Starfsmaður embættis forseta Íslands gerðist sekur um „óþolandi athæfi“, meðal annars kynferðislega áreitni í opnu rými, gagnvart tveimur samstarfsmönnum sínum í vinnu- og námsferð starfsmanna embættisins til Parísar 13.-16.

Starfsmaður embættis forseta Íslands gerðist sekur um „óþolandi athæfi“, meðal annars kynferðislega áreitni í opnu rými, gagnvart tveimur samstarfsmönnum sínum í vinnu- og námsferð starfsmanna embættisins til Parísar 13.-16. september síðastliðinn.

Gripu til viðeigandi aðgerða

Þetta kemur fram í yfirlýsingu forseta Íslands sem birt var í gær í kjölfar fréttar á vef Fréttablaðsins þar sem greint var frá því að tvær kvartanir hefðu borist til forseta vegna kynferðislegrar áreitni í garð samstarfskvenna.

Í yfirlýsingunni kemur fram að eftir heimkomu hafi embættið gripið til viðeigandi aðgerða, m.a. með hliðsjón af stefnu og áætlun Stjórnarráðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi.

Fékk skriflega áminningu

Fór starfsmaðurinn í leyfi og veitti forsetaritari honum skriflega áminningu auk þess sem honum var gert ljóst að ekki yrði látið þar við sitja. Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að starfsmanninum hafi nú verið heimilað að snúa aftur til starfa með samþykki samstarfsmanna sinna eftir að hann hafi beðið hluteigandi afsökunar og leitað sér sérfræðiaðstoðar.

„Þeir aðilar sem brotið var gegn – ágætt samstarfsfólk mitt – hafa í öllu ferlinu verið upplýstir um stöðu og þróun mála og hafa fallist á þær

ákvarðanir sem teknar hafa verið, án þess auðvitað að þurfa að bera að nokkru leyti ábyrgð á brotum sem þeir þurftu að þola,“ segir forsetinn í yfirlýsingunni.

Í frétt mbl.is um málið kemur fram að samkvæmt upplýsingum á vef embættis forseta Íslands séu starfsmenn embættisins níu talsins, fimm karlar og fjórar konur.