[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ætla má að heildarrúmmál þeirra jarðefna sem fallið hafa úr Ketubjörgum á Skaga á síðastliðnum ellefu árum sé alls um 70 þúsund rúmmetrar. Þetta má sjá úr gögnum frá Loftmyndum ehf.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ætla má að heildarrúmmál þeirra jarðefna sem fallið hafa úr Ketubjörgum á Skaga á síðastliðnum ellefu árum sé alls um 70 þúsund rúmmetrar. Þetta má sjá úr gögnum frá Loftmyndum ehf. en elstu myndir fyrirtækisins af svæðinu við Ketubjörgum eru frá árinu 2008. Þegar þær og myndir frá 2017 eru bornar saman sést að 1.240 fermetrar eru horfnir. Því til viðbótar svo 170 fermetrar í fyllunni sem fór í sjóinn, að því er best er vitað síðastliðinn laugardag. Alls eru þetta 1.410 fermetrar.

Karl Arnar Arnarson hjá Loftmyndum áætlar að efni stapans sem fór í sjóinn um síðustu helgi sé þó aðeins 1/8 af rúmmáli þess efnis sem þarna hefur hrunið niður í fjöru á síðustu árum. „Ef myndir frá Ketubjörgum eru skoðaðar sér maður áhugaverða framvindu og að þar hefur landið breyst mikið á ekki löngum tíma. Vissulega eru 70 þúsund rúmmetrar mikið magn en svo má setja hlutina í annað samhengi,“ segir Karl Arnar og rifjar í þessu sambandi upp að mikil skriða féll í Öskju í Dyngjufjöllum sumarið 2014 Rúmmál þeirrar skriðu var af náttúrufræðingum metið vera rúmlega 30-50 milljónir tonna. Þá var ummál berghlaups sem kom úr Fagraskógarfjalli við bæinn Hítardal á Mýrum í júlí á síðasta ári talið vera 7,1-7,5 milljónir rúmmetra, skv. því sem starfsmönnum Loftmynda reiknaðist til út frá myndefni sem þeir öfluðu strax í kjölfar hamfaranna.