Klambratún Unnið er af fullum krafti við lokafrágang hins nýja torgs sunnan við Kjarvalsstaði. Nýja torgið verður í góðu skjóli fyrir norðanáttinni.
Klambratún Unnið er af fullum krafti við lokafrágang hins nýja torgs sunnan við Kjarvalsstaði. Nýja torgið verður í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Undanfarin ár hafa verið miklar framkvæmdir á Klambratúni. Markmiðið með þeim er að gera þetta vinsæla útivistarsvæði í borginni enn vinsælla og meira aðlaðandi.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Undanfarin ár hafa verið miklar framkvæmdir á Klambratúni. Markmiðið með þeim er að gera þetta vinsæla útivistarsvæði í borginni enn vinsælla og meira aðlaðandi.

Nú er unnið að lokafrágangi sunnan við nýtt torg við Kjarvalsstaði. Fyrsti áfangi verksins verður unninn á haustmánuðum 2019 og sá síðari á vormánuðum 2020.

Fyrri áfangi verksins felst í landmótun sunnan við torgið og svæðið þökulagt. Í síðari áfanga verður stígur lagður frá torginu að malbikuðum stíg ásamt því að gengið verður frá austurhluta dvalarsvæðis. Landslag ehf. hannaði útlit svæðisins og Garðsmíði ehf. vinnur verkið. Það átti lægsta tilboðið, 24 milljónir króna.

Torgið klárað í fyrrasumar

Í ágúst í fyrra lauk framkvæmdum við torgið sjálft. Verkið fól í sér að gera hellulagt torg sunnan við Kjarvalsstaði með setpöllum og tröppum. Þarna hefur verið útbúið skjólgott rými til dvalar og leikja.

Hönnun var í höndum Landslaga ehf., Liska ehf. og HNIT verkfræðistofu. Verktaki var NKEA slf. – Grafa og grjót ehf. – Sölvi Steinarr slf. Kostnaður við verkið var tæpar 70 milljónir króna.

Lýsing á Klambratúni hefur verið stórbætt frá því sem áður var. Ljósastaurum var fjölgað um helming og nýir lampar settir á alla staurana. Lýsing við stíga var endurnýjuð (led-lýsing), litalýsing sett upp við stíg á horni Lönguhlíðar og Miklabrautar og listaverk lýst upp. Framkvæmdum við lýsinguna lauk í september 2017.

Klambratún er með stærri almenningsgörðum í Reykjavík og setur mikinn svip á Hlíðahverfið. Klambratún, sem hefur einnig borið heitið Miklatún, afmarkast af Hringbraut, Rauðarárstíg, Flókagötu og Lönguhlíð en svæðið er nefnt eftir býlinu Klömbrum.

Klambratún er einn stærsti almenningsgarðurinn sem var sérstaklega hannaður sem hluti af aðalskipulagi borgarinnar en hönnun hans hófst upp úr 1960. Framkvæmdir á Klambratúni hófust 1964 og var Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt aðalhönnuður garðsins.

Þetta kemur fram í samantekt á heimasíðunni www. reykjavik.is.

Klambratún er um 10 hektarar að stærð. Það skiptist í stórar grasflatir, trjálundi og leik- og íþróttasvæði. Á undanförnum árum hefur aðstaða til íþróttaiðkunar verið stórbætt og það hefur aukið aðsóknina að garðinum til muna.

Kjarvalsstaðir, sem hýsa sýningarsali Listasafns Reykjavíkur, eru við norðurenda Klambratúns. Þar er einnig vinsælt kaffihús. Hannes Kr. Davíðsson arkitekt teiknaði bygginguna.