Samkeppniseftirlitið má ekki fara offari frekar en aðrar ríkisstofnanir

Frumvarpsdrög um breytingu á samkeppnislögum hafa vakið nokkra athygli og þá ekki síst fyrirhuguð breyting á heimild Samkeppniseftirlitsins til að skjóta úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. Samkeppniseftirlitið, sem er í vissum skilningi aðili þessa máls, sendi frá sér sérstaka yfirlýsingu vegna þessa og mótmælti fyrirhugaðri breytingu.

Þrátt fyrir vissa aðild Samkeppniseftirlitsins að þessu máli má efast um hversu eðlilegt það er að þeir sem þar starfa noti stofnunina, sem á að starfa eftir lögum, til að þrýsta á ráðherra og þingmenn um það hvernig lögin eiga að vera.

Í þessu sambandi skiptir þó ekki síður máli að Samkeppniseftirlitið er ekki í skilningi stjórnsýsluréttarins aðili þeirra samkeppnismála sem það tekur fyrir og úrskurðar um, eins og Árni Grétar Finnsson lögfræðingur bendir á í grein í Viðskiptamogganum í gær.

Niðurstaða úrskurðarnefndar samkeppnismála á að vera endanleg nema aðili máls skjóti henni til dómstóla. Þó að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins vilji aukin völd er það ekki þeirra að ákvarða um völd sín. Þá sýnir reynslan að það fyrirkomulag sem ríkt hefur á undanförnum árum hefur valdið óeðlilegu ástandi í atvinnulífinu, miklum kostnaði og óhóflegum töfum. Brýnt er að þetta verði lagað í samræmi við frumvarpsdrögin.