Rannsóknarnefnd samgönguslysa, sjóslysasvið, hefur beint nokkrum tillögum til Samgöngustofu til að auka öryggi um borð í skipum.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa, sjóslysasvið, hefur beint nokkrum tillögum til Samgöngustofu til að auka öryggi um borð í skipum. Tillögur þessar varða áhættumat og segir í nýlegu áliti nefndarinnar að útgerðir og áhafnir virðist almennt ekki framkvæma áhættumat um borð í skipum sínum þrátt fyrir ítrekaða hvatningu þar að lútandi, auk þess sem ekkert sérstakt eftirlit sé með slíku.

Meðal annars er lagt til að gert verði sérstakt kynningarátak fyrir útgerðir um gerð og framkvæmd áhættumats samkvæmt reglugerð, að skoðunarstofur verði upplýstar um ákvæði reglugerðar og að fært verði inn í skoðunarskýrslur upplýsingar um úttektir á framkvæmd áhættumats við árlegar skoðanir á skipum.

Breytt verklag og stillingar

Tilefni þessara tillagna er slys sem varð um borð í frystitogaranum Sólbergi ÓF 1 í apríl síðastliðnum. Skipverjar voru að hífa trollið inn eftir að lás hafði brotnað í toghlera þegar einn þeirra fékk 12 kílóa gilskrók í höfuðið úr 5-6 metra hæð. Skipverjinn var með lokaðan öryggishjálm, sem brotnaði ekki en rispaðist. Skipverjinn fékk heilahristing og slasaðist á hálsi auk slits og/eða samfalls á hálsliðum, segir í skýrslu rannsóknarnefndar frá 1. nóvember.

Það er álit nefndarinnar að orsök slyssins hafi verið að búnaðurinn var ekki rétt stilltur og því hættulegur. Eftir slysið var stillingum breytt og einnig var tekið upp annað vinnufyrirkomulag . aij@mbl.is