Sigrún Kristín Valdimarsdóttir fæddist á Hólmavík 12. mars 1940. Hún lést 30. september 2019.

Foreldrar hennar voru Eybjörg Áskelsdóttir, f. 10. janúar 1910 á Bassastöðum við Steingrímsfjörð, d. 29. janúar 1992, og Valdimar Guðmundsson, f. 16. ágúst 1910 á Kleifum á Selströnd við Steingrímsfjörð, d. 21. október 2001. Systkini Sigrúnar eru Guðmundur, f. 9. sept. 1932, Flosi, f. 23. des. 1933, Bragi, f. 6. okt. 1935, Helga, f. 23. apr. 1938, Ásdís, f. 23. maí 1942, Laufey, f. 7. mars 1946, Valdís, f. 8. maí 1951, Erna, f. 7. mars 1954.

Sigrún giftist þann 20. sept. 1959 Sigurði Matthíasi Benediktssyni, f. 29. des. 1928, d. 28. maí 2005. Foreldrar hans voru Ragnheiður Lýðsdóttir frá Skriðinsenni, f. 22. júní 1895, d. 1. sept. 1983, og Benedikt G. Grímsson, f. 17. apr. 1898, d. 21. júlí 1980. Börn Sigrúnar og Sigurðar eru: 1) Kristinn Guðbjörn, bifvélavirki, f. 26. feb. 1960, kvæntur Bryndísi Sveinsdóttur, f. 3. ágúst 1962. Börn þeirra eru: a) Erling, f. 14. des. 1982, barn hans og fyrrverandi sambýliskonu hans, Hörpu Guðlaugsdóttur, f. 29. nóv. 1985, er Matthías Björn, f. 7. apr. 2006. Barn Erlings og barnsmóður, Olgu Kristínar Jóhannesdóttur, f. 7. des. 1983, er Baltasar Sölvi Olguson, f. 29. jan. 2013. Núverandi sambýliskona Erlings er Helga Dögg Lárusdóttir, f. 26. júní 1998. b) Sigrún Björg, f. 19. mars 1992, sambýlismaður hennar er Hermann Geir Karlsson, f. 28. ágúst 1986. Barn hans frá fyrri sambúð er Sara Sigurrós, f. 18. sept. 2007. Barn Sigrúnar og Hermanns er Bryndís Rósa, f. 24. sept. 2018. c) Dagrún, f. 1. maí 1995, sambýlismaður hennar er Róbert Gunnarsson, f. 31. júlí 1981. 2) Valdís Eyrún, verslunarstjóri, f. 16. ágúst 1963, börn hennar og fyrrverandi sambýlismanns, Edvards Friðjónssonar, f. 13. okt. 1966, eru: a) Eyrún, f. 22. jan. 1988, börn hennar og sambýlismanns, Örvars Jónssonar, f. 27. maí 1988, eru Andrea Marikó, f. 9. des. 2013, og Birnir Leví, f. 30. sept. 2016. b) Friðjón, f. 25. nóv. 1993. 3) Benedikt Heiðar, rafvélavirki, f. 12. apr. 1968, kvæntur Ernu Geirlaugu Árnadóttur, f. 19. mars 1975. Börn þeirra eru: a) Eygló, f. 28. sept. 2005. b) Sigurður Matthías, f. 25. mars 2011.

Sigrún ólst upp á Hólmavík og lauk þar barnaskólaprófi. Síðar hóf hún nám í Iðnskólanum í Reykjavík í hárgreiðslu. Sigrún giftist Sigurði og hófu þau búskap á Kirkjubóli í tvíbýli við Grím og hans konu, Kristjönu. Bjuggu þau þar allt til 1993 er þau flytja til Hólmavíkur. Nokkrum árum áður hóf hún störf hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík sem skrifstofukona og síðar hjá Íslandspósti á Hólmavík við afgreiðslustörf. Skömmu síðar hóf hún nám hjá Póstskólanum og vann hjá Póstinum allt til ársins 2007 er hún lauk starfsferli sínum.

Útför Sigrúnar fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 5. október 2019, og hefst athöfnin klukkan 14.

Núna er komið að leiðarlokum, elsku amma í sveitinni. Eftir sitjum við sem elskum þig og dáum með stórt skarð í hjartanu, eða eins og Andrea Marikó segir að hjartað hennar sé mjög krumpað.

Orð fá því ekki lýst hversu þakklát ég er að hafa átt þig að sem ömmu.

Ég tel það forréttindi að hafa fengið að alast mikið upp í sveitinni hjá ykkur afa og minningarnar frá Kirkjubóli eru mér svo dýrmætar. Hvort sem það var að fara með afa upp í fjárhús eða brasa eitthvað á dráttarvélinni. Eða fá að sniglast með þér í eldhúsinu og gefa heimalningunum.

Þú hafðir svo mikla þolinmæði fyrir öllum uppátækjunum í mér og þér fannst til dæmis ekkert mál að splæsa smá hráefnum úr eldhúsinu í drullukökur úti í garði.

Allar okkar samverustundir voru okkur svo dýrmætar hvort sem það var heima hjá mömmu þegar þú komst í bæjarferð eða heima hjá þér í Lækjartúninu. En þangað elskuðum við að koma og eyða tíma með þér. Ég er svo þakklát fyrir að börnin mín hafi fengið að kynnast þér og hversu einstök amma þú varst. Þið Andrea Marikó urðuð svo miklar perluvinkonur og er það okkur ómetanlegt. Mér finnst svo skrítið að eiga ekki eftir að skjótast aðeins í sveitina til að hitta þig eða hringja í þig og spjalla um daginn og veginn.

En einhvern veginn tókst okkur alltaf að tala saman svo tímunum skipti í hverri viku. Að öllu sem þú hefur kennt mér mun ég búa ævilangt.

Elsku amma, góða ferð til afa. Ég er sannfærð um að hann hafi tekið vel á móti þér. Við elskum þig og söknum þín svo sárt. Við munum ávallt búa að yndislegum og ógleymanlegum minningum um þig.

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlétst okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson)

Þín

Eyrún og fjölskylda.