Seðlabanki Íslands Efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008 er rifjað upp í tilefni nýrrar bókar eftir Svein Øygard.
Seðlabanki Íslands Efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008 er rifjað upp í tilefni nýrrar bókar eftir Svein Øygard. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna 2009-2013, sagði Ísland ekki hafa verið álitið nógu kerfislega mikilvægt fyrir Bandaríkin til að réttlæta gjaldeyrisskiptasamning í kjölfar fjármálakreppunnar.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna 2009-2013, sagði Ísland ekki hafa verið álitið nógu kerfislega mikilvægt fyrir Bandaríkin til að réttlæta gjaldeyrisskiptasamning í kjölfar fjármálakreppunnar.

Þetta kemur fram í orðaskiptum Svein Harald Øygard, sem stýrði Seðlabanka Íslands í nokkra mánuði eftir efnahagsáfallið, og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors við Háskóla Íslands, á Fasbókinni. Tilefnið var útkoma bókar Øygard; Í víglínu íslenskra fjármála .

„Fréttin er auðvitað sú að Geithner segir allt annað við Øygard, eins og ég bendi á, en í sinni bók,“ segir Hannes Hólmsteinn.

Vísar hann til æviminninga Geithners, Stress Test: Reflections on Financial Crises , frá árinu 2014.

„Þar segir Geithner að fulltrúar bandaríska seðlabankans hafi verið með efnislegan mælikvarða til að flokka þjóðir sem fengu gjaldeyrisskiptasamninga og hvaða þjóðir ekki. Øygard hefur hins vegar eftir Geithner að seðlabankamennirnir hafi valið þjóðirnar út frá því hvað Bandaríkjaþing gæti sætt sig við. Það er auðvitað það sem ég held fram í minni skýrslu [um bankahrunið sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið] og bendi á í orðaskiptunum við Øygard. Meginniðurstaðan í minni skýrslu er að val bandaríska seðlabankans á þeim þjóðum sem var bjargað, eins og Svíþjóð og Sviss, var pólitískt.“

Voru ekkert gjaldþrota

„Það var líka pólitísk aðgerð þegar Bretarnir lokuðu íslensku bönkunum. Því það kemur í ljós eftir á að þeir voru ekkert gjaldþrota. Bretarnir notuðu hryðjuverkalög til að koma í veg fyrir fjármagnsflutninga frá Íslandi þegar það var í gildi bann við því nema með skriflegu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Þetta hefur komið fram hjá mér en hefur einhvern veginn ekki komið nógu vel fram í umræðunni,“ segir Hannes Hólmsteinn. Orðrétt skrifaði Øygard um samskipti sín við Geithner:

„Geithner vék að Sviss. Það var eitt fjögurra gjaldeyrissvæða sem fengu ótakmarkaðan stuðning frá Bandaríkjunum. Evrópski seðlabankinn, Japansbanki, Englandsbanki og Seðlabanki Sviss fengu þá stöðu. Þeir voru álitnir hornsteinar alþjóðlega fjármálakerfisins. Geithner kallar þá innri hring hins alþjóðlega fjármálavirkis. Ytri hringurinn nær til ríkja sem njóta forgangs; Mexíkó, Kanada, Brasilíu og Suður-Kóreu. Hann getur þess að norrænu ríkin eru utan þessara hringja hins alþjóðlega fjármálavirkis; Danmörk, Svíþjóð og Noregur. Þó mætti hafa þau með í áætlunum enda væri beiðni þeirra um fjármagn hófsöm. Hins vegar bað Tyrkland, sem er gamall bandamaður Bandaríkjanna í NATO, um gjaldeyrisskiptasamning en var hafnað.

Að síðustu bætir hann við að gjaldeyrisskiptasamningar séu ekki tengdir neinum sjónarmiðum utanríkisstefnu,“ skrifaði Øygard, í lauslegri þýðingu, og vísaði til utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Þá skrifaði Øygard að Geithner hefði gert greinarmun á ríkjum sem Bandaríkjaþing myndi skilja að þyrfti að styðja og svo hinna. „Aðgreiningin er byggð á kerfislægu mikilvægi fyrir Bandaríkin. Þeir lögðu ekki mat á hættuna á afleiðingum [vegna smitáhrifa] frá Íslandi en töldu þau ólíkleg. Að lokum sögðu þeir að upphæðin sem Ísland bað um væri í senn of lítil og of stór – of stór í hlutfalli við stærð hagkerfisins og of lítil í hlutfalli við bankakerfið... Það er athyglisvert að hann segir öll ríkin hafa verið ómissandi – Noreg, Svíþjóð, Danmörku, Tyrkland, Ísland, Indónesíu og svo mætti áfram telja. Eða kannski fremur að þar sem þeir [Bandaríkjamenn] væru undir stórkostlegri árás yrði aðeins hægt að verja innri virkishringina tvo.“

Voru pólitískar aðgerðir

Hannes Hólmsteinn túlkar þetta svo: „Niðurstaðan er að mínu mati sú að það staðfestist að þetta voru pólitískar aðgerðir en ekki efnislegar hjá Bandaríkjamönnum og raunar líka hjá Bretunum, þótt Øygard segi ekkert um það. Øygard hefur eftir Geithner að þetta hafi snúist um hvað Bandaríkin gætu samþykkt. Þ.e.a.s. hvað væri pólitískt mögulegt. Ég hef lesið endurminningar Geithners og ég vitna í þær í skýrslunni minni, en þar sagði að um væri að ræða kerfislega mikilvægar þjóðir fyrir heimsviðskiptin.

Ég spurði að því í skýrslunni [og vitnaði í það í orðaskiptum við Øygard] hvað mætti þá segja um Indland og Indónesíu sem eru mjög stór hagkerfi? Af hverju var beiðnum þeirra hafnað? Punkturinn hjá mér var sá að þetta væri pólitískt. Geithner getur haldið því fram að málið hafi snúist um hringi en þeir völdu þjóðir eftir slíkum sjónarmiðum. Til dæmis var ástæðan fyrir því að Bandaríkjamenn hleyptu Sviss inn [í samstarfið] auðvitað samningur um að aflétta bankaleynd. Það er hins vegar annað mál.

Annað mat en í kalda stríðinu

Aðalatriðið er að Geithner viðurkennir að þeir hjálpuðu þjóðum sem þeir mátu sem svo að Bandaríkjaþing myndi sætta sig við að þeir hjálpuðu. Þetta staðfestir það sem ég sagði í skýrslunni, að Ísland skipti engu máli. Niðurstaða mín er að ólíkt því sem var í kalda stríðinu hafi Ísland ekki skipt Bandaríkin neinu máli,“ segir Hannes Hólmsteinn.

Hann telur aðspurður þetta hafa breyst. Nú kæri Bandaríkjastjórn sig ekki um að Kínverjar og Rússar seilist til áhrifa á norðurhveli jarðar. Því sýni hún aftur áhuga á Íslandi.

„Utanríkisstefna Bandaríkjanna er svipuð og Breta á sínum tíma. Þeir hafa kannski engan sérstakan áhuga á að vera hér mikið en þeir hafa áhuga á að aðrir séu hérna ekki,“ segir Hannes Hólmsteinn.

Spurður hvaða þýðingu það hefði haft ef Bandaríkjamenn hefðu veitt fyrirgreiðsluna á sínum tíma segir Hannes Hólmsteinn að hugsanlega hefði mátt bjarga bönkunum.

Tilgangurinn að skapa traust

„Svo er spurning hvort það var eftirsóknarvert í ljósi sögunnar. Seðlabanki Íslands bað um nokkra milljarða dollara í gjaldeyrisskiptasamning en slíkur samningur er auðvitað ekki samningur sem er nauðsynlega notaður, heldur samningur sem tilkynnt er um. Það er samningur um að prenta megi út krónur sem eru lagðar inn í bandaríska seðlabankann og fá dollara í staðinn. Ætlunin er að tryggja að Seðlabankinn hafi nægan aðgang að dollurum. Geithner sagði þetta ekki nægja, íslenska bankakerfið væri svo stórt miðað við fólksfjölda. Það nægði ekki að lána 2-3 milljarða dollara.

Af hverju var þá ekki farið í stærri aðgerð og lánaðir 10 milljarðar dollara? Hefðum við fengið gjaldeyrisskiptasamning upp á 10 milljarða dollara hefðu þeir sem voru að taka stöðu gegn bönkunum tapað og þeir sem voru að taka út peninga úr bönkunum í taugaveiklun hefðu hætt við það. Þá hefði áhlaupinu á bankana úr tveimur áttum – annars vegar frá vogunarsjóðunum og hins vegar frá innstæðueigendum og lánardrottnum – lokið. Vegna þess að þá hefðu allir séð að nóg var til af peningum að borga. Þeir hefðu ekki gengið að skuldunautunum,“ segir Hannes Hólmsteinn.

Leitaði líka eftir evruláni

Hann hefur eftir Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, í skýrslunni að þeir Geithner [sem var þá bankastjóri Seðlabankans í New York] hefðu rætt um 2-3 milljarða dala í þessu samhengi. Davíð hefði sagt íslensku bankana líða fyrir þann skilning manna að þeir hefðu engan lánveitanda til þrautavara. Seðlabanki Íslands væri að reyna að gera gjaldeyrisskiptasamninga til að efla traust á bankakerfinu. Davíð hefði upplýst Geithner um að einnig hefði verið leitað eftir 3-4 milljörðum evra hjá seðlabönkum í Evrópu. Geithner hefði lofað að kanna málið.