Ásigling Mynd úr öryggismyndavél sýnir atvikið er Eldey rakst utan í danska varðskipið Hvidbjørnen. Skemmdir urðu á báðum skipunum.
Ásigling Mynd úr öryggismyndavél sýnir atvikið er Eldey rakst utan í danska varðskipið Hvidbjørnen. Skemmdir urðu á báðum skipunum. — Ljósmynd/Úr skýrslu RNS
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Lokaskýrsla sjóslysasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna ásiglingar hvalaskoðunarskipsins Eldeyjar á danska varðskipið Hvidbjørnen í Reykjavíkurhöfn fyrir ári var afgreidd á fundi nefndarinnar á föstudag.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Lokaskýrsla sjóslysasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna ásiglingar hvalaskoðunarskipsins Eldeyjar á danska varðskipið Hvidbjørnen í Reykjavíkurhöfn fyrir ári var afgreidd á fundi nefndarinnar á föstudag. Í áliti nefndarinnar segir að ekki hefði átt að sleppa landfestum Eldeyjar meðan verið var að taka 135 metra langt herskip inn í höfnina.

„Nefndin hvetur stjórnendur farþega- og hvalaskoðunarskipa að kynna sér vel umferð innan hafnarinnar og taka tillit til hennar áður en farið er af stað eða við komur til að tryggja öryggi skipsins,“ segir í álitinu.

Skemmdir á báðum skipum

Landfestum Eldeyjar var sleppt klukkan níu að morgni 18. október í fyrra, en skipið lá utan á öðru skipi við Ægisgarð. Skömmu eftir að skipið var laust lenti það með bakborðssíðu utan í danska varðskipinu Hvidbjørnen sem lá við Ægisgarð, segir í skýrslu RNS. 116 farþegar voru um borð í Eldey og fjórir skipverjar.

Talsverðar skemmdir urðu á Eldey þar sem tveir gluggar brotnuðu og pósturinn á milli þeirra gekk aðeins inn. Einn farþegi um borð í Eldey skarst á glerbroti. Rekkverk á skut Hvidbjörnen bognaði.

Í áliti RNS segir að við rannsókn hafi komið fram að skömmu eftir að Eldey fór frá Ægisgarði hafði skipstjórinn samband við hafnsögumann sem var að aðstoða annað skip inn í höfnina. Skipstjórinn kvaðst hafa óskað eftir að fá að sigla framhjá en hafnarþjónustan hefði beðið hann um að bíða átekta. Hann hefði slegið af en þá hefði Eldey rekið undan vindi og lent utan í danska varðskipinu.

Herskipið sem verið var að taka inn í höfnina átti að leggja að bryggju við Miðbakka. Það hefur væntanlega verið hluti af heræfingu Atlantshafsbandalagsins í Norður-Atlantshafi, Trident Juncture, sem þá stóð yfir. Þessa októberdaga í fyrra voru herskip NATO áberandi í höfnum á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki farið að reglum

Í nóvember 2017 skapaðist árekstrarhætta rétt fyrir innan innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn þegar Eldey og frystitogarinn Brimnes mættust þar. Skipstjórum tókst að koma í veg fyrir árekstur, en aðeins voru nokkrir metrar á milli skipanna þegar minnst var.

Í lokaskýrslu siglingasviðs rannsóknarnefndar samgönguslysa um það atvik kemur fram það álit nefndarinnar að orsök atviksins hafi verið að skipstjóri Eldeyjar hafi ekki farið að reglum um komu skips og siglingu þess inn til hafnar og innan hennar.