Þórarinn Brynjar Þórðarson fæddist 2. október 1929 í Keflavík. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 20. október 2019. Foreldrar hans voru Kristjana Magnúsdóttir, f. 1904, d. 2003, og Þórður Sigurðsson, f. 1898, d. 1937. Alsystkini Þórarins Brynjars: Höskuldur Arnar, f. 1926, Dallý Arna, f. 1927, og Þóra Hjördís, f. 1935, d. 2004. Bróðir samfeðra Guðmundur, f. 1919, d. 2000, og systur sammæðra Jóhanna Sigurþórsdóttir, f. 1945, og Guðfinna Sigurþórsdóttir, f. 1946.

Þórarinn Brynjar kvæntist árið 1951 eftirlifandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Valtýsdóttur, f. í Vestmannaeyjum 17.6. 1930. Foreldrar hennar voru Ásta Sigrún Guðjónsdóttir, f. 1905, d. 1999, og Valtýr Brandsson, f. 1901, d. 1976. Börn Þórarins Brynjars og Jóhönnu: 1) Þóranna, f. 1951. Eiginmaður hennar Kristmann Klemensson, f. 1946. Börn þeirra: Kristján, Guðrún, Jóhanna, Brynja og Péturína Lára. 2) Valdís, f. 1953. Eiginmaður hennar Helgi Hermannsson, f. 1953, d. 2005. Synir þeirra: Hermann, Jóhann Þór og Pétur Örn. 3) Kristján, f. 1954. Eiginkona hans Erla Sólbjörg Kjartansdóttir, f. 1954. Börn þeirra: Kjartan Steinar, Ágústa Kolbrún, Þórarinn Brynjar og Kristján Þór. 4) Brynjar, f. 1957. Eiginkona hans er Hulda Guðlaug Sigurðardóttir, f. 1952. Börn þeirra: Þórður Freyr og Sigrún Lovísa. 5) Ásta, f. 1961. Eiginmaður hennar er Árni Þór Árnason, f. 1959. Synir þeirra: Ragnar Már, Árni Þorkels, Ástþór Valur, Ágúst Helgi og Jón Aðalberg. 6) Sigurþór, f. 1966. Eiginkona hans Inga Sif Gísladóttir, f. 1968. Börn þeirra: Sigurþór Ingi og Ólöf Jóhanna. Fyrir átti Inga Sif soninn Gísla Steinar Sverrisson. Afkomendur Þórarins Brynjars og Jóhönnu eru 60.

Þórarinn Brynjar stundaði sjómennsku á yngri árum. Var á farskipum, m.a. um árabil á ms. Kötlu. Hann var menntaður rennismiður og vélvirki. Hann rak vélsmiðjuna Óðin sf. í Keflavík frá árinu 1958 til 2003 ásamt Höskuldi bróður sínum. Þórarinn Brynjar var virkur félagi í Björgunarsveitinni Stakk. Hann var félagi í Rótarýklúbbi Keflavíkur í um áratug. Ferðir um óbyggðir Íslands ásamt eiginkonu, fjölskyldu og vinafólki voru um árabil ástríða hans og gamli Weaponinn reyndist vel í þeim svaðilförum. Ævintýraferðir erlendis áttu hug þeirra hjóna um skeið og í Grímsnesinu byggðu þau sér sumarbústað

Útför Þórarins Brynjars fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 7. nóvember 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Faðir minn, Þórarinn Brynjar, varð níræður 2. október síðastliðinn. Þeim merka áfanga náði hann ekki að fagna með þeim hætti sem við í fjölskyldunni hefðum kosið. Veikindi settu strik í reikninginn og aðeins fáum vikum síðar lést hann á Landspítalanum. Vegna starfa minna á þeim vettvangi auðnaðist mér að sitja löngum stundum við hlið hans síðustu dagana í lífi hans; fylgja honum eftir síðustu sporin. Fyrir mér var það mikilvægt. Svo mikið á ég honum að þakka. Þessa daga dáðist ég að rólyndi hans og æðruleysi. Og þannig var hann að skaplyndi. Miklaði ekki hlutina fyrir sér, rólyndur og yfirvegaður og lét fátt koma sér úr jafnvægi. Pabbi var mér fyrirmynd á mörgum sviðum. Hann var ákaflega handlaginn og nákvæmur í öllu handverki, hvort heldur hann stóð við rennibekkinn, byggði sumarbústað eða aðstoðaði börnin sín við ýmsar framkvæmdir. Þegar ég stóð í byggingarframkvæmdum fyrir nokkrum árum munaði um liðsinni hans. Þegar eitthvað gekk ekki upp í mínum huga mat hann stöðuna í rólegheitum og fann oftar en ekki lausnina. Hann var úrræðagóður, ekkert var í hans huga óyfirstíganlegt. Vandamálin eru til þess að leysa þau sagði hann gjarnan. Pabbi var ekki mikið fyrir að hreykja sér en samferðamenn hans sögðu mér ýmsar sögur af hæfileikum hans, hugviti og verklagni. Pabbi var greiðvikinn maður og vel liðinn af samferðamönnum sínum. Hann var félagslega sinnaður og naut þess að starfa í ýmsum félagasamtökum. En mikilvægast í huga hans var fjölskyldan. Við systkinin minnumst þess, hvernig hann og móðir okkar mótuðu heimilisbrag sem var okkur til eftirbreytni. Jákvæðni, hlýja og umburðarlyndi en ekki síst var okkur innrætt, að samviskusemi og vinnusemi væri dyggð. Ég kveð pabba minn með söknuði í hjarta en um leið með þakklæti fyrir allt sem hann var mér. Megir þú hvíla í friði, elsku pabbi minn.

Þinn sonur,

Sigurþór.

Frá fyrstu kynnum var tengdafaðir minn, Þórarinn Brynjar, mér kær. Hann var mikill öðlingur og naut virðingar og elsku allra þeirra sem honum tengdust. Fjölskyldan átti hug hans allan og hann fylgdist alla tíð af áhuga með börnum sínum og barnabörnum. Ég kveð góðan mann og kæran tengdaföður með þessum ljóðlínum.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Inga Sif Gísladóttir.

Kveðja frá Stakksfélögum og ferðahópnum

Brynjar í Óðni var það nafn sem við kölluðum hann oftast enda kenndur við vélsmiðjuna Óðin sem hann rak og vann í stóran hluta lífs síns. Þegar sá sem þetta ritar kynntist þeim hjónum höfðum við Brynjar eignast öflugar fjórhjóladrifnar bifreiðar sem voru notaðar óspart til ferðalaga um óbyggðir Íslands. Þau Brynjar og Jóhanna ásamt börnum voru afar dugleg við að stunda slíkar ferðir og njóta. Ég minnist ótal ferða norður fyrir Hofsjökul í Ásbjarnarvötn, suður Sprengisand til Veiðivatna og þaðan yfir Hófsvað til Landmannalauga. Til slíkra ferða þurfti traustar bifreiðar og trausta stjórnendur sem ekki voru ragir við að takast á við fjölbreytt viðfangsefni og áskoranir sem ferðir um lítt og ókannað hálendi Íslands voru. Þar voru þau Brynjar og Jóhanna á réttum stað. Suðurnesjafólk var orðið ansi þekkt í þeim þrönga hópi ferðalanga sem fóru slíkar ferðir á þeim tíma en þar voru áberandi Brynjar, Knútur Höiriis ásamt undirrituðum sem allir áttu traustar fjallabifreiðir sem báru sama litinn og var því eftir þeim tekið hvar sem þeir fóru. Þetta voru góðir og ánægjulegir tímar með glöðu og skemmtilegu fólki. Það er freistandi að minnast á einstakar ferðir eins og þegar kabyssan í Landmannalaugum leitaði útrásar eða páskaferðirnar í Öræfasveitina þar sem mörg óvænt og spennandi ævintýri biðu okkar. Brynjar var einn stofnenda Björgunarsveitarinnar Stakks sem hann og Jóhanna störfuðu í af miklum krafti. Á mörgum ferða okkar um óbyggðirnar, mest að sumarlagi, vorum við oft búin að hugsa um hvernig við gætum notið þess að ferðast þar um einnig að vetri til. Það fór svo að hópur samrýmdra ferðafélaga stofnaði félagsskap um kaup á snjóbíl, fyrst einum en síðar öðrum. Brynjar sá um og smíðaði sleða fyrir báða snjóbílana, til aðseturs í slíkum ferðum. Það tímabil var okkur mikill gleðigjafi, páskaferðir í Landmannalaugar og víðar með fjölskyldum og vinum voru afar ánægjulegar. Hópur ferða- og björgunarsveitafélaga tók sig saman eftir gott starf innan björgunarsveitarinnar um að stofna ferðahóp til að viðhalda tengslum og minningum um þá góðu tíma. Þar létu þau Brynjar og Jóhanna sitt ekki eftir liggja. Hópurinn kallar sig 1313 og hefur haldið sambandi í 36 ár.

Það er erfitt að kveðja góða vini og félaga eftir ánægjulegt samstarf til margra ára. Samstarf sem byggst hafði á trausti og áreiðanleika þar sem oft reyndi á þolinmæði og útsjónarsemi þegar við lentum í erfiðum og óvæntum aðstæðum. Þá var gott að hafa þau Brynjar og Jóhönnu í hópnum.

Við félagar þeirra í fjallaferðum og björgunarstarfi þökkum Brynjari samfylgdina af heilum hug og munum sakna hans með djúpu þakklæti fyrir samstarfið, ánægjuna og ljúfmennskuna sem fylgdi honum í öllum okkar ferðum. Okkar dýpsta samúð er hjá Jóhönnu, börnum þeirra og fjölskyldum.

Brynjar, góða ferð á hverjar þær slóðir sem þú ert lagður á og kæra þökk fyrir samfylgdina.

Fyrir hönd félaga í Björgunarsveitinni Stakki og Ferðahópsins 1313,

Garðar Sigurðsson.