Steinar Berg Ísleifsson
Steinar Berg Ísleifsson
Eftir Steinar Berg Ísleifsson: "Laxveiði á bökkum Grímsár í landi Fossatúns þjónar ekki framtíðaráformum okkar. Við viljum vernda laxastofninn til yndisauka en ekki sportveiða."

Við hjón í Fossatúni njótum þess vafasama heiðurs að löggjafinn setti sérstök lög til að leyfa veiðifélagi að halda áfram að skaða uppbyggingu og starfsemi okkar. Til þess að losna undan ákvæðum laganna sögðum við okkur úr veiðifélaginu. Úrsögninni var hafnað á forsendum skylduaðildar og því þurfum við nú að höfða mál til að öðlast frelsi frá félaginu.

Þegar við eignuðumst Fossatún urðum við skylduaðildarfélagar að Veiðifélagi Grímsár og Tunguár. Ábúðarfullur formaður ítrekaði rétt veiðifélagsins til athafna í landi okkar og friðhelgi veiðimanna. Þegar svo veiðifélagið fór að standa í samkeppni við okkur á þeim forsendum að það væri til hagsbóta fyrir aðra félagsmenn fannst okkur það skrýtið. Kynntum okkur lax- og silungsveiðilögin og þar blasti við að veiðifélaginu og veiðimönnum ber að taka tillit til hagsmuna allra aðildarfélaga og að almennur samkeppnisrekstur rúmast ekki innan hlutverks veiðifélaga. Blásið var á athugasemdir okkar og við tóku málaferli þar sem Hæstiréttur staðfesti sjónarmið okkar. Við héldum að þar með væri málinu lokið, en svo var aldeilis ekki!

Engin umræða átti sér stað um málalok Hæstaréttar innan veiðifélagsins, almennt eða við okkur. Hið eina sem við skynjuðum sterklega var félagsleg útilokun. Tveimur árum síðar fundum við út að félagið hafði beitt pólitískum klíkuskap til að breyta lögunum með það að markmiði að ógilda hæstaréttardóminn. Útilokun og óheiðarleiki staðfesti að við áttum ekki heima í veiðifélaginu.

Laxveiði á bökkum Grímsár í landi Fossatúns þjónar ekki framtíðaráformum okkar. Bakkasvæði Fossatúns er afar fallegt og náttúrufegurð þess nýtist best með frekari tengingu við vaxandi ferðaþjónustustarfsemi, t.d. góðu aðgengi og aðstöðu við árbakkann. Þessi framtíðaráform fara einfaldlega ekki saman við þær kröfur sem gerðar eru af veiðifélaginu fyrir veiðimenn um ótruflað aðgengi og viðveru. Auk þess stafar gestum slysahætta af flugukastinu. Þá teljum við að veiðimenn togandi og drepandi fisk með tilheyrandi fyrirferð og bílaumferð sé ekki sú upplifun sem gestir okkar eigi að „njóta“. Miklu frekar nánd og ótrufluð vera í náttúrunni og möguleiki á að sjá laxa stökkva. Vernda laxastofninn til yndisauka en ekki sportveiða. Í nýlegri umsögn gesta fékk Fossatún 10 í einkunn á Booking.com. Gestirnir gerðu samt athugasemd við óæskilega upplifun sína. Veiðimenn veittust að þeim og ráku ruddalega burtu frá árbakkanum. Við viljum að gestir okkar njóti náttúrufegurðar. Þess vegna viljum við ekki vera í veiðifélaginu.

Skylduaðild að veiðifélögum byggist á undantekningu frá félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þess vegna er starfsemi veiðifélaga markaður þröngur og skýr starfs- og lagarammi. Í breytingarlögunum sem Alþingi samþykkti eftir niðurstöðu Hæstaréttar í máli okkar er ramminn útvíkkaður og veiðifélög gerð að atvinnurekstrarfélögum sem mega taka þátt í almennum samkeppnisrekstri veitinga- og gistihúsa og ber að hámarka arðsemi aðildarfélaga. Við teljum að skylduþátttaka í atvinnurekstrarfélagi sem stundar ósanngjarnan samkeppnis- og áhætturekstur standist hvorki stjórnarskrána né fyrirliggjandi niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Slík þátttaka hljóti að vera valkvæð. Við veljum að vera ekki í veiðifélaginu.

Nú erum við sem sagt að hefja aðra yfirreið um íslenska réttarkerfið vegna máls sem Hæstiréttur dæmdi okkur í hag – tilneydd vegna ólaga Alþingis. Þegar við fluttum í Fossatún óskuðum við þess að eiga góða sambúð við granna okkar og samfélaga. Það fór á annan veg. Það átti að valta yfir okkur. Maður verður að standa með sjálfum sér.

Áður en til málarekstursins kom leituðum við ítrekað eftir því við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að fá fund með nefndinni til þess að fara yfir forsendur og ferlið en... Tveir kunningjar mínir sitja nú í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þeir Þorsteinn Sæmundsson og Guðmundur Andri Thorsson. Músíkalskir menn sem ég þekki að góðu. Ég bar mig upp við þá fyrir nokkru. Guðmundur Andri, nýkominn á þing, sagðist koma af fjöllum en ætla að skoða málið og vera í sambandi en... Minn gamli skólabróðir Þorsteinn Sæmundsson bauð mér að hitta sig í híbýlum Alþingis fyrir tveimur árum. Hann hét mér stuðningi við að finna út hvort hægt væri að endurupptaka sett lög ef t.d. ekki hefði verið kannað nægilega hvort þau stæðust stjórnarskrá. Ég reyndi síðan að ná tali og senda honum skilaboð í nokkra mánuði en...

Við hjón, sem erum ástæða og fórnarlömb laganna, teljum að Alþingi sé ekki stætt á því að sniðganga málefnalegar athugasemdir okkar.

Við fyrstu sýn kann fólk að halda að málið sé flókið og það þurfi að setja sig inn í nágrannaerjur. Svo er ekki. Hæstiréttur skilaði niðurstöðu í ágreiningi ábúenda Fossatúns og veiðifélagsins. Á www.sveitasaga.com eru raktar staðreyndir um ólíðandi vinnubrögð Alþingis og ráðuneytis við undirbúning og afgreiðslu laga. Ósannsögli, óupplýst ákvarðanataka, spilling og þjónkun við sérhagsmuni ráða ferðinni. Afleiðingin er ófagleg og illa ígrunduð lagasetning með slatta af sniðgöngu og ógegnsæi í eftirleik.

Höfundur er ferðaþjónustubóndi. steinar@fossatun.is

Höf.: Steinar Berg Ísleifsson