Jónas Haralz „Hann var alltaf rödd skynseminnar og á hann var ávallt hlustað þótt ekki væri alltaf farið eftir ráðum hans.“
Jónas Haralz „Hann var alltaf rödd skynseminnar og á hann var ávallt hlustað þótt ekki væri alltaf farið eftir ráðum hans.“
Jónas Haralz fæddist ári eftir fullveldið, 6. október 1919, og orðaði það svo sjálfur að hann væri jafngamall og Hæstiréttur. Hann lést 13. febrúar 2012 á 93. aldursári.

Jónas Haralz fæddist ári eftir fullveldið, 6. október 1919, og orðaði það svo sjálfur að hann væri jafngamall og Hæstiréttur. Hann lést 13. febrúar 2012 á 93. aldursári. Ævi hans spannaði því sögu sjálfstjórnar landsins sem er tímabil gríðarlegra framfara, en jafnframt öfga og óstöðugleika. Foreldrar hans voru hugsjónafólk á hinu andlega sviði. Faðir hans var Haraldur Níelsson, guðfræðiprófessor og leiðandi spíritisti, en móðirin, Aðalbjörg Sigurðardóttir, var einn helsti forkólfur guðspeki hérlendis. Jónas sjálfur hafði einnig heitar hugsjónir – en öllu veraldlegri – þar sem hann gerðist kommúnisti sem svo títt var um unga menn á krepputímanum. Og eins og einnig var títt um unga, róttæka menn varð kommúnisminn til þess að Jónas fékk áhuga á efnahagsmálum. Hann hóf nám í efnaverkfræði í Stokkhólmi árið 1938 en venti sínu kvæði í kross tveimur árum síðar og hóf nám í hagfræði. Þó fór fyrir honum eins og mörgum róttækum hagfræðingnum að hann las sig frá kommúnismanum í náminu sjálfu.

Samt sem áður skráði hann sig í Sósíalistaflokkinn við heimkomu að námi loknu árið 1945 og tók sæti fyrir flokkinn í bankaráði Landsbankans 1946. Það sama ár var hann einnig í framboði fyrir flokkinn í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík sem og í alþingiskosningum í Þingeyjarsýslu. Framboðið nyrðra var sögulegt fyrir þá sök að þar atti hann kappi við sjálfan Jónas frá Hriflu er þá bauð sig fram í síðasta skipti. Það var ekki fyrr en eftir 1948 sem Jónas dró sig hægt og hljótt út úr flokksstarfi sósíalista, að eigin sögn, eftir slæma reynslu af skipulagshyggju og eftir að yfirgangur Sovétmanna í A-Evrópu var orðinn ber. Árið 1950 fluttist Jónas til Bandaríkjanna þar sem hann hóf störf fyrir Alþjóðabankann og sinnti einkum verkefnum í Suður-Ameríku.

Það var svo árið 1957 að Jónas var kallaður heim til þess að gerast efnahagsráðgjafi fyrir nýstofnaða vinstristjórn undir forystu Hermanns Jónassonar. Fyrir Jónas var það annaðhvort að hrökkva eða stökkva. Hann var 37 ára og gat vel hugsað sér frekari frama þar vestra. En svo fór að hann sneri aftur. Hann eyddi síðan næstu fjórum árum í það að reikna bætur og millifærslur í gamla haftakerfinu þar sem sífellt var verið að bjarga málum fyrir horn með ýmsum neyðarráðstöfunum. Um umbætur var ekki hægt að ræða. Það er hins vegar til marks um það traust er Jónas naut þvert á flokka, að hann varð áfram helsti efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar eftir stjórnarskipti 1960 – þegar hin sk. Viðreisn tók við. Eftir áratugar starf með viðreisnarstjórninni gekk Jónas í Sjálfstæðisflokkinn árið 1971 og varð brátt valinn þar til ýmissa trúnaðarstarfa. Hann gerðist þá einnig mikilvirkur greinahöfundur og hélt fram sjónarmiðum frjáls markaðar með álíka rökfestu og hann hafði skrifað til stuðnings kommúnismanum á unga aldri. Fyrir Jónas, eins og þjóðina, var tuttugasta öldin hugmyndafræðilegt ferðalag. Það er líka góð handfylli af íslenskum hagfræðingum er gengu álíka langa leið frá vinstri til hægri á starfsævi sinni líkt og Jónas Haralz, en enginn þeirra naut svo óskoraðs trausts og trúnaðar á báðum pólum eins og hann. Lýsir það meira en mörg orð hæfileikum hans og mannkostum. Jónas orðaði það sjálfur svo að þeir sem skiptu um skoðun væru þeir sem raunverulega skiptu máli þar sem þeir hefðu hugsað málin til hlítar.

Eftir „hrunið“ 2008 var Jónas oft spurður að því hvaða lærdóm hægt væri að draga af reynslu þjóðarinnar af fyrri áföllum sem hægt væri að nýta gegn aðsteðjandi vanda. Hann lagði þá ávallt áherslu á eitt og aðeins eitt atriði; að Ísland mætti aldrei aftur grípa til hafta og einangrunarstefnu sem kreppulausnar, en það var sú leið sem landsmenn völdu til þess að bregðast við kreppunni miklu árið 1930 og leiddi þá út á einstigi óstjórnar og skömmtunar eins og áður er frá sagt. Jónas sjálfur hafði eytt drjúgum hluta af sinni starfsævi í það að reyna að halda gamla haftakerfinu gangandi og reyna að reikna skynsemi í eitthvað sem var í eðli sínu óskynsamlegt.

Jónas vann ávallt verk sín af samviskusemi og nákvæmni hvort sem hann var sammála eða ósammála þeim forsendum sem hann þurfti að vinna eftir. Listinn yfir trúnaðarstörf hans fyrir opinbera aðila og félagasamtök er gríðarlega langur. Hann stóð alltaf undir þeirri ábyrgð sem honum var falin. Og gott betur. Meira um vert er þó að orð hans höfðu ávallt vægi. Hann var alltaf rödd skynseminnar og á hann var ávallt hlustað þótt ekki væri alltaf farið eftir ráðum hans. Árið 1969 varð hann bankastjóri Landsbankans og stýrði bankanum í gegnum tíma óðaverðbólgu og efnahagsóstjórnar næstu ár á eftir. Árið 1988 fékk hann sig svo lausan og sneri aftur til Bandaríkjanna, og starfaði fyrst fyrir Alþjóðabankann og síðan að sjálfstæðum verkefnum þar ytra. Loks sneri Jónas aftur heim árið 1996, þá 77 ára, en ekkert var honum meira fjarri en setjast í helgan stein. Hann fékk skrifstofuaðstöðu á Hagfræðistofnun og lét sannarlega til sín taka sem „emeritus“ við Háskólann.

Jónas var því áttræður þegar ég kynntist honum – er ég kom heim frá námi árið 2000. Jónas hafði sterka nánd og ákaflega yfirvegað yfirbragð. Hann talaði ávallt af bæði öryggi og festu, og mjög skipulega. Hann hafði einnig aðdáunarvert minni og var gangandi alfræðiorðabók um sögu tuttugustu aldar. Það var ógleymanlegt að hlusta á hann standa upp og flytja efnisríkar ræður blaðalaust og vitna sem sjónarvottur um persónur og atburði langt aftur fyrir fæðingu flestra viðstaddra. Ég minnist því með mikilli þökk margra samtala við Jónas Haralz um mál líðandi stundar sem og hagsögu tuttugustu aldar. Er hann – að öðrum ólöstuðum – sá hagfræðingur íslenskur sem hvað mest áhrif hefur haft á mig. Eftir að ég hætti störfum hjá Arion banka árið 2011 og hóf aftur starf við Háskólann settumst við Jónas aftur saman og ákváðum að skrifa bók um hagsögu tuttugustu aldar. Ég áleit það skyldu mína að koma á prent þeim mikilvægu sögulegu heimildum er sátu í kolli hans, – en svo fór þó ekki. Jónas lést áður en við höfðum komið bókinni á rekspöl. Það er – og verður – alltaf mín eftirsjá að hafa ekki hafið verkið fyrr. Með Jónasi Haralz féll frá einn áhrifamesti og hæfasti hagfræðingur Íslands á tuttugustu öld.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur.