Sigurður Magnús Sigurðsson fæddist 3. september 1957 á Sólvangi í Hafnarfirði. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 25. október 2019.

Foreldrar hans voru Sigurður Magnús Pétursson, f. 15. febrúar 1923, d. 2. september 1961, og Ragnhildur Þórunn Óskarsdóttir, f. 24. febrúar 1926, d. 27. mars 2016.

Systkini: Aðalheiður Fanney, f. 1944, maki Garðar Svavarsson; Óskar Þór, f. 1948, maki Guðrún Guðmundsdóttir; Rúnar, f. 1955, í sambúð með Kolbrúnu Hrund Víðisdóttur; Snorri, f. 1964, hálfbróðir sammæðra, maki Anna Berit Petersen.

Fyrri kona Sigurðar var Sigrún Hauksdóttir, f. 1955, þau skildu. Þeirra sonur er Gilbert Grétar, f. 1981, og á hann tvö börn, Alexander Aron og Clöru Rós. Seinni kona Sigurðar er Birna Barkardóttir, f. 1960, hennar börn eru: 1) Fannar Már, maki Guðrún Guðmundsdóttir, þau eiga þrjú börn, Axel Þór, Huldu Rún og Ingibjörgu Leu. 2) Kristín Ösp, sambýlismaður Daníel Baldursson, börn þeirra eru Birna, Eydís Ósk og Kristófer Ingi.

Sigurður lærði húsgagnasmíði og starfaði við það um tíma. Síðar lærði hann til þjóns og starfaði við það á ýmsum stöðum, þar á meðal Hótel Valhöll á Þingvöllum og veitingastaðnum í Glæsibæ, auk þess sem hann rak ásamt öðrum veitingastað í Kiwanishúsinu.

Seinna keypti hann og rak efnalaugina Glæsi í Hafnarfirði, nokkrum árum síðar stofnaði hann veitingastaðinn „Í mat“ og rak hann til síðasta dags.

Útför Sigurðar verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. nóvember 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Stöðvið klukkur, takið síma í sundur,

sækið bein svo hætti gelti hundur,

lokið flygli, lágan trumbuslátt

látið fylgja kistu um kirkjugátt.

Látið flugvél hnita hringinn sinn,

Hann Er Dáinn skrifa í himinninn,

skreytið dúfur borgar sorgarböndum,

beri lögregla svarta hanska á höndum.

Hann var mér Norður, Suður, Austur, Vestur,

hann var mér hvunndagslíf og helgargestur,

dagur, miðnótt, orð mín öll og list;

og eilíf ást, ég hélt; mér skjátlaðist.

Nú þurfum við ekki stjörnur, hendið þeim;

afþakkið tungl og sendið sólu heim;

eyðið öllum skógi, tæmið haf.

Því ekkert gott mun gerast héðan af.

(W.H. Auden)

Þín eiginkona,

Birna.

Elsku pabbi minn, ég trúi því ekki að ég sitji og skrifi minningargrein um þig.

Þú varst tekinn allt of snemma frá okkur.

Mér finnst þetta allt svo skrítið, þú varst hjá okkur í mat að fagna afmæli Kristófers á fimmtudegi og svo á föstudeginum hringdi ég í mömmu til að athuga hvort þú hefðir farið í vinnuna og hvernig þú hefðir það, en þá varstu í sjúkrabíl á leiðinni upp á spítala mjög veikur. Og viku seinna varstu farinn frá okkur.

Ég minnist þess þegar ég var lítil stelpa að þú og mamma voruð að byrja að vera saman og þú tókst mér strax sem þinni eigin dóttur og hef ég verið litla stelpan hans pabba síðan þá.

Ég gat alltaf leitað til þín sama hversu stórt eða lítið vandamálið var, alltaf varstu tilbúinn að hjálpa mér.

Þú vildir alltaf hafa okkur með þér og mömmu á öllum hátíðum, og gamlárskvöld var alltaf þitt uppáhaldskvöld þar sem við öll fjölskyldan komum saman. Þá varst þú búinn að kaupa heilan sendiferðabíl af sprengjum svo allir fengju nóg til að sprengja upp fyrir þig og njóta og hafa gaman. Enda varstu mjög glaður þegar þú komst að því að ég væri búin að næla mér í mann sem er jafn sprengjuóður og þú.

Ég á eftir að sakna þess svo þegar þú straukst mér um kinn og kallaðir mig litlu prinsessuna hans pabba síns.

Þú skilur eftir stórt skarð í hjarta mínu. Þú varst kletturinn í lífi mínu.

Ég minnist allra góðu stundanna sem við áttum saman með hlýju í hjarta. Og ég mun passa upp á að þú gleymist aldrei.

Þú einfaldlega varst sá besti í öllum heiminum, elsku pabbi minn.

Ég veit ekki hvað ég er oft búin að taka upp símann og ætla að hringja í þig og heyra í þér hljóðið eða kíkja á þig í vinnuna þegar ég svo fatta að þú ert ekki hér.

Við heyrðumst nefnilega í síma nánast daglega eða hittumst.

Bara ef ég fengi að knúsa þig einu sinni enn.

Við áttum eftir að fá að upplifa svo margt saman eins og t.d. utanlandsferðina sem við vorum að byrja að plana þar sem við vildum að öll fjölskyldan færi saman í á næsta ári.

Ég veit að þú munt fylgjast með okkur öllum og vernda um ókomna tíð, elsku pabbi minn.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Þín dóttir

Kristín Ösp Sigurðardóttir.

Elsku afi okkar, mikið ofboðslega finnst okkur sárt að þú sért farinn frá okkur, við minnumst allra skemmtilegu og góðu stundanna sem við áttum með þér með hlýju í hjarta.

Við gátum alltaf leitað til þín sama hvað það var, og alltaf varst þú tilbúinn með opinn faðminn og allur af vilja gerður til að hjálpa okkur.

Það var svo gaman að fara með þér og ömmu í allar útilegurnar,

og munum við sakna þín mjög mikið.

Við lofum að passa vel upp á ömmu fyrir þig.

Við elskum þig, afi okkar.

Nú farinn ertu mér frá

Hvað geri ég þá?

Þig hafa ég vil

og segja mér til.

Nú verð ég að kveðja

fæ ekkert um það að velja.

Þú kvaddir mig með hlátri

það er ekki skrítið að ég gráti.

Í hjarta mér þú verður,

þaðan aldrei hverfur.

Ég minninguna þína geymi

en aldrei gleymi.

Elsku hjartans afi minn,

nú friðinn ég finn,

þá kveð ég þig um sinn

og kyssi þína kinn.

(Ágústa Kristín Jónsdóttir)

Þín barnabörn.

Birna, Eydís og Kristófer.

Elsku bróðir og vinur okkar hann Sigurður hefur kvatt þessa jarðvist allt of fljótt, baráttan við óvininn var allt of stutt, mun styttri en hann og okkur öll óraði fyrir. Það hvarflaði ekki að okkur þegar við fórum í löngu fyrirhugað leyfi erlendis að þá hefðum við kvatt Sigga hinsta sinni.

Það er margra ánægju- og samverustunda að minnast með Sigga, allt frá þeim tíma sem við áttum í barnæsku, seinna um stund á Súgandafirði og síðar á heimaslóðum í Hafnarfirði.

Það varð Sigga mikið gæfuspor að kynnast Birnu og hennar fjölskyldu sem hann unni svo mjög sem og Gilbert syni sínum. Sambúð þeirra bar merki um ást og umhyggju hvors annars og fjölskyldunnar. Ást og umhyggja sem berlega sást í baráttunni við óvininn, þar sem Binna vék ekki frá Sigga sínum allt til hinstu stundar.

Upp í hugann koma yndislegar minningar síðustu ára með þeim hjónum og útileguhópnum, flakkandi um landið með hjólhýsin, á hina ýmsu staði og sérstaklega á Apavatn, hans uppáhaldsstað. Síðasta ferðin okkar saman „einn hring“ um landið var skemmtileg þó ljóst væri að ekki var allt með felldu, sem síðar kom í ljós að var ekki að ástæðulausu.

Sigurður unni vinnu sinni í fyrirtæki sínu „Í mat“ af heilum hug og þótti skemmtileg. Þarna var vinsæll og góður hádegisverðarstaður þar sem hann átti fjölmarga vini, sem nutu góðs matar og samveru við hann og hver við annan.

Starfsfólkið var honum afar kært, honum þótti mjög vænt um orð einnar starfsstúlkunnar, sem sagði eftir að hann varð veikur, að góðir menn eins og hann yrðu ekki svona veikir í hennar heimalandi. Elsku Gilbert, Binna og fjölskylda, okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Óskar og Guðrún.

Það er mjög sárt að sjá á eftir manni eins og Sigurði yfir móðuna miklu. Sigurður, eða Siggi eins og hann var oftast nefndur, var einstakt ljúfmenni sem lét öllum líða vel í návist sinni. Ég kynntist Sigga í gegnum Binnu systur fyrir hartnær aldarfjórðungi. Þá voru hann og hún orðin par. Þau voru frá upphafi mjög samhent par og bjuggu börnum sínum og barnabörnum einstaklega ljúfa og örugga umgjörð. Það fór ekkert á milli mála hjá þeim sem vel þekktu til hve vænt Sigga þótti um Binnu og börnin þeirra öll og barnabörn. Siggi var mjög traustur og alltaf til staðar fyrir fjölskylduna, vini og aðra þegar leitað var til hans. Ég og mín fjölskylda gátum aldrei nógsamlega þakkað honum fyrir að taka að sér hundinn okkar, hann Geisla, sem okkur öllum þótti mjög vænt um. Þegar ljóst var að Geisli gat ekki lengur búið hjá okkur vegna þess að eitt barnanna okkar var með mikið ofnæmi fyrir hundum þá buðust Binna og Siggi til að taka Geisla í fóstur.

Geisli dvaldi hjá þeim í góðu yfirlæti í rúm tvö ár, alveg þangað til hann kvaddi þennan heim. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um góðvild og greiðasemi Sigga, ég gæti nefnt þau fleiri. Ég er þakklát forsjóninni fyrir að hafa kynnst Sigga og fengið að njóta skemmtilegra samvista við hann. Við fjölskyldan munum ávallt minnast hans með hlýju. Við sendum okkar hugheilustu samúðarkveðjur til Binnu, Gilberts, Fannars, Kristínar, til allra barnabarnanna og til systkina Sigga og annarra aðstandenda og vina. Megi góður Guð styrkja þau öll í sorg þeirra.

Rósa Björk Barkardóttir.

Elsku hjartans vinurinn minn alla tíð, nú ertu dáinn og farinn. Hvað getur maður sagt þegar einn af allra bestu vinum manns til áratuga er rifinn niður og tekinn frá manni á nokkrum vikum og maður gat ekkert gert, ekkert hjálpað. Þú stóðst þig eins og hetja í þessu ferli öllu, tókst þessu öllu af stakri yfirvegun og hélst um stýrið fram að hinstu stund.

Byrjaðir strax við greiningu að skipuleggja þína brottför með það að markmiði að einfalda alla hluti gagnvart þínum nánustu þegar kallið kæmi.

Í þessu snarpa veikindaferli hafðir þú ávallt mestar áhyggjur af framtíð fjölskyldu þinnar eftir þinn dag og varst ekkert að velta þér upp úr eigin örlögum.

Eitt af þínum beittustu vopnum var ávallt húmorinn og þú hélst honum til hinstu stundar. Hárbeitt tilsvör er eitt af því sem einkenndi þig, elsku vinur, og þeirra verður sárt saknað víða. Ég og fjölskylda mín verðum þér ævinlega þakklát fyrir vinskap okkar, elsku Siggi minn, og mikið á ég nú eftir að sakna þín, elsku vinur, enda vorum við í nánast daglegum samskiptum og á kafi hvor ofan í annars málum. Þótt við virðumst mjög ólíkir í fyrstu þá er það magnað hvað við vorum í raun líkir að mörgu leyti. Með sömu skoðanir á pólitík og þjóðmálum, sama tónlistarsmekk og sama smekk á mat. Á veitingastöðum á ferðum okkar í denn dugði í raun að annar okkar læsi matseðilinn. Aldrei hefur fallið skuggi á samskipti okkar og vinskap öll þessi ár. Hugurinn reikar til fyrri tíðar þegar þú komst með mér í ótal ferðir til Þýskalands og Tékklands og víðar. Allar þessar ógleymanlegu stundir, tveir kallar að þeysa um á hraðbrautunum og lenda svo í ýmsum ævintýrum með skrítnu fólki hér og þar í áningu. Einkenni góðrar vináttu okkar kom meðal annars fram í því að okkur leið líka vel saman í þögninni, gátum þagað saman án þess að það væri eitthvað vandræðalegt og það er ekki öllum gefið. Og sá eiginleiki okkar nýttist vel á lokasprettinum í veikindum þínum. Þú hafðir sérstakt lag á að láta fólki líka vel við þig.

Margir erlendra vina minna sem kynntust þér urðu strax að vinum þínum líka og eru þeir harmi slegnir í dag. Hugurinn reikar líka til þeirra ótal margra gleðistunda sem við áttum saman með konum okkar, sumarbústaðaferðir, matarboð og utanlandsferðir.

Allt yndislegar minningar, fullar af gleði. Vikuna áður en þú féllst frá vorum við að skipuleggja hjónaferð til Rómar - en svo kom kröftugt bakslag.

Veistu ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Úr Hávamálum)

Á mínu heimili varstu aldrei gestur, varst ávallt mikill vinur og félagi sona minna og ekki sakaði að konur okkar eru bestu vinkonur til áratuga. Þú verður alltaf einn af fjölskyldunni minni. Þú skilur eftir þig stórt skarð hjá mér og fjölskyldu minni, elsku vinurinn minn.

En þetta er okkar skarð og okkur þykir vænt um þetta skarð. Þetta skarð er fullt af yndislegum minningum og gleði og við eigum eftir að heimsækja þetta skarð reglulega um ókomna tíð.

Góða ferð, elsku vinur.

Garðar, Gestrún og synir.

Við hjónin fluttum í Hafnarfjörð, Kvíholtið, árið 2002. Reyndist það vera gæfuspor því hér eignuðumst við góða nágranna og vini.

Siggi og Binna urðu fljótt góðir vinir okkar. Við áttum okkur ekki á hvenær þessi góði vinskapur byrjaði. Það er eins og við höfum alltaf verið vinir.

Okkur er efst í huga þakklæti, þakklæti fyrir trausta og fölskvalausa vináttu.

„Alltaf kallaður Siggi sæti,“ sagði hann einu sinni og strauk vömbina.

Hann var húmoristi og það kunnum við að meta. Og jú hann var sætur.

Siggi var alltaf boðinn og búinn til aðstoðar og ráðleggingar.

Við leituðum oft ráða hjá Sigga um alls konar verkefni, hluti og hvað sem er. Hann virtist alltaf vita allt.

Ef hann kunni það ekki eða vissi þá sagðist hann þekkja einhvern og hann skyldi kanna málið.

Það klikkaði aldrei. Hann kom eða hringdi nokkrum dögum seinna með svörin.

Við höfum haldið skötuveislu á hverju ári síðan við fluttum í Kvíholtið.

Þetta byrjaði smátt en alltaf bættist við og á tímabili misstum við tökin á fjölda. Hjá okkur voru þegar mest lét um 60 manns. Siggi var einn þeirra sem voru hreinskilnir og sagði að við yrðum að passa okkur.

Veitingamaðurinn kom upp í honum og þar var hann á heimavelli. Hann ráðlagði okkur síðan með margt fyrir þessa veislu.

Við spurðum: Hvernig væri að bjóða bara upp á skötu? Minnka þannig vinnu og umfang og sleppa saltfiskinum? Þetta væri jú skötuveisla. Hann tók það ekki í mál.

Hann myndi bjóða upp á saltfiskinn. Og það varð úr. Siggi og Binna buðu upp á saltfiskinn í veislunni þar eftir.

Ekki nóg með það heldur reddaði hann einnig mörgu öðru. Skötuveislan í Kvíholtinu var ekki lengur okkar heldur margra annarra góðra vina og ættingja sem lögðu til.

Hann sýndi okkur stuðning þegar Guðný greindist með krabbamein og fylgdist alltaf með öllu sem hún gekk í gegnum. Hann hafði ósvikinn áhuga á okkar velferð.

Magnús Sigfússon, nágranni okkar og vinur í Kvíholtinu, lést í ágúst siðastliðnum, um svipað leyti og Siggi greindist með krabbamein.

Umhyggja til nágranna síns kom sterkt fram. Hann spurði, vildi fá að fylgjast með. Umhyggja Sigga og Binnu kom ekki á óvart.

Okkur þykir vænt um hvað við öll hugsum vel til nágranna okkar hér.

Það sama má segja um marga sem búa við þessa góðu götu.

Við áttum notalega stund með honum og Binnu áður en hann kvaddi og var það í síðasta skipti sem við áttum með honum stund. Það er sárt að upplifa hversu stuttan tíma þetta tók. Við áttum í sannleika sagt von á aðeins lengri tíma.

Við eigum góðar og fallegar minningar sem við munum hér eftir deila með hverjum sem heyra vill.

Bros, hlátur og stöku tár hafa síðustu daga læðst fram þegar upp skjótast minningar. Sigga verður minnst með gleði og þakklæti.

Við kveðjum vin okkar og nágranna með þekktum línum úr laginu We'll meet again. Það er trú okkar að við hittum fólkið okkar aftur. Hvar það verður kemur í ljós.

Minning um yndislegan vin og nágranna lifir.

Fjölskyldu og vinum Sigga sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðný og Jón.