Anna Ragnheiður Guðnadóttir fæddist 25. janúar 1942. Hún lést 27. september 2019.

Útför Önnu Ragnheiðar fór fram 4. október 2019.

„Kemur þú ekki með okkur til Dublin? Jú, auðvitað kemur þú með, ert með svo góð laun.“ Og svo kom þessi smitandi hlátur. Ég var nýbyrjuð í starfi á Sólvangi, hafði frétt að hluti stafsfólksins væri að safna fyrir ferð til Dublin um haustið. Tveir mánuðir í túrinn og því að hrökkva eða stökkva.

Jú, ég kem með svaraði ég og þar með upphófst mikið ævintýri sem oft var vitnað í. Auðvitað var Anna Guðna potturinn og pannan í öllum skemmtilegheitunum. Hún var algjörlega einstök hún Anna, hörkudugleg, samviskusöm, grönn en fyrirferðarmikil, hlý, nærgætin og einstaklega skemmtileg. Aldrei var lognmolla kringum Önnu og við elskuðum hana öll. Það hefur verið sagt að þeir sem láta sér annt um dýr, gróður og gamalt fólk séu góðar manneskjur, hún vinkona okkar var svo sannarlega ein af þeim.

Anna hóf störf á Sólvangi í Hafnarfirði 18 ára gömul og átti þar langan, fjölbreyttan og farsælan starfsferil þar til hún fór á eftirlaun.

Önnu þótti vænt um vinnustaðinn sinn og það var sannarlega gagnkvæmt, „ekki í mínum verkahring“ var ekki til í hennar orðaforða. Sögurnar sem hún sagði okkur frá fyrri tímum voru óborganlegar. Starfsstúlkur utan af landi bjuggu á efstu hæðinni á fyrstu árum Sólvangs. Auðvitað var glugginn á líkhúsinu ávallt opinn því það þurfti að komast inn eftir að búið var að læsa. Á þessum tíma reyktu flestir og alls staðar var leyft að reykja. Anna var á kvöldvakt eitt gamlárskvöldið og fann þá mikla reykjarlykt leggja fram á ganginn. Þá hafði lifandi sígarettu verið kastað í ruslafötuna á klósettinu og logaði glatt.

„Vertu ánægð, Anna mín, að ég kveikti í á réttum tíma, er ekki alltaf kveikt í brennunum kl. 20?“ spurði sá seki. Það ríkti mikil samheldni á Sólvangi, öll reyndum við eftir bestu getu að þjóna heimilisfólkinu sem best, hafa fagmennsku og gleði ríkjandi, gera þannig Sólvang að framúrskarandi vinnustað.

Skemmtikvöldin, tískusýningarnar, dansleikirnir, basarinn, allt sjálfboðavinna og Anna ávallt boðin og búin að hjálpa til ásamt því að baka með Lóu í litlu jólafagnaðina. Ávallt vinátta og hlýja fyrir heimilisfólkið. Starfsmannafélagið var duglegt að standa fyrir hvers kyns uppákomum. Ferðirnar á Sólbakka, hús Sólvangs í Hveragerði, gleymast seint.

Fyrrverandi starfsmenn hittast alltaf og fá sér kaffisopa saman fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði. Hver hélt uppi fjörinu? Auðvitað Anna Guðna. Hún var höfðingi heim að sækja, frægt er skópartíið sem haldið var á sólpallinum og rataði í blöðin.

Við vinir hennar frá Sólvangi sitjum saman og söknum, vitum hreinlega ekki hvernig við förum að næst þegar við hittumst. Sama verður um aðventufagnaðinn sem nokkrar okkar koma að.

En sárastur er söknuðurinn hjá eiginmanni, börnum og þeirra fjölskyldum, enda dásamleg fjölskylda sem Anna átti. Það hefur verið röggsöm kona sem krafðist inngöngu hjá Lykla-Pétri enda var hún boðsgestur Jesú Krists og er nú skráð í Lífsins bók með stóru, stóru letri.

Hugheilar samúðarkveðjur sendum við Birgi og fjölskyldunni allri.

F.h. vina þinna og samstarfsfélaga á Sólvangi,

Sigþrúður

Ingimundardóttir.