Reykjavík Fjöldi ríkisstofnana hefur keypt ráðgjöf hjá Attentus – mannauði og ráðgjöf á síðustu misserum.
Reykjavík Fjöldi ríkisstofnana hefur keypt ráðgjöf hjá Attentus – mannauði og ráðgjöf á síðustu misserum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Samningar ríkisstofnana um kaup á þjónustu frá fyrirtækinu Attentus – mannauði og ráðgjöf hafa verið utan rammasamninga við Ríkiskaup.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Samningar ríkisstofnana um kaup á þjónustu frá fyrirtækinu Attentus – mannauði og ráðgjöf hafa verið utan rammasamninga við Ríkiskaup.

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að ríkisstofnanir hafa keypt þjónustu af Attentus fyrir 44,5 milljónir frá því í september í fyrra. Meðal viðskiptavina er Vinnueftirlitið en sú þjónusta tengdist að hluta endurskipulagningu hjá stofnuninni. Hafa þær aðgerðir verið umdeildar meðal starfsmanna.

Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa, segir stofnunina hafa boðið út ráðgjafarþjónustu og gert svokallaða rammasamninga vegna hennar. Um sé að ræða samning 14.23 um rekstrarráðgjöf.

Samningurinn hafi tekið gildi 14. nóvember í fyrra og gilt í eitt ár með möguleika á framlengingu um eitt ár þrisvar.

Óvenju dræm þátttaka

Halldór segir aðspurður að fyrirtækið Attentus eigi ekki aðild að rammasamningum Ríkiskaupa. Þátttakan í síðasta útboði hafi verið óvenju dræm og það farið framhjá einhverjum félögum á markaði. Hins vegar hafi verið samið við 11 fyrirtæki um kaup á þjónustu og ráðgjöf. Í flokki 3 á sviði mannauðsmála og ráðninga hafi verið samið við Analytica, CEO Huxun, Crayon Íslandi, Deloitte, Enor, Ernst & Young, FMC, Intellecta, Inventus, KPMG og Strategia.

Halldór segir auðvelt fyrir aðila að rammasamningi að senda tilboð eða fyrirspurn á seljendur í gegnum vef Ríkiskaupa.

Halldór segir aðspurður að þegar ríkisstofnanir kaupa þjónustu utan rammasamnings sé þeim skylt að leita tilboða frá minnst þremur aðilum, svo að um eðlilega samkeppni sé að ræða í samræmi við 24. gr. laga um opinber innkaup nr. 120 frá 2016.

Ber að gera verðsamanburð

„Þótt ekki sé gerður samningur, og þótt kostnaður við einstakt verkefni sé undir 15,5 milljónum á að gera slíkan verðsamanburð,“ segir Halldór. Samkvæmt lögunum sé það hlutverk viðkomandi stofnunar að sinna þeirri skyldu. Verkkaupi skuli gæta að hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Viðkomandi ríkisstofnanir hafi því átt að leita til minnst þriggja félaga þegar þau sömdu við Attentus.

Eins og rakið var í Morgunblaðinu í gær jukust tekjur Attentus mikið milli ára 2017 og 2018, eða úr 166 milljónum í 215 milljónir. Vinnumarkaðurinn stækkaði töluvert milli þessara ára. Stjórn félagsins lagði til að greiddar yrðu 40 milljónir í arð árið 2018.

Vandamál vegna samskipta og kvartað undan einelti

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis – stéttarfélags í almannaþjónustu, segir ábendingar hafa borist vegna óánægju starfsmanna Vinnueftirlitsins í tíð Hönnu Sigríðar Gunnsteinsdóttur sem forstjóra.

„Það sem hefur komið inn á okkar borð snýr að breytingum á starfskjörum og samskiptavandamálum [hjá Vinnueftirlitinu],“ segir Árni Stefán.

Hann segir það ekkert nýtt að breytingar á starfskjörum valdi óróa hjá hluta starfsmanna.

Til séu tvær leiðir til að bæta starfsmönnum upp kostnað við neyslu á ferðalögum. Annars vegar að taka nótur samkvæmt kostnaði og fá hann endurgreiddan. Hins vegar að fá dagpeninga greidda sem taki mið af lengd ferðarinnar.

„Vinnueftirlitið var með dagpeningaformið. Það var væntanlega einn af þeim hlutum sem ráðherra [Ásmundur Einar Daðason] nefndi að ná ætti utan um og hreinsa upp. Þessu fyrirkomulagi var sagt upp og það var mikil óánægja með það. Þessir eftirlitsmenn eru út um hvippinn og hvappinn og misgott að komast í fæði o.s.frv. Þeir eru m.a. að skoða í sveitunum. Þetta hefur komið á okkar borð,“ segir Árni Stefán.

Við það bætist samskiptavandi sem fjallað hefur verið um.

„Í fyrsta lagi vegna mannauðsstjóra sem var leigður til eftirlitsins, hvað hann sagði og hvaða árekstrar urðu þar. Það kom inn á okkar borð. Málið kom upp í kjölfar þess að viðkomandi mannauðsstjóri sagði eitthvað í samræðum við ákveðinn aðila sem mönnum þótti mjög óheppilegt og niðrandi. Eins og oft áður var hins vegar misjöfn túlkun á því hvað var sagt. Það lauk með því að mannauðsstjóranum var skipt út. Svo höfum við heyrt um árekstra þarna, hvernig samskiptin hafi gengið,“ segir Árni Stefán.

Hann segir aðspurður að umræddar umkvartanir eigi við tímabilið síðan Hanna Sigríður tók við.

Hann segir fyrirtækið Líf og sál fara með athugun á meintu einelti innan Vinnueftirlitsins. Könnun hafi bent til þess að hátt hlutfall starfsmanna kvarti undan einelti.