Sátt Að sögn rýnis birtast í Svínshöfði eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur þrjú gríðarlega ólík sjónarhorn á lífið og tilveruna.
Sátt Að sögn rýnis birtast í Svínshöfði eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur þrjú gríðarlega ólík sjónarhorn á lífið og tilveruna. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Benedikt bókaútgáfa, 2019. innbundin, 236 bls.

Þrjú gríðarlega ólík sjónarhorn á lífið og tilveruna birtast í Svínshöfði en þau mynda saman eina sterka heild, fulla af trega og hryggð. Sjónarhorn gamals utangarðsmanns sem kaupir sér kínverska konu á alnetinu, sjónarhorn ungrar óhamingjusamrar konu sem glímir við andleg veikindi og sjónarhorn kínversks drengs sem fylgir móður sinni til utangarðsmannsins. Sagan teygir sig frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar til nútímans.

Bókin kom mér í opna skjöldu, í raun meir og meir með hverri síðu sem ég svolgraði í mig. Ekkert í söguþræðinum getur talist fyrirsjáanlegt og því væri fráleitt að gera söguþræðinum betri skil hér og eyðileggja þar með fyrir framtíðarlesendum.

Ég leyfi mér að fullyrða að það sé ekkert í Svínshöfði sem gefur til kynna að um fyrstu skáldsögu höfundar sé að ræða. Frásagnarstíllinn er fullmótaður og ferst höfundi jafn vel úr hendi að skrifa út frá sjónarhóli eldri manns með visinn fót og sjónarhóli ungrar konu sem langar að flýja fjölskyldu sína. Persónurnar eiga það þó allar sameiginlegt að hafa takmarkaðan skilning á hamingjunni og tilheyra ekki samfélaginu sem þær búa í eða finnast þær ekki tengjast því.

Lýsingar höfundar á þessu, sem og öðru, hitta fullkomlega í mark. „Hann skar sig alla tíð úr, eins og flís sem sýkir holdið í kringum sig,“ segir til að mynda á síðu 21 í bókinni en þar er veruleika utangarðsmannsins lýst.

Listin að sýna í stað þess að segja er áberandi í Svínshöfði og hefur höfundur gott vald á þeim vandmeðfarna leik. Til dæmis það hvernig utangarðsmaðurinn kallar kínversku konuna og strákinn hennar gjarnan „þetta fólk“. Þannig birtist afstaða hans til fólks af asískum uppruna án þess að það sé beinlínis sagt við lesendur að í manninum blundi rasismi.

Bókin er einhvern veginn nóg. Hún skilur lesandann eftir örlítið hryggan en sáttan. Hann þarf ekki að vita meira en hefði ekki mátt vita minna.

Ragnhildur Þrastardóttir