Gjöf Hjónin María Guðmundsdóttir og Sigurður Hansen að baki listamanninum, Guðmundi Hermannssyni á Fjalli, sem skar út taflmennina.
Gjöf Hjónin María Guðmundsdóttir og Sigurður Hansen að baki listamanninum, Guðmundi Hermannssyni á Fjalli, sem skar út taflmennina. — Ljósmyndir/Guðmundur Sigurðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skagafjörður | Lista- og Strandamaðurinn Guðmundur Hermannsson, sem lengstum var kenndur við Fjall í Sæmundarhlíð þar sem hann bjó, heimsótti Sigurð Hansen nýverið í Kakalaskála og færði honum að gjöf forkunnarfallega og listilega útskorna taflmenn úr...

Skagafjörður | Lista- og Strandamaðurinn Guðmundur Hermannsson, sem lengstum var kenndur við Fjall í Sæmundarhlíð þar sem hann bjó, heimsótti Sigurð Hansen nýverið í Kakalaskála og færði honum að gjöf forkunnarfallega og listilega útskorna taflmenn úr hreindýrshorni.

Guðmundur var kennari við Varmahlíðarskóla í Skagafirði á árunum 1976 til 2003, er hann lét af störfum sökum aldurs.

Taflmennirnir eru mikil listasmíð. Hver maður stendur á litlum stöpli, einnig úr horni, hvar á er skráð með rúnaletri nafn mannsins.

Taflmennirnir sjálfir bera þekkt nöfn úr Íslandssögunni, og þannig eru kóngarnir Þórður kakali og Gissur jarl, en drottningarnar bera nöfn Helgu hinnar fögru og Hallgerðar langbrókar. Eru þau öll skreytt með litlum eðalsteinum í augum og bera drottningarnar gulldoppur til skrauts, en kóngarnir bera gullkross á höfði.

Fótgönguliðið, peðin, ber hins vegar nöfn búandkarla í Skagafirði nútímans og má þar finna: Inga flugu, Arnór glaum, Einar skerpi, Agnar mikla og Stebba keldu, svo einhverjir séu nefndir. Er gjöfin öll hin glæsilegasta og hver taflmaður einstök listasmíði.

Þau hjónin María Guðmundsdóttir og Sigurður Hansen þökkuðu Guðmundi þessa höfðinglegu gjöf, sem þau sögðu að myndi fá viðeigandi umbúnað og veglegan sess í Kakalaskálanum.

Að skilnaði afhenti Sigurður Guðmundi eintak nýrrar ljóðabókar sinnar, Glæður , sem kemur hér á markað á næstu dögum.