Formlegt Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra afhendir Haraldi Noregskonungi trúnaðarbréf. Í Ósló eru 36 ríki með fyrirsvar sitt gagnvart Íslandi. Fulltrúar þeirra reka því mörg mál gagnvart Íslandi í gegnum sendiráðið í Noregi.
Formlegt Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra afhendir Haraldi Noregskonungi trúnaðarbréf. Í Ósló eru 36 ríki með fyrirsvar sitt gagnvart Íslandi. Fulltrúar þeirra reka því mörg mál gagnvart Íslandi í gegnum sendiráðið í Noregi. — Ljósm/Scanpix
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Þessir fyrstu mánuðir mínir hér í Noregi hafa verið viðburðaríkir og skemmtilegir. Sjálf setti ég strax kraft í að læra norskuna og hefur gengið vel. Norska og íslenska eru mál af sama uppruna og svo eigum við Íslendingar líka margt sameiginlegt með Norðmönnum. Menningarlegar rætur eru kjölfestan í nánum samskiptum Íslands og Noregs – auk þess sem ríkin eru bæði utan ESB, en innan EFTA, EES og NATO,“ segir Ingibjörg Davíðsdóttir, nýr sendiherra Íslands í Ósló. Hún kom til starfa ytra nú síðsumars og afhenti Haraldi Noregskonungi trúnaðarbréf sitt í ágústlok.

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þessir fyrstu mánuðir mínir hér í Noregi hafa verið viðburðaríkir og skemmtilegir. Sjálf setti ég strax kraft í að læra norskuna og hefur gengið vel. Norska og íslenska eru mál af sama uppruna og svo eigum við Íslendingar líka margt sameiginlegt með Norðmönnum. Menningarlegar rætur eru kjölfestan í nánum samskiptum Íslands og Noregs – auk þess sem ríkin eru bæði utan ESB, en innan EFTA, EES og NATO,“ segir Ingibjörg Davíðsdóttir, nýr sendiherra Íslands í Ósló. Hún kom til starfa ytra nú síðsumars og afhenti Haraldi Noregskonungi trúnaðarbréf sitt í ágústlok.

Ingibjörg á að baki tuttugu ára feril í utanríkisþjónustunni; bæði í ráðuneytinu heima og í fastanefnd Íslands í Genf (2000-2005), við sendiráð og fastanefnd Íslands í Vínarborg (2010-2014) og við sendiráð Íslands í Lundúnum (2014-2015). Þá var Ingibjörg um þriggja ára skeið (2015-2018) ráðgjafi fjögurra forsætisráðherra í utanríkismálum, málflokki sem hún gjörþekkir. Í sendiherrakapli sem lagður var á síðasta ári skipuðust mál á þann veg að Ingibjörg tæki við sem sendiherra Íslands í Ósló, en nú háttar svo til að konur eru orðnar í meirihluta sendiherra í á tvíhliða sendiráðum Íslands. Það eitt og sér eru talsverð tímamót.

Íslendingum vegnar vel í Noregi

Pólitísk samskipti, viðskiptaþjónusta og menningarstarf eru stór þáttur í starfi sendiráða Íslands erlendis og svo borgaraþjónusta, sem er aðstoð við Íslendinga í viðkomandi landi. „Íslendingar sem koma til Noregs eru yfirleitt eftirsóttir í vinnu, enda harðduglegt fólk og vegnar vel hér í landi. Lengi voru á bilinu 3.000-4.000 Íslendingar búsettir í Noregi; en í erfiðu efnahagsástandi heima eftir hrun má segja að hafi orðið algjör sprenging,“ segir Ingibjörg og heldur áfram:

„Eftir hrun fór fjöldi Íslendinga búsettra í Noregi yfir 10.000 en nú telst okkur til að þeir séu um 9.500. Margir sem hingað komu fyrst eftir hrunið hafa því fest hér rætur. Um þriðjungur er búsettur hér á Óslóarsvæðinu, ámóta margir á Vesturlandinu, svo sem í Bergen og Stavanger, og síðasti þriðjungurinn víða um landið.

Liðsinna og aðstoða

Ingibjörg segir algengt að Íslendingar í Noregi leiti til sendiráðsins um alls kyns aðstoð og leiðsögn um réttindi og skyldur og almenna þjónustu í Noregi og eins þegar þurfi vegabréf. „Síðan er talsvert um að fólk sem er í fjarnámi við skóla heima komi hingað og taki hér prófin, sem kennarar viðkomandi hafa sent okkur áður. Vinnureglan hjá okkur er í reynd einföld, sú að við gerum allt sem í okkar valdi stendur, innan þess ramma sem okkur er settur, að liðsinna og aðstoða Íslendinga. Borgaraþjónustan er þannig alltaf í forgangi í störfum sendiráða Íslands,“ segir sendiherrann.

Hvað viðskiptaþáttinn varðar eru árleg vöru- og þjónustuviðskipti Íslands og Noregs um 165 milljarðar íslenskra króna. Innflutningur frá Noregi til Íslands er mest eldsneyti og raftæki en í hina áttina er útflutningurinn einkum og helst sjávarafurðir og tæknibúnaður. Þegar allt er saman lagt, það er inn- og útflutningur og þjónusta, er Noregur fimmta stærsta viðskiptaland Íslands. Þá sækja um 40 þúsund Norðmenn Ísland heim á hverju ári.

Menningarsamskipti hvers konar eru mikilvægur þáttur í starfi sendiráðsins sem er bakhjarl almennings, fræðimanna og annarra sem sinna bókmenntaarfinum. Á dögunum var í Ósló haldin í samstarfi norrænu sendiráðanna kvikmyndahelgi þar sem sýndar voru myndir frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noreg og Íslandi. Framlag Íslands til þessa menningarviðburðar var myndin Hvítur, hvítur dagur og að heiman kom Ingvar E. Sigurðsson, aðalleikari myndarinnar, og ræddi í kjölfar sýningar myndarinnar við gesti um kvikmyndina, leiklistina og lífið. Innan tíðar verður í tengslum við Dag íslenskrar tungu haldin samkoma í embættisbústað sendiherrans þar sem Áslaug Jónsdóttir rithöfundur kemur við sögu.

Þrjú til fjögur ár á pósti

Íslenska sendiráðið í Ósló er í miðborginni; á Stórþingsgötu númer 30 skammt frá þinghúsinu, utanríkisráðuneytinu og konungshöllinni – ásamt því að vera í nálægð við almenningssamgöngur. Sendiráðið er um þessar mundir skipað fjórum starfsmönnum – einum útsendum starfsmanni sem er sendiherrann og svo þremur staðarráðnum. Þeir eru menningarfulltrúi, sem er staðgengill sendiherra, viðskiptafulltrúi og fulltrúi sem sinnir meðal annars borgaraþjónustu. Það að vera staðarráðinn er að eiga sína föstu búsettu í landinu og vera ekki flutningsskyldur. Það eru sendiherrarnir hins vegar, sem gjarnan sitja þrjú til fjögur ár á hverjum pósti.

Í Ósló eru 36 ríki með fyrirsvar gagnvart Íslandi. Fulltrúar þessara ríkja reka því mörg sín mál gagnvart Íslandi í gegnum sendiráð Íslands í Ósló. Af þessum 36 eru 13 aðildarríki ESB. Ósló er þannig bæði tvíhliða og fjölþjóðleg sendiskrifstofa. Þá eru Egyptaland, Grikkland, Íran og Pakistan í umdæmi sendiráðsins Ósló, og er áætlað að Ingibjörg fari á næstu misserum til þessara ríkja og afhendi þar trúnaðarbréf sín.

Borgfirðingur eins og ég!

„Efling og vernd mannréttinda hafa verið mér hugleikin og er ég svo heppin að hafa unnið að þessum málum nánast allan minn feril í utanríkisþjónustunni,“ segir Ingibjörg Davíðsdóttir. Hún frá Arnbjargarlæk í Þverárhlíð í Borgarfirði. Á unglingsárum var hún í skóla í Reykholti í Borgarfirði; en þar sat forðum Snorri Sturluson, sem meðal annars er höfundur Heimskringlu. Í því merka riti er saga Noregskonunga rakin og margir Norðmenn telja því að Snorri hafi verið norskur. Íslenskur var hann þó og er forfaðir Ingibjargar í 23. lið.

„Nei, það er alls engin áskorun að halda nafni Snorra á lofti sem Íslendings. Þótt skiljanlegt sé að aðrir vilji eigna sér hann, enda líklega nafnkunnastur Íslendinga fyrr og síðar. Aðalatriðið er hins vegar að hann er Borgfirðingur eins og ég,“ segir Ingibjörg.