Boris Johnson
Boris Johnson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Boris Johnson sem hóf kosningabaráttu sína á þriðjudag er einlægur aðdáandi Churchills, síns frægasta fyrirrennara. Johnson hefur skrifað ágæta bók um hetju sína, og þekkir vel sögu hans.

Boris Johnson sem hóf kosningabaráttu sína á þriðjudag er einlægur aðdáandi Churchills, síns frægasta fyrirrennara. Johnson hefur skrifað ágæta bók um hetju sína, og þekkir vel sögu hans.

Johnson veit því að stórmennið var mannlegt og átti til að slá feilnótur þótt snilldartaktarnir ýti þeim út í horn gleymskunnar. En sum slysaskot hans reyndust dýrkeypt og þóttu jafnvel til marks um dómgreindarskort.

Boris Johnson hóf baráttu sína með ræðu og voru ræðan og framsetningin í stíl við Churchill og var sigurmerkið fræga ekki það eina. Í ræðunni þótti Johnson með réttu við hæfi að vara kjósendur við Jeremy Corbyn og þeim neikvæðu áhrifum sem það hefði næði hann að smeygja sér inn í Downingstræti 10, en stóðst ekki þá freistingu að hafa tengingu á milli Corbyns og Stalíns.

Í fyrstu ræðu sinni fyrir kosningarnar 1945 varð Churchill á að gefa til kynna að kæmist Clement Attlee til valda myndi hann ekki geta náð pólitískum áformum sínum fram nema með atbeina harðsnúinnar leynilögreglu á borð við Gestapo Hitlers.

Þótt sú fráleita kenning hafi ekki ráðið úrslitum um sigur Attlees þá viðurkenndi Churchill síðar að þetta hefðu verið mistök og ósanngjarnt að auki.

Vonandi koma öðruvísi atkvæði upp úr kössum nú en sumarið 1945.