem heldur þeim fram og viðmælanda hans.

Ég held að við getum öll verið sammála um að frelsi til að hafa skoðanir og tjá þær með opnum hætti er algjört grundvallaratriði í samfélagi okkar. Sú tilhugsun að fólk treysti sér ekki til að setja fram skoðanir sínar er ákaflega dapurleg.

Stundum finnst mér að sameiginleg upplifun ákveðins hóps fólks geri það samt sem áður að verkum að fólk þori ekki að segja hvað það er að hugsa. Það hefur kannski ótal spurningar en þorir ekki að nefna þær af ótta við að verða úthrópað. Skoðanir þeirra séu rangar og heimskulegar og tilgangslaust að ræða þær.

Þetta er náttúrlega ekki gott. Sennilega ættum við að fá sem flestar spurningar upp á borðið, ræða þær og ef til vill komast að niðurstöðu. Það er enginn að segja að alltaf þurfi að finna ákveðið svar eða komast að ákveðinni niðurstöðu, en fólk fengi samt tækifæri til að fá raunveruleg rök í umræðu.

Við forðumst þetta hinsvegar því oft varðar þetta viðkvæm mál og óþægileg. Eins og þegar gamli skólinn mætir þeim nýja án þess að átta sig á því að kennslan hefur breyst, það eru komnar nýjar bækur og ný viðmið.

Ég gæti trúað því að þessi skortur á umræðu sé það sem ber ábyrgð á þessum pólum sem við sjáum nú í viðhorfum fólks víða um heim. Fólk leitar á staði þar sem skoðanir þess fá hljómgrunn og hættir að tala við þá sem eru á öndverðum meiði. Það er miklu þægilegra að hringja til dæmis í útvarpsþátt þar sem stjórnandinn er sammála þér en að reyna að tala við einhvern sem augljóslega vill bara rökræða málið eða nennir jafnvel ekki að hlusta á þig.

Annað sem fylgir þessu er að finna alltaf lægsta samnefnarann. Þegar tekið er dæmi um hina skoðunina þá er gjarnan fundinn mesti vitleysingurinn. Oft sá orðljótasti og hópur hans afgreiddur út frá því að þetta sé nú bara „svona fólk“.

Kannski finnst einhverjum þetta bara heppilegt kerfi. Þið með röngu skoðanirnar getið bara verið þarna. Við sem höfum réttu skoðanirnar, við ætlum að vera hér. En þetta er að sjálfsögðu óheppilegt. Þegar skoðunum er ekki mætt með mótrökum, bara fallist á þær eins og sannleika, þá er hætt við því að skoðanir breytist í staðreyndir í huga þess sem heldur þeim fram og viðmælanda hans.

Þannig er til dæmis með einn uppáhaldshóp minn: Fólkið sem veit að jörðin er flöt. Mögulega var tími þar sem það bara hélt það eða jafnvel grunaði það. En svo líður tíminn og enginn nennir að þrasa almennilega við fólk sem hefur látið öll vísindi síðustu alda fara framhjá sér. Þá gerist það sem er yfirleitt frekar óheppilegt – skoðanir verða að staðreyndum. Gjarnan fylgir því þá líka að þeir sem hafa aðrar skoðanir en hópurinn eru bara hluti af samsæri sem vill þagga niður rödd sannleikans.

Við sjáum þetta svo víða. Loftslagsbreytingar og hin meinta aðför að einkabílnum eru dæmi um þetta. Við getum ekki afgreitt þessa hópa sem þeir vilji einfaldlega annaðhvort drepa allar sauðkindur landsins eða banna reiðhjól. Það er hinsvegar algjörlega ljóst að við verðum að gera eitthvað. Við hljótum að vera sammála um það.

Lausnin felst kannski í því að tala saman. Segja hvað okkur finnst, mæta skoðunum annarra af þolinmæði og með rökum og dæmum. Gera okkur grein fyrir því að við erum ekki öll eins.

Mér finnst eins og ég hafi talað um þetta áður. Það verður þá bara að hafa það. Við verðum að fara að tala saman eins og fólk en ekki öskra alltaf á þá sem eru ósammála okkur. Ekki gefast upp. Þá endum við bara sitt í hverju horninu með „staðreyndirnar“ okkar.