Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Eftir Mörtu Guðjónsdóttur: "Enginn sem í raun og veru metur náttúruperlur á við Elliðaárdalinn má láta þrönga, skammsýna og flokkspólitíska hagsmuni villa sér sýn."

Elliðaárdalurinn er eitt stærsta og fjölsóttasta útivistarsvæði borgarinnar. Þar er einstakt náttúrufar sem vitnar um stórbrotna og heillandi jarðsögu, auk þess sem svæðið býður upp á ýmsar sögulegar minjar. Elliðaárnar renna um miðjan dalinn, fáar ef nokkrar aðrar borgir geta státað af að eiga laxveiðiá sem rennur um miðja borg. Við eigum því ekki að þurfa að standa í pólitísku þrasi við borgaryfirvöld um að vernda slíka náttúruparadís.

Elliðaárdalur ekki meðal friðlýstra svæða í borgarlandinu

Þeir sem halda því fram að Elliðaárdalurinn sé friðlýstur hafa rangt fyrir sér. Hverfisvernd í deiliskipulagi er ekki friðlýsing enda á friðlýsing sér stoð í náttúruverndarlögum. Hún er unnin í samvinnu við umhverfisráðuneytið óski sveitarfélag eftir því að undangenginni auglýsingu. Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar eru einungis fimm svæði í borgarlandinu friðlýst, þau eru Fossvogsbakkar, Háubakkar, Laugarás, Rauðhólar og Eldborg í Bláfjöllum. Elliðaárdalurinn er ekki á meðal þessara svæða.

Óafturkræft umhverfisslys í uppsiglingu

Elliðaárdalinn verður að friðlýsa til að vernda hann frá ágangi nýrra bygginga og mannvirkja. Það yrði óafturkræft umhverfisslys ef gengið yrði á dalinn með umfangsmiklum byggingum. Núverandi lóðarvilyrði borgarstjórnar miða að slíkum hamförum en þau hljóða upp á 12.500 fermetra mannvirki undir gróðurhvelfingar og veitingarekstur. Þar er gert ráð fyrir byggingum að grunnfleti 4.500 fermetrar. Auk þessarar lóðar ætlar meirihlutinn að úthluta þremur öðrum lóðum undir ýmiss konar starfsemi á svæðinu.

Enginn sem í raun og veru metur náttúruperlur á við Elliðaárdalinn má láta þrönga, skammsýna og flokkspólitíska hagsmuni villa sér sýn í þessum efnum. Því miður hafa umhverfisverndarsinnar, sem ýmist fylgja Vinstri-grænum eða Samfylkingunni að málum, ekki tjáð sig um málið í fjölmiðlum. Nánast algjör þögn ríkir í þessum hópi varðandi þau umhverfisspjöll sem meirihlutinn í borgarstjórn hyggst samþykkja endanlega á næstu vikum. Það vekur athygli sérstaklega í ljósi þess að í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga voru Vinstri-græn með hástemmdar yfirlýsingar um vilja til þess að friðlýsa dalinn og lýstu því yfir að þau hefðu verið á móti nýbyggingum í dalnum.

En núna – ekki eitt einasta orð frá ofangreindum umhverfisverndarsinnum um þau náttúruspjöll sem meirihlutinn ætlar að heimila að verði framkvæmdar við Stekkjarbakka í Elliðaárdal.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.