Kalle Dramstad
Kalle Dramstad
Eftir Kalle Dramstad: "Umræða á Íslandi um að nýjar reglur ESB séu ógn við einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis er byggð á misskilningi og getur grafið undan góðum árangri íslenskra heilbrigðisyfirvalda."

„Áfengir drykkir verða seldir á netinu“ er fyrirsögn íslenskrar greinar sem nýverið vakti athygli í Brussel hjá hópum sem láta sig heilbrigðismál varða. Í greininni er rætt um að íslensk stjórnvöld hugleiði nú lagafrumvarp sem myndi aflétta einkaleyfissölu ÁTVR með því að heimila sölu áfengis á vegum einkaaðila á netinu. Því er haldið fram að tilskipun ESB um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð skyldi menn til þessa. Þeir sem vinna alla daga við mótun áfengisstefnu ESB segja að svo virðist sem umræðan á Íslandi beri keim af alvarlegum misskilningi á nýju ESB-reglunum.

Lýðheilsumiðuð áfengiseinkaleyfissala er fyllilega lögleg samkvæmt reglum ESB. Þetta var staðfest af Evrópudómstólnum fyrir meira en tuttugu árum og til staðar eru fjölmargar áfengiseinkaleyfissölur sem starfa áfram innan ESB og landa Evrópska efnahagssvæðisins: Svíþjóð, Finnland, Noregur og Ísland eru skýr dæmi þar um.

Ekki aðeins eru einkaleyfissölurnar löglegar, heldur einnig viðurkenndar af World Health Organisation, WHO, sem ein skilvirkasta leiðin til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Nýlegar rannsóknir frá Finnlandi sýna að þar í landi myndu yfir 500 fleiri einstaklingar láta lífið árlega af völdum áfengisneyslu ef sala áfengis væri alfarið einkavædd. Kerfisbundin rýni á gögnum sem safnað var af US Centre for Disease Control‘s Preventive Services Task Force sýndi einnig fram á tengsl einkavæðingar áfengissölu við verulega aukningu á áfengisneyslu. Stofnunin mælir því eindregið gegn því.

Sönnunargögnin liggja því fyrir; þegar markaðsöflunum er hleypt inn á áfengissölumarkaðinn lækkar verð og neysla eykst, en einnig verður mun erfiðara að tryggja að farið sé eftir þeim reglum sem leyfisveitingin er háð. Sænska áfengiseinkasalan Systembolaget er með yfir 95% skor í aldurseftirliti sínu. Þessi góði árangur hefur hvergi náðst meðal einkasöluaðila í löndum þar sem smásala áfengis hefur verið einkavædd.

Talsmenn þeirrar hugmyndar að einkavæða netsölu áfengis á Íslandi virðast telja að gerð sé krafa um þetta í hinni nýju tilskipun ESB um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð. Sem betur fer er auðvelt að sannreyna að þetta er ekki tilfellið.

Það nægir að líta til allra þeirra ESB-ríkja sem innleiddu tilskipunina um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð á árinu 2018 og sem enn reka traustar áfengiseinkasölur. Hæstiréttur Finnlands staðfesti bann við netsölu áfengis (þ. á m. frá öðrum ESB-ríkjum) eftir að hafa fengið stuðningsúrskurð frá Evrópudómstólnum.

Ef fólk er enn í vafa um hvernig túlka beri tilskipunina um frjálsa netumferð í samhengi við áfengiseinkasöluna myndi ég ráðleggja því að hafa samband við félagsmálaráðuneytin í Finnlandi eða Svíþjóð og fá aðstoð þar. Þá eru einnig fjölmörg frjáls félagasamtök í Brussel sem myndu með ánægju veita aðstoð og upplýsingar ef þörf krefur.

Það vekur alltaf áhyggjur þegar maður heyrir um tilvik þar sem vitnað er í ESB-reglur sem réttlætingu fyrir því að afnema skilvirka, opinbera stefnu í heilbrigðismálum. Alla jafna byggir þetta á lagalegum misskilningi, en slíkan misskilning geta þeir aðilar nýtt sér sem hagnast myndu verulega af völdum aukinnar áfengisneyslu. Þess vegna er mikilvægt að umræða um áfengisstefnu taki mið af staðreyndum og sönnunargögnum, bæði þegar kemur að lagalegum álitaefnum og áhrifum á lýðheilsu.

Höfundur er yfirmaður European Policy, sem starfar að stefnumótun ESB og stefnu í áfengismálum í Brussel fyrir frjálsu, sænsku félagasamtökin IOGT-NTO.