Í Heiðmörk Sævar Hreiðarsson skógarvörður fellir tíu metra hátt sitkagrenitré sem verður torgtré. Myndin er tekin í Heiðmörk skammt frá minnisvarða um fyrsta skógræktarstjóra Íslendinga, Agnar Kofoed-Hansen.
Í Heiðmörk Sævar Hreiðarsson skógarvörður fellir tíu metra hátt sitkagrenitré sem verður torgtré. Myndin er tekin í Heiðmörk skammt frá minnisvarða um fyrsta skógræktarstjóra Íslendinga, Agnar Kofoed-Hansen. — Morgunblaðið/Hari
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur eru þessa dagana að fella um 1.500 jólatré í Heiðmörk og víðar.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur eru þessa dagana að fella um 1.500 jólatré í Heiðmörk og víðar. Auk þessara stofutrjáa verða felld um 25 torgtré, þar á meðal Óslóartréð, sem nú orðið kemur úr Heiðmörkinni, og annað sem fer til Þórshafnar í Færeyjum sem gjöf frá Reykvíkingum.

Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, segir að velja þurfi á milli nokkurra kandídata í Heiðmörk sem komi til álita sem Óslóartréð á Austurvelli í ár, en það verður tekið úr landnemalundi Nordmannslagets í Heiðmörk. Tréð á Austurvelli var í áratugi gjöf frá Óslóarborg til Reykvíkinga og er enn oft kallað Óslóartréð. Frá upphafi skógræktarstarfs í Heiðmörk hafa Norðmenn stutt dyggilega við skógrækt á svæðinu, að sögn Helga.

Vinarhugur í verki

Norðmenn taka ekki lengur þátt í beinum kostnaði við tréð né uppsetningu þess en Helgi segir að Norðmenn hafi hins vegar sýnt vinarhug í verki með því að bjóða starfsmönnum Skógræktarfélags Reykjavíkur og Skógræktarinnar víðs vegar að af landinu til viku námskeiðs í skógarhöggi nýlega. Norðmenn hafi greitt allan kostnað á borð við uppihald, ferðir, mat og fræðslu. Óslóarborg og norska sendiráðið báru kostnað af námskeiðinu.

Fjöldi lifandi jólatrjáa sem prýðir híbýli fólks hér á landi um hátíðar hefur verið áætlaður um 50 þúsund. Þar af losar fjöldi innlendra trjáa hátt í tíu þúsund, en um 40 þúsund tré hafa verið flutt inn síðustu ár.

Stafafura og normannsþinur

Helgi segir að stafafura sé vinsælasta innlenda jólatréð, en einnig sitkagreni, rauðgreni og blágreni. Innfluttur normannsþinur, að mestu frá Danmörku, hefur hins vegar lengi verið vinsælasta jólatré Íslendinga, en lítið er framleitt af honum hér á landi.

Í aðdraganda jóla býður Skógræktarfélagið upp á ýmiss konar starfsemi og stemningu. Þannig verður jólamarkaður að venju við Elliðaárbæinn í Heiðmörk og tekur hann til starfa fyrstu helgi í aðventu, 30. nóvember-1. desember. Jólaskógurinn á Hólmsheiði verður opnaður 7. desember, en þar er fólki boðið að höggva sitt eigið jólatré.

Fyrir hvert tré keypt í jólatrjáasölu Skógræktarfélags Reykjavíkur eru 50 gróðursett.