Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sérstaklega verður horft til upplifunar sjúklinga af þjónustu Reykjalundar í úttekt sem landlæknisembættið mun gera á stofnuninni á næstu dögum. Að því leyti er athugunin frábrugðin öðrum úttektum landlæknis.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sérstaklega verður horft til upplifunar sjúklinga af þjónustu Reykjalundar í úttekt sem landlæknisembættið mun gera á stofnuninni á næstu dögum. Að því leyti er athugunin frábrugðin öðrum úttektum landlæknis. Einnig verður rætt við starfsfólk um upplifun þess af ástandinu.

Landlæknir sagði frá hugmyndum embættisins um úttekt á Reykjalundi á samráðsfundi með Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðuneytinu um málefni Reykjalundar í gærmorgun. Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, segir að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi fagnað því á fundinum. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að gera úttektina og stjórnendum Reykjalundar tilkynnt það.

Geti haft áhrif á teymisvinnu

Spurður um ástæðu úttektarinnar segir Kjartan að hún sé gerð í ljósi atburða að undanförnu. Embættið hafi áhyggjur af því að það álag sem verið hafi á starfsfólki og andrúmsloft á stofnuninni smiti út frá sér og hafi áhrif á teymisvinnu með sjúklingum. Hann tekur það fram að engar vísbendingar hafi borist um að misbrestur hafi orðið á veitingu þjónustu, það sé ekki ástæðan.

Reiknað er með að farið verði í heimsókn á Reykjalund í lok þessarar viku eða byrjun þeirrar næstu. Kjartan telur ekkert því til fyrirstöðu að athugunin taki skamman tíma. Það sé mikilvægt því það styttist í 1. febrúar þegar uppsagnir margra lækna taka gildi. Fram hefur komið að flestir læknar Reykjalundar hafa hætt eða sagt upp störfum.

Traust er mikilvægt

Stjórn SÍBS fagnar fyrirhugaðri úttekt landlæknis á starfsemi Reykjalundar, þegar leitað er viðbragða eiganda Reykjalundar. „Mikilvægt er að stofnunin njóti fulls trausts heilbrigðisyfirvalda og gegnsæi sé tryggt um starfsemina,“ segir ennfremur.

Magdalena Ásgeirsdóttir, læknir og formaður læknaráðs Reykjalundar, tekur fram að hún viti ekki um hvað úttektin eigi að snúast. Viðbrögð starfsfólksins fari eftir því hvernig að þessu verði staðið. „Ég verð að treysta því að heilbrigðisyfirvöld leggi sig fram við að gera þetta á sem faglegastan hátt,“ segir Magdalena.

Hún bætir því við að hvorki stjórnendur Reykjalundar né heilbrigðisyfirvöld hafi leitað til lækna stofnunarinnar vegna ástandsins og þeir heyri aðeins og lesi í fjölmiðlum hvað stjórnendur Reykjalundar hyggist gera.