Jónína Hólmfríður Víglundsdóttir fæddist 17. febrúar 1942. Hún lést 7. nóvember 2018.

Útförin fór fram 18. nóvember 2018.

Við minnumst okkar ástkæru móður Jónínu Hólmfríðar Víglundsdóttur, Nínu, eins og hún var alltaf kölluð. Hún fæddist 17. febrúar 1942 á Hólum í Fljótum í Skagafirði og lést 7. nóvember 2018.

Foreldrar hennar voru Víglundur Arnljótsson og Hermína Marinósdóttir. Þau eignuðust 14 börn og var Nína þriðja elst. Hún ólst upp á Akureyri en fór 16 ára gömul til Siglufjarðar að vinna í síld. Þar lágu leiðir þeirra Þóris Björnssonar saman og hófu þau búskap. Þau giftu sig 23. febrúar 1964. Það voru engar tískuverslanir í bænum en Nína saumaði, breytti og bætti fötin þannig að allir tóku eftir henni hvert sem hún fór, enda einstaklega glæsileg kona. Barnalánið lék við þau og eignuðust þau sitt fyrsta barn, Gunnhildi Gigju, árið 1960. Ári síðar fæddist Björn, Hermann 1963 og Fjóla 1966. Var þá orðið þröngt í kotinu og flutti fjölskyldan í stærra hús á Suðurgötu 76. Ári síðar féll snjóflóð á húsið. Eignuðust þau svo Jónþór árið 1968.

Þau fluttu til Vestmannaeyja árið 1970 og þar fæddist Sonja árið 1972. Eldgosið 1973 varð til þess að fjölskyldan fluttist í fyrsta viðlagasjóðshúsið í Garðabæ. Nokkrum árum síðar fluttu þau í Lækjarfit 3. Það heimili vekur góðar minningar hjá fjölskyldunni enda var þar oft glatt á hjalla og allir voru velkomnir.

Nína var hagsýn og dugleg húsmóðir og hélt fallegt heimili. Hún var mikil prjóna- og saumakona og saumaði ekki aðeins fötin á sig heldur einnig á börnin og barnabörnin. Allir voru dressaðir upp.

Hún var umburðarlynd og barngóð kona og yndisleg amma. Henni þótti gaman að spila, fara í bingó með Helgu systur og að dansa, þar sem hún var glæsilegasta konan á dansgólfinu. Hún hafði mikinn húmor og gat gert grín að sjálfri sér. Nína var mikil félagsvera framan af en um fertugt missti hún stóran hluta af heyrninni og hafði það veruleg áhrif á lífsgæði hennar.

Stórt skarð var höggvið í fjölskylduna þegar Hermann sonur þeirra lést af slysförum aðeins 21 árs að aldri. Nína naut sín einstaklega vel í hópi systkina sinna og voru þau miklir vinir. Villa-ættarmótin hafa verið ófá og skemmtileg.

Þau hjónin nutu þess að ferðast innanlands í tjaldi, hjólhýsi og húsbíl ásamt því að dvelja á Spáni.

Nína og Þórir voru samheldin og unnu saman við eigin rekstur í fjölmörg ár.

Nína hafði einstakt lag á börnum og gaf sér alltaf tíma til að sinna barnabörnunum 13 og barnabarnabörnunum sjö. Ömmustrákurinn Viktor Ingi var mikið inni á heimili ömmu og afa og kom oft til þeirra eftir skóla til að spila og lesa fyrir ömmu og reikna með afa.

Síðustu árin fór heilsu Nínu að hraka en aldrei var kvartað.

Síðustu mánuði var mjög af henni dregið og ljóst hvert stefndi. Óskaði hún eftir að eiga síðustu stundirnar í faðmi fjölskyldu sinnar heima og fór útförin fram í kyrrþey.

Elsku mömmu verður minnst sem fallegrar og yndislegrar konu og hún kvödd með hlýju í hjarta eftir gæfuríka ævi.

Gunnhildur Gígja, Björn, Fjóla, Jónþór og Sonja.