Skúli Helgason
Skúli Helgason
Eftir Skúla Helgason: "Áform okkar byggjast á faglegum, félagslegum og fjárhagslegum rökum. Ásetningur okkar er skýr: að búa betur að börnunum bæði námslega og félagslega."

Á næstunni verður afgreidd tillaga sem miðar að því að bæta námslegar og félagslegar aðstæður barna í norðanverðum Grafarvogi. Að baki er vandaður undirbúningur og framundan mikilvægt umbótaferli. Mikil umræða hefur skapast um málið og því miður er sums staðar hallað réttu máli eins og í greinum sem tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins birtu hér í blaðinu á dögunum.

Austur og vestur

Viðrar vel til loftárása heitir prýðilegt tónverk Sigur Rósar sem kom í hugann við lestur greinar Eyþórs Arnalds, „Árásir á efri byggðir“, þar sem hann heldur því fram að uppbygging sé meiri í vesturhluta borgarinnar en dregið úr í austurhlutanum. Þessi fullyrðing stenst auðvitað ekki enda er mestur gangur í framkvæmdum í austurborginni. Langþyngst vegur uppbygging skóla, íþróttamannvirkja og menningarmiðstöðvar í Úlfarsárdal. Umfang þeirra fjárfestinga er rúmlega 12 milljarðar króna. Uppbygging íþróttamannvirkja á félagssvæði ÍR í Breiðholti er annað stórt fjárfestingarverkefni í austurhlutanum sem sömuleiðis hleypur á milljörðum. Verið er að byggja húsnæði um alla borg en flestar íbúðir verða til í Ártúnshöfða og Vogabyggð – í austurhluta borgarinnar.

Bjúgverpill

Veruleg fækkun grunnskólanemenda er staðreynd í norðanverðum Grafarvogi og munar þar mest um fækkun í Kelduskóla-Korpu. Skólinn var byggður fyrir 170 börn en nemendum hefur fækkað jafnt og þétt undanfarinn áratug. Þar eru nú 59 nemendur, enginn í 6. bekk og fjórir í 3. bekk og er hvergi að finna svo fámennan skóla í Reykjavík eða á öllu höfuðborgarsvæðinu. Nemendafjöldi í grunnskólum landsins er að meðaltali rúmlega 430 börn. Tilteknir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja fækkunina í Korpu komna til vegna aðgerða borgarinnar og ganga jafnvel svo langt að halda því fram að börn hafi verið flutt úr skólanum gegn vilja foreldra sinna. Þau þekkja söguna illa – eigin sögu – því eina ákvörðunin sem borgaryfirvöld hafa tekið um flutning nemenda úr skólanum var árið 2008, þegar ákveðið var að bregðast við myglu í færanlegu húsnæði við Korpuskóla með því að flytja unglingastigið yfir í Víkurskóla. Þá stýrði Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta borgarstjórnar. Sjálfstæðismenn lofuðu að þetta væri tímabundin aðgerð en stóðu hvorki við það né loforð sem gefin voru íbúum um að byggja við Korpuskóla, sem eftir á að hyggja verður að teljast lán í óláni í ljósi fækkunar nemenda.

Skynsamlegar breytingar

Áform okkar um breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi byggjast á faglegum, félagslegum og fjárhagslegum rökum. Faglegu rökin fyrir breytingum á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi eru þau að nemendur muni njóta meiri fjölbreytni varðandi nám og kennslu í stærri nemendahópi, þó vissulega hafi kennarar og stjórnendur Kelduskóla-Korpu spilað vel úr aðstæðum og haldið uppi faglegu og góðu starfi. Félagslegu rökin eru þau að val um vini og félaga aukist til muna í fjölmennari nemendahópi, enda er ólíku saman að jafna að vera fjórir eða fjörutíu í árgangi sem er meðalstærð árganga í grunnskólum borgarinnar. Félagslegu rökin vega þungt enda er vaxandi skilningur á mikilvægi þess að byggja upp og þroska félagsfærni barna frá unga aldri svo sem sjá má á nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar þar sem félagsfærni er einn af fimm forgangsþáttum sem sérstaklega verða efldir á komandi árum. Fjárhagslegu rökin felast í verulegum sparnaði af því að fækka skólastofnunum um eina. Nú er kostnaður á hvern nemanda rúmlega tvöfalt hærri í Korpu en að meðaltali í öðrum grunnskólum borgarinnar.

Markviss innleiðing

Samkvæmt tillögu okkar verða þrír grunnskólar í norðanverðum Grafarvogi, hver með sinn stjórnanda og 240-300 börn: Borgaskóli, Engjaskóli og Víkurskóli. Tveir fyrrnefndu fyrir börn í 1.-7. bekk en Víkurskóli verður sameinaður unglingaskóli fyrir nemendur í 8.-10. bekk, nýsköpunarskóli með áherslu á frumkvöðlanám, fjölbreytt skapandi starf, gagnrýna hugsun og þjálfun hæfniþátta til að bregðast við áskorunum í tæknivæddum heimi. Vilji okkar í meirihluta skóla- og frístundaráðs stendur til þess að skólahúsnæði Korpu nýtist áfram til skóla- og frístundastarfs, t.d. í samstarfi við sjálfstætt starfandi skóla. Tillaga um þessar breytingar verður lögð fram til afgreiðslu í skóla- og frístundaráði 12. nóvember að loknu umsagnarferli og væntanlega afgreidd endanlega í borgarstjórn viku síðar. Þá tekur við innleiðingarferli, þar sem áhersla verður lögð á að þær samgöngubætur sem boðaðar eru í tillögunni verði fjármagnaðar og komi til framkvæmda á fyrri hluta næsta árs. Ásetningur okkar sem stöndum að tillögunni er skýr: að búa betur að börnunum bæði námslega og félagslega. Við munum leggja okkur fram um að innleiðingin verði markviss og fari fram í góðu samstarfi við starfsfólk, nemendur og foreldra.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. skuli.helgason@reykjavik.is