Bláfjöll Frábær staður á góðum degi og nú á að bæta aðstöðuna til muna.
Bláfjöll Frábær staður á góðum degi og nú á að bæta aðstöðuna til muna. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Áform um stórfellda uppbyggingu á Skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins í Bláfjöllum og Skálafelli eru sögð í uppnámi vegna þess að Veitur kærðu þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að framkvæmdirnar þyrftu ekki að fara í umhverfismat.

Fjallað var um stöðu málsins á fundi samstarfsnefndar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins á dögunum. Þar kom fram að veruleg undirbúningsvinna hefði átt sér stað sem miðaði fyrst og fremst að því að tryggja vatnsvernd á Bláfjallasvæðinu. „Unnið hefur verið markvisst að tillögum að mótvægisaðgerðum til að tryggja framgang málsins. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hafa þegar samþykkt áætlunina,“ segir í fundargerð nefndarinnar. Þar er rakið að Veitur og Hafnarfjarðarbær hafi kært úrskurð Skipulagsstofnunar en Hafnarfjörður hafi nú dregið kæruna til baka. „Samstarfsnefnd Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins skorar á Veitur ohf. að draga til baka kæruna enda hafi verið brugðist við áhyggjuefnum Veitna eða þau komin í ferli. Frekari tafir setja uppbyggingaráform í uppnám,“ segir í fundargerð.

„Það er vissulega jákvæð hreyfing á málum sem við bindum vonir við að leiði til farsællar niðurstöðu fyrir öll sem hlut eiga að máli,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, talsmaður Veitna, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki náðist í Diljá Ámundadóttir, formann samstarfsnefndar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, í gær.

Tryggja þurfi vegabætur

Umrædd áform um uppbyggingu fela í sér uppsetningu nýrra skíðalyftna og endurbætur á þeim eldri, bætta aðstöðu fyrir skíðagöngugöngufólk og snjóframleiðslu svo eitthvað sé talið. Áætlað er að heildaraðsókn að skíðasvæðunum aukist um 50 prósent í kjölfar þessa og gestir verði um 60 þúsund að meðaltali ár hvert.

Þessi mikla fjölgun gesta og tilheyrandi umferð um vegi yfir grunnvatnsstrauma höfuðborgarsvæðisins eru ástæða þess að Veitur vildu að framkvæmdirnar færu í umhverfismat. Tryggja þurfi vegabætur áður en ráðist verði í uppbyggingu og horft verði til vatnsverndarsjónarmiða.