Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka meginvexti bankans um 0,25 prósentur og eru vextir á sjö daga bundnum innlánum því 3%. Er þetta í fimmta sinn á þessu ári sem nefndin tekur ákvörðun um að lækka stýrivexti.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka meginvexti bankans um 0,25 prósentur og eru vextir á sjö daga bundnum innlánum því 3%. Er þetta í fimmta sinn á þessu ári sem nefndin tekur ákvörðun um að lækka stýrivexti. Þannig reið hún á vaðið í maí og lækkaði þá um 0,5 prósentur en í júní, ágúst og október lækkuðu vextirnir í hvert sinn um 0,25 prósentur. Vextirnir hafa því lækkað um 1,5 prósentustig það sem af er ári. Peningastefnunefnd á eftir að koma saman einu sinni það sem eftir líður þessa árs og verður kynnt um niðurstöður þess fundar 11. desember.

Stýrivextir Seðlabankans hafa ekki verið lægri frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp.

Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi reynst meiri á fyrri hluta ársins en áður var gert ráð fyrir benda mælingar til að samdráttur ársins verði 0,2%. Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur á komandi ári verði nokkru lakari en áður var gert ráð fyrir, eða 1,6% samanborið við 1,9% skv. fyrri spá.

Segir nefndin að lækkun vaxta hafi að undanförnu stutt við eftirspurn.