Festi hf., móðurfélag N1 og Krónunnar, vill koma fyrir bensíndælum við verslanir Krónunnar í Skógarlind 2 í Kópavogi og áformaða verslun á Norðurhellu 1 í Hafnarfirði.

Festi hf., móðurfélag N1 og Krónunnar, vill koma fyrir bensíndælum við verslanir Krónunnar í Skógarlind 2 í Kópavogi og áformaða verslun á Norðurhellu 1 í Hafnarfirði. Þetta kom fram í bréfi Hinriks Arnar Bjarnasonar, framkvæmdastjóra hjá N1, sem lagt var fyrir heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis á dögunum. Ekki náðist í Hinrik í gær, né Eggert Þór Kristófersson, forstjóra Festar

Í bréfi Hinriks kemur fram að stöðvarnar verði sjálfsafgreiðslustöðvar og á þeim verði einungis selt bensín, dísel og rúðuvökvi. Með því að vera ekki með hraðdælu, litað dísel né Ad Blue verði spornað við því að atvinnutæki komi inn á stöðvarnar, sem verði á bílastæðum verslana Krónunnar. Eins verði tryggt að olíuflutningar fari fram utan afgreiðslutíma umræddra verslana.

Krónan hefur áður lýst yfir áformum um að bensínstöðvar verði á bílaplani verslana. Umsókn þess efnis hlaut ekki náð fyrir augum borgaryfirvalda í Reykjavík þar eð stefna borgarinnar væri að fækka slíkum stöðvum.