[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Greinilegt samband er á milli breytinga sem verða á umsvifum í efnahags- og atvinnulífinu og bílaumferðar um þjóðvegi landsins.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Greinilegt samband er á milli breytinga sem verða á umsvifum í efnahags- og atvinnulífinu og bílaumferðar um þjóðvegi landsins. Þetta hefur ekki farið á milli mála á umliðnum árum að sögn Friðleifs Inga Brynjarssonar, verkefnisstjóra hjá Vegagerðinni. Þegar hægir á hagvexti líður ekki á löngu þar til þess má sjá merki í minni umferð, eins og gerðist á árinu 2008 þegar hægði mjög á umferðinni. Í uppganginum á umliðnum árum og fjölgun erlendra ferðamanna stórjókst umferðin en samhliða minnkandi hagvexti að undanförnu hefur mjög hægt á umferð þótt á móti vegi fjölgun íbúa landsins.

Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar á 16 völdum stöðum á hringveginum jókst umferðin í síðasta mánuði um 0,4 prósent og er þetta minnsta aukning í októbermánuði síðan árið 2011, eða í átta ár. ,,Fjögurra prósenta samdráttur mældist í umferðinni á Suðurlandi og má leiða líkur að því að samdráttur í ferðamennsku skýri þann samdrátt. Reikna má með að umferðin í ár aukist eigi að síður um 2,5-3 prósent,“ segir í samantekt Vegagerðarinnar.

Áhrif af fjölda erlendra ferðamanna á umferðina á höfuðborgarsvæðinu eru ekki eins sýnileg og á hringveginum, en skv. nýjum tölum Vegagerðarinnar jókst umferðin á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum mánuði um 1,6% borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferðin yfir mælisnið ofan Ártúnsbrekku, eða 3,1%, en 1,0% samdráttur varð í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi. Fram kemur í samantekt Vegagerðarinnar að meðaltalsaukningin á höfuðborgarsvæðinu í október frá 2005 og til ársins 2018 var 3,2% og þar af leiðir að aukningin núna er langt undir meðalþróun. Leita þarf aftur til ársins 2011 til að finna minni aukningu umferðar um höfuðborgarsvæðið í október líkt og á hringveginum.

Að mati sérfræðinga Vegagerðarinnar er talið líklegast vegna spáðs samdráttar í hagkerfinu nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu að lítil aukning verði í nóvember og desember og þá muni aukningin yfir árið allt verða um 1%. Skv. nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birt var í gær, hafa horfur um hagvöxt á seinni hluta ársins versnað frá því sem spáð var í ágúst. Friðleifur bendir á að þótt aukning verði í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu megi geta þess að íbúum þar hefur fjölgað um 1,7% frá áramótum til októberbyrjunar og gæti staðan orðið um og yfir 2% heildaraukning í árslok. Rannsóknir Vegagerðarinnar hafi sýnt fram á afar sterk tengsl á milli umferðar- og íbúaþróunar. Því megi færa fyrir því rök að um raunsamdrátt í umferð sé að ræða haldi umferðaraukning ekki í við íbúaþróun.

Á hringveginum hefur umferðin aukist um 2,7% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Árleg meðaltalsaukning fyrir lykilsniðin í heild frá árinu 2005 hefur verið 3,5% og má því sjá að núverandi aukning er 23% undir meðalþróun, verði þetta niðurstaðan í árslok, skv. upplýsingum Vegagerðarinnar.

,,Mest hefur umferðin aukist um mælisnið á Vesturlandi eða um 5,6% en dregist saman um 2,8% um Austurland. Einnig hefur umferð um Suðurland dregist saman um 1,2%,“ segir í greinargerð Vegagerðarinnar.

Á höfuðborgarsvæðinu var mest ekið á föstudögum í nýliðnum mánuði, en minnst á sunnudögum. ,,Hlutfallslega jókst umferðin mest á laugardögum eða um 2,5% en minnst varð aukningin á mánudögum eða 0,6%. Umferð jókst að meðaltali um 1,3% á virkum dögum en 2,1% um helgar.“

Dregur úr umferðinni

Samdráttur í hagkerfinu og minni umferðarþungi á þjóðvegunum fylgjast að og íbúaþróunin hefur vitaskuld einnig mikið að segja. Minni hagvöxtur er að mati sérfræðinga Vegagerðarinnar helsta ástæða fyrir minni aukningu á hringveginum en einnig hafi mikið að segja að ferðamönnum fækkaði verulega við fall Wow air.

„Nú má gera ráð fyrir að erlendum ferðamönnum til landsins geti fækkað um 15% í ár miðað við árið á undan. Verði þetta raunin hafa rannsóknir Vegagerðarinnar, um fjölda erlendra ferðamanna í umferðinni, sýnt fram á að slíkur samdráttur gæti dregið úr umferð um 1,5-2,0 prósentustig. Því má draga þá ályktun að ef ferðamannastraumurinn hefði haldist óbreyttur til landsins væru sterkar líkur á að á þessum tíma ársins væri verið að áætla um 4-5% aukningu á umferð um hringveginn nú í ár,“ segir í umfjöllun Vegagerðarinnar.