Elías Hergeirsson fæddist 19. janúar 1938. Hann lést 7. október 2019.

Elías var jarðsunginn 16. október 2019.

Nú höfum við kvatt Elías Hergeirsson, kæran vin og samstarfsmann til margra ára á vettvangi knattspyrnunnar. Hann var kjörinn í stjórn Knattspyrnusambands Íslands í desember 1986 og sat þar til í febrúar 1999, er hann gaf ekki lengur kost á sér til stjórnarsetu. Lengst af var hann gjaldkeri í stjórninni eða í átta ár. Elías hafði áður gegnt stjórnarstörfum í Knattspyrnuráði Reykjavíkur og hjá Knattspyrnufélaginu Val, þar sem hann hafði leikið fótbolta á sínum yngri árum við góðan orðstír.

Elías sat í stjórn KSÍ þegar þröngt var í búi en upplifði síðan breytingar þegar miklir fjármunir fengust í fyrsta sinn fyrir útsendingarrétt frá heimaleikjum landsliðsins. Starf gjaldkera var tímafrekt og krefjandi á þessum árum þar sem fáliðað var á skrifstofu KSÍ. Öll framganga Elíasar í þessum störfum einkenndist af kunnáttu hans á viðfangsefninu, hógværð og prúðmennsku.

Elías féll vel í hóp, gat verið leiðtogi og jafnframt félagi, en alltaf ábyrgur enda var honum iðulega treyst fyrir fjármálum í þeim stjórnum sem hann sat í. Elías var hrókur alls fagnaðar í keppnisferðum og þá komu hans góðu kostir sér vel, hann var manna skemmtilegastur en jafnframt alltaf tilbúinn að bera klæði á vopnin þegar á þurfti að halda.

Síðustu tólf árum ævi sinnar varði Elías í baráttu við illvígan sjúkdóm, parkinsonsveiki. Allan þann tíma kom hann fram af því æðruleysi sem einkennt hafði allt hans líf og breytti engu þótt hann vissi vel að sjúkdómurinn myndi að lokum fella hann.

Að leiðarlokum viljum við þakka fyrir það að hafa fengið að verða samferða slíkum heiðursmanni sem Elías Hergeirsson var. Þökkum honum samstarfið og vináttuna, sem aldrei bar skugga á. Framlag Elíasar til íslenskrar knattspyrnu var mikið og óeigingjarnt, alltaf unnið af heilindum með sannri gleði fyrir leiknum. Þá hefur það verið lán KSÍ að báðar dætur Elíasar og Valgerðar Önnu starfa og hafa starfað á skrifstofu KSÍ árum saman og borið sannan vitnisburð um einstaka mannkosti foreldra sinna.

Við vottum eiginkonu hans, Valgerði Önnu, og börnum þeirra Hergeiri, Margréti, Ragnheiði og Jónasi, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar dýpstu samúð. Minning um góðan dreng mun seint gleymast og orðstír deyr aldregi.

Eggert Magnússon,

Geir Þorsteinsson,

Eggert Steingrímsson.