— Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Systurstöð K100, Retró 89,5, sem alla jafna spilar það besta frá '70, '80 og '90, breytist í JólaRetró frá og með deginum í dag. „Bara bestu jólalögin“ verður einkennisorð stöðvarinnar.

„Jólin eru alltaf að færast framar og framar. Jólavörur og skraut er komið upp í sumum verslunum. Sömuleiðis er krafan um að jólalögin heyrist fyrr í útvarpinu alltaf meiri og meiri svo við erum bara að svara því kalli,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson, Siggi Gunnars, dagskrár- og tónlistarstjóri K100 og Retró 89.5.

Eins og einkunnarorðin segja til um verður boðið upp á „bara bestu jólalögin“ alla daga fram að jólum, allan sólarhringinn. „Dagskrárgerðarmenn verða einnig með léttar innkomur með fróðleik og upplýsingum um það sem er að gerast í aðdraganda jóla. En aðalfókusinn verður á jólalögin sem allir þekkja,“ segir Siggi.

Retró hefur aukið vinsældir sínar töluvert síðastliðið ár samkvæmt mælingum Gallup og er ljóst að vinsældirnar munu bara aukast í aðdraganda jóla. „Það eru að jafnaði 35.000 manns sem hlusta á Retró í hverri viku og fer hlustendahópurinn ört vaxandi, það er greinilegt að það er hljómgrunnur fyrir þessum gömlu góðu. Reynslan hefur líka kennt okkur að það er mikil eftirspurn eftir jólaútvarpsstöð svo við erum viss um að hlustendum muni fjölga töluvert í aðdraganda jóla,“ segir Siggi.

Hægt er að hlusta á JólaRetró á FM 89,5 á höfuðborgarsvæðinu, FM 101,9 á Akureyri, á netinu á retro895.is og í útvarpsspilara sjónvarpsþjónustanna. Einnig er hægt að hlusta á Retró í gegnum öppin „Spilarinn“ eða „TuneIn“ í öllum Apple- og Android-símum.

„Við vonum að hlustendur kunni að meta jólastemninguna á JólaRetró alla daga fram að jólum,“ segir Siggi, sem kominn er í jólaskapið umtalaða eftir undirbúning stöðvarinnar síðastliðnar vikur.