Eyjólfur Eysteinsson
Eyjólfur Eysteinsson
Eftir Eyjólf Eysteinsson: "Er ekki komið að því að sveitarfélögin fái aftur beinan aðgang að málefnum sjúkrahússins okkar?"

Sagan sýnir að þegar við Suðurnesjamenn stöndum saman höfum við náð fram mörgum góðum málum til eflingar samfélagi okkar sem aukið hefur atvinnu, þjónustu við sjúka og menntun unga fólksins.

Menntun í heimabyggð var efld með stofnun Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1974. Sveitarfélögin stóðu að framtakinu í samstarfi við ríkið.

Af mikilli framsýni var virkjað í Svartsengi og Hitaveitu Suðurnesja var komið á með forystu og frumkvæði okkar Suðurnesjamanna í samvinnu við ríkið. Bylting varð þegar heitu vatni var komið inn á öll heimili frá virkjun okkar í Svartsengi.

Þessi framfaramál náðust fram með samvinnu og samstöðu sveitarstjórna á Reykjanesskaganum.

Hafin var bygging Sjúkrahúss Keflavíkurlæknishéraðs að frumkvæði sveitarfélaga á Suðurnesjum á árinu 1954 og heilsugæslu komið á fót árið 1974 til bráðabirgða í leiguhúsnæði.

Árið 1973 var gerð áætlun um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum í samræmi við lög um umdæmissjúkrahús utan Reykjavíkur og Akureyrar. Yfirlæknir sjúkrahússins, Kristján Sigurðsson, Sigurður S. Magnússon prófessor í kvensjúkdómum, fæðingarlæknir, starfsmenn sjúkrahússins og stjórn sjúkrahússins fylgdu málinu eftir en stjórnin var skipuð fulltrúum þáverandi sveitarfélaga á Suðurnesjum; Voga, Grindavíkur, Hafna, Njarðvíkur, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis.

Áætlunin gekk eftir. Árið 1981 var lokið við fæðingardeild í B-álmu sjúkrahússins sem jók öryggi barna og verðandi mæðra. Næst var heilsugæslustöð, C-álma, byggð við sjúkrahúsið árið 1984.

Móttaka lækna var skipulögð í Vogum, Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ. Heilsugæslustöð var byggð í Grindavík.

Lokið var að fullu við byggingu D-álmu sjúkrahússins árið 2004. Gert var ráð fyrir sjúkradeild (skurðstofu) á þriðju hæð og 30 rúma legudeild á annarri hæð en stoðdeildum á fyrstu hæð.

Svona eflum við HSS

Þegar þetta er skrifað á haustdögum 2019 vantar mikið á að HSS þjóni tilgangi sínum eins og áætlað var og lög gerðu ráð fyrir.

Er nú svo komið að það verður að endurreisa sjúkradeild (skurðdeild) HSS en nú eru sjúklingar fluttir til Reykjavíkur til aðgerða sem áður var hægt að sinna á sjúkrahúsinu í Reykjanesbæ. Þá verður að fjölga hjúkrunarfræðingum og sérfræðilæknum við sjúkrahúsið.

Stefna verður að því að nýta betur fæðingardeild HSS en miklar breytingar hafa orðið á rekstri hennar. Fæðingum hefur fækkað frá því sem áður var en þær voru rúmlega 200 árlega fyrir 2004 en eru nú á seinni árum um 100 á hverju ári. Til að skapa fæðandi konum og börnum aukið öryggi verða fæðingarlæknir, svæfingalæknir og skurðlæknir að starfa við sjúkrahúsið.

Nauðsynlegt er að bæta bráða- og slysamóttöku við sjúkrahúsið og styrkja sérstaklega vegna mikillar fjölgunar íbúa á Suðurnesjum og aukinnar umferðar á Keflavíkurflugvelli.

Fjölga verður læknum og ráða heimilislækna á heilsugæslustöðina og fjölga hjúkrunarfræðingum. Bæta verður viðveru lækna og móttöku þeirra á sjúklingum að degi til.

Auka verður þjónustuna frá því sem nú er við íbúa í Suðurnesjabæ og Vogum með viðveru heimilislækna og hjúkrunarfræðinga í heimabyggð. Íbúum fjölgar mikið á Suðurnesjum og því eðlilegt að auka þjónustuna enda var í upphafi gert ráð fyrir að þjónusta heilsugæslu væri skipulögð víðar en í Reykjanesbæ.

Heimamenn þurfa beinan aðgang að HSS

Nýframlögð fjárlög fyrir árið 2020 gera ekki ráð fyrir auknu fjármagni til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja nema síður sé. Enn eitt árið jafnast fjárframlög ríkisins til heilbrigðismála á Suðurnesjum ekki á við framlög ríkisins til annarra heilbrigðisumdæma. Enn og aftur erum við sniðgengin hér á Suðurnesjum. Enn er vitlaust gefið.

Nú þurfum við Suðurnesjamenn að spyrja okkur hvort við ætlum að sætta okkur við að stjórnvöld leggi niður heilbrigðisþjónustuna á Suðurnesjum eins og hún var skipulögð í samræmi við lög og byggð upp af elju okkar og samtakamætti.

Er ekki komið að því að sveitarfélögin, kjörnir fulltrúar okkar í heimabyggð sem vita hvar skórinn kreppir og hvar þarf helst að bregðast við, fái aftur beinan aðgang að málefnum sjúkrahússins okkar?

Sagan sýnir að með framsýni og samtakamætti hefur okkur Suðurnesjamönnum tekist að skapa okkur umhverfi sem gerði líf okkar betra.

Virkjum þann samtakamátt til þess að bjarga Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Höfundur er formaður Öldungaráðs Suðurnesja.