Anna Kristjánsdóttir var fædd á Akureyri 16. október 1932. Hún lést 28. september 2019 á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði.

Nú kveðjum við Önnu frænku með miklum trega. Nú ertu komin í faðm Bjarna þíns sem þú hefur saknað mikið. Eins ertu búin að hitta pabba og Önnu Kristínu okkar.

Við vorum svo heppin að fá að alast upp með þig okkur við hlið, þú varst alltaf til staðar fyrir okkur enda varstu alltaf kölluð mamma tvö þar sem foreldrar okkar voru mikið á ferðalögum þegar við vorum yngri. Við systkinin eigum ótal margar góðar minningar frá sumarbústaðnum og ferðalögum með þér og Bjarna. Þegar við komum til þín varstu alltaf svo glöð og ánægð að sjá okkur, við þurftum aldrei að gera boð á undan okkur, þú sýndir okkur mikinn kærleik. Það voru aldrei nein boð í okkar fjölskyldum nema að Anna frænka væri til staðar, annað kom ekki til greina. Þú fylgdist með börnunum okkar og varst þeim alltaf svo góð. Eins voru Sirrý, Gummi og Kiddi miklir vinir þínir. Við munum öll geyma allar þær góðu og fallegu minningar um þig, elsku Anna frænka.

Hvíldu í friði, við elskum þig öll.

Drífa, Kristinn, Mjöll, Guðmundur, Kristján, Sirrý og börn.