Gangagerð Marti kom að gerð Vaðlaheiðarganga í gegnum Ósafl sf.
Gangagerð Marti kom að gerð Vaðlaheiðarganga í gegnum Ósafl sf. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Marti í Noregi, sem er í eigu svissneska félagsins Marti Holding AG, hefur stefnt norsku vegagerðinni vegna þess að kostnaður við byggingu Nordnesjarðganganna í Norður-Noregi fór langt fram úr áætlun.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Marti í Noregi, sem er í eigu svissneska félagsins Marti Holding AG, hefur stefnt norsku vegagerðinni vegna þess að kostnaður við byggingu Nordnesjarðganganna í Norður-Noregi fór langt fram úr áætlun.

Marti Holding AG á um 80 fyrirtæki víða um heim sem öll eru rekin sem sjálfstæðar einingar. Þeirra á meðal er ÍAV á Íslandi. Nefna má að Marti og ÍAV stóðu að Ósafli sf. sem gerði Vaðlaheiðargöng.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tók ÍAV þátt í norska jarðgangaverkefninu í byrjun framkvæmda en dró sig síðan alfarið út úr því. ÍAV á því ekki aðild að málaferlunum. Nokkrir Íslendingar vinna hjá Marti í Noregi og tóku sumir þeirra þátt í gangagerðinni.

Krefst hárrar viðbótargreiðslu

Marti í Noregi var aðalverktakinn við gerð jarðganganna sem eru 5,8 km löng. Þau komu í stað eldra vegstæðis E6-þjóðvegarins um Nordnes við Kåfjord í N-Noregi þar sem er mikil skriðuhætta. Göngin voru tekin í notkun 10. nóvember 2018 og styttu leiðina um átta kílómetra. Framkvæmdinni lauk tíu mánuðum á eftir áætlun, að sögn fréttavefjarins Framtid i Nord. Tilboðið í verkið hljóðaði upp á nærri 600 milljónir NOK (8,2 milljarða ÍSK) en Marti krefst viðbótargreiðslu upp á 333 milljónir NOK (4,5 milljarða ÍSK).

Krafa Marti byggist m.a. á mikilli kostnaðaraukningu verktakans sem rakin er til tafa á framkvæmdinni. Fréttavefurinn Nord24.no hefur eftir lögmanni Marti að samskipti við norsku vegagerðina hafi verið mjög erfið. Lögmaðurinn telur að útboðið hafi verið byggt á röngum forsendum. Norska vegagerðin hafi gengið út frá því að unnið yrði við jarðgangagerðina allan sólarhringinn en svo hafi norska vinnueftirlitið bannað næturvinnu í göngunum. Marti telur að norska vegagerðin verði að axla ábyrgð á því.

Margir verktakar höfða mál

Heimildir Morgunblaðsins herma að vinnuumhverfið í Noregi sé á margan hátt flóknara en við eigum að venjast. Hluti krafnanna stafi af því að atriði sem vafi lék á um hafi verið túlkuð verktakanum í óhag.

Á heimasíðu norska byggingariðnaðarins (bygg.no) má sjá að fjöldi norskra verktaka hefur farið í mál við norsku vegagerðina og krafist aukagreiðslna fyrir verk sem fóru fram úr áætlunum af ástæðum sem verkkaupa var kennt um. Þannig krafðist verktakafyrirtækið NCC t.d. aukagreiðslu upp á 800 milljónir NOK (10,9 milljarða ÍSK) vegna tiltekins verkefnis.