Súðavík Aðeins rúmlega 500 íbúar eru alls í sveitarfélögunum þremur sem vísað var úr samráði um kjaraviðræður.
Súðavík Aðeins rúmlega 500 íbúar eru alls í sveitarfélögunum þremur sem vísað var úr samráði um kjaraviðræður. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Ef við viljum greiða okkar starfsmönnum eitthvað umfram samninga þá er það okkar mál.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ef við viljum greiða okkar starfsmönnum eitthvað umfram samninga þá er það okkar mál. Launanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga semur um lágmarkskjör en hún telur sig hafa löggjafarvald og dómsvald í öllu saman,“ segir Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, um brottvísun sveitarfélagsins úr samráði sveitarfélanna í kjaraviðræðum vegna greiðslu þess á launauppbót í trássi við vilja launanefndar sveitarfélaga.

Auk Reykhólahrepps var Súðavíkurhreppi og Tjörneshreppi vikið úr kjarasamráðinu vegna brots á ákvæðum umboðs sem þeir veittu Sambandi íslenskra sveitarfélaga, eins og fram kom í blaðinu í gær.

Röng nálgun hjá launanefnd

Að sögn Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, ákvað hann í samráði við kjörna fulltrúa að greiða ófaglærðum starfsmönnum hreppsins eingreiðslu í sumar, vegna þess dráttar sem orðið hafði á kjaraviðræðum. Það hafi verið gert í trássi við ábendingu frá launanefnd sveitarfélaga sem hann segir að hafi viljað halda uppi þrýstingi í kjaraviðræðunum. Verkalýðsfélögin höfðu þá vísað kjaradeildunni til ríkissáttasemjara.

„Mér fannst þetta röng nálgun hjá launanefndinni. Áður var búið að ákveða að greiða öllum þessa eingreiðslu. Mér fannst rangt að halda eftir greiðslu til lægstlaunaða fólksins,“ segir Bragi.

Fjórir starfsmenn Súðavíkurhrepps fengu eingreiðsluna sem var um 105 þúsund krónur. Reykjavíkurborg sem ekki er aðili að kjarasamráðinu greiddi þessa eingreiðslu. Það gerði Akranesbær einnig í samráði við launanefndina eftir að verkalýðsfélagið þar dró til baka vísun til ríkissáttasemjara.

Eftir að viðræður hófust að nýju ákvað launanefndin að leggja til að eingreiðslan yrði greidd út nú í október.

Hafa fjarlægst viðsemjendur

Nú þurfa sveitarfélögin þrjú að annast sjálf samninga við sína starfsmenn. Þetta eru flóknir samningar við margar starfsstéttir, svo sem í grunnskólum, leikskólum, íþróttamiðstöðvum, í áhaldahúsum og á skrifstofum sveitarfélaganna.

Tryggva Harðarsyni líst ekki illa á það. „Ég mun semja við þau félög sem við þurfum að semja við. Ég reikna með að þeir verði að mestu samhljóða samningum sambandsins. Síðan verður það mat þessara sveitarfélaga hvort þau vilji gera eitthvað öðruvísi. Ég reikna ekki með að það verði lakari samningar en sambandið gerir, fyrir starfsfólkið,“ segir Tryggvi.

Hann segir að þróunin hafi orðið sú að sveitarfélögin hafi verið að fjarlægjast sína viðsemjendur með samningum í gegnum miðstýrt apparat sem öllu vilji ráða. „Ég tel gott fyrir fulltrúa í sveitarstjórnum að þurfa að hugsa aðeins um þetta sjálfir,“ segir Tryggvi.