Bók á leiðinni Það eru skemmtilegir tímar fram undan hjá Berglindi, sem er að gefa út fyrstu bók sína.
Bók á leiðinni Það eru skemmtilegir tímar fram undan hjá Berglindi, sem er að gefa út fyrstu bók sína. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þau stórkostlegu tíðindi berast að hin eina sanna Berglind Hreiðarsdóttir, sem ætti að vera lesendum Matarvefsins á mbl.is að góðu kunn, er að gefa út sína fyrstu bók fyrir jólin.

Þau stórkostlegu tíðindi berast að hin eina sanna Berglind Hreiðarsdóttir, sem ætti að vera lesendum Matarvefsins á mbl.is að góðu kunn, er að gefa út sína fyrstu bók fyrir jólin. Bókin er væntanleg í nóvember og verður farið rækilega yfir það í henni hvernig halda á veislur af ýmsum toga á sem snjallastan og hagkvæmastan hátt.

Þóra Kolbrá Sigurðardóttir

thora@mbl.is

Fáir eru flinkari í veisluhaldi en Berglind og því verður bókin að teljast mikill hvalreki fyrir alla þá sem þurfa að ferma, útskrifa eða bjóða fólki í afmæli á komandi misserum.

Hér gefur að líta eitt af meistarastykkjum Berglindar, en þetta er gulrótarkaka með guðdómlegu rjómaostakremi.

Gulrótarkaka með rjómaostskremi

160 g hveiti

2 tsk. lyftiduft

½ tsk. matarsódi

1 tsk. salt

2 tsk. kanill

½ tsk. múskat

¼ tsk. negull

300 ml matarolía

220 g púðursykur

220 g sykur

4 egg

2 tsk. vanilludropar

260 g rifnar gulrætur

Hitið ofninn 175°C og gerið 3x15 cm kökuform tilbúin.

Setjið hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt, kanil, múskat og negul í skál og leggið til hliðar.

Hrærið saman matarolíu og púðursykri í hrærivélarskálinni og bætið síðan eggjunum saman við, einu í einu og skafið vel niður á milli.

Hellið þá vanilludropunum út í skálina og síðan þurrefnunum í nokkrum skömmtum.

Að lokum fara rifnar gulrætur út í, ég notaði fínt rifjárn en ef þið viljið grófari áferð má rífa þær gróft.

Klippið bökunarpappír í botninn á formunum og spreyið þau vel með matarolíuspreyi.

Skiptið deiginu jafnt niður á milli formanna (ég vigtaði um 515-520 g í hvert).

Bakið í um 50 mínútur, eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á en ekki blautu deigi.

Rjómaostskrem

135 g smjör við stofuhita

200 g rjómaostur við stofuhita

750 g flórsykur

4 tsk. vanilludropar

Þeytið saman smjör og rjómaost þar til það er létt og ljóst.

Bætið flórsykri saman við í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli og hrærið vel.

Að lokum fara vanilludroparnir saman við.

Kreminu er smurt á milli botna og kakan hjúpuð að utan. Hafið kremhjúpinn þykkan á toppnum en skafið hann vel af á hliðunum svo það sjáist í botnana.

Skreytið með ferskum blómum/haustblómum að vild.