Strand Gæslan stjórnaði aðgerðum þegar Blíða strandaði sl. sumar.
Strand Gæslan stjórnaði aðgerðum þegar Blíða strandaði sl. sumar. — Af vef Landhelgisgæslunnar
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ekki hefur skýrst hvers vegna togbáturinn Blíða SH-277 sökk á Breiðafirði í fyrradag. Lögreglan á Vesturlandi og fulltrúar siglingasviðs rannsóknarnefndar samgönguslysa tóku skýrslur af skipverjum í gær.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ekki hefur skýrst hvers vegna togbáturinn Blíða SH-277 sökk á Breiðafirði í fyrradag. Lögreglan á Vesturlandi og fulltrúar siglingasviðs rannsóknarnefndar samgönguslysa tóku skýrslur af skipverjum í gær. Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri siglingasviðs, sagði þegar þeim var lokið að böndin bærust ekki að neinu sérstöku atriði.

Jón Arilíus segir að samhliða sé unnið að gagnasöfnun um skipið, ferðir þess, stöðugleika og annað sem skiptir máli. Hann telur víst að kafað verði niður að bátnum til að athuga hvort hægt sé að sjá eitthvað við það. Rannsóknarnefndin gerir síðan skýrslu um atvikið.

Blíða SH sökk norður af Langeyjum á Breiðafirði um hádegisbil í fyrradag þar sem skipið var á beitukóngsveiðum. Ágætis veður var en báturinn sökk svo hratt að skipverjarnir þrír náðu ekki að komast í björgunargalla. Þeim var bjargað um borð í togbátinn Leyni SH af björgunarbátnum sem var á hvolfi í sjónum. Skipverjarnir voru orðnir kaldir. Þeir gengust undir læknisskoðun í Stykkishólmi.

Skýrslutökurnar fóru fram hjá Lögreglunni á Vesturlandi á Akranesi og voru túlkar til aðstoðar þar sem mennirnir eru frá Lettlandi og Litháen.

Strandaði í sumar

Blíða SH hefur alloft steytt á skerjum í Breiðafirði á undanförnum árum. Síðast um miðjan júní sl., skammt frá Stykkishólmi, og var strand í nokkrar klukkustundir. Eftir að skipið réttist af gátu skipverjar losað það af strandstað og siglt fyrir eigin vélarafli til hafnar í Stykkishólmi. Þar var ástand skipsins kannað.