Boris Johnson talar með afgerandi hætti í upphafi kosingabaráttunnar

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sló tóninn fyrir kosningarnar í desember í grein í The Daily Telegraph í gær. Þar harmaði hann þær tafir sem orðið hafa á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit, og sagði að ef það tækist að ljúka Brexit myndu hundraða milljarða punda fjárfestingar streyma til landsins. Þá myndu fyrirtæki og fjölskyldur hafa vissu til að taka ákvarðanir sem myndu lyfta efnahagslífinu.

Einu leiðina til að ná Brexit fram segir hann vera að kjósa Íhaldsflokkinn; atkvæði greitt smáflokkum – og þar hefur hann eflaust sérstaklega hugann við Brexit-flokk Nigels Farage – sé í raun greitt Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins.

Óhætt er að segja að Johnson hafi ekki mikið álit á stefnu Corbyns. Hann vilji nýjar kosningar um Brexit með óljós markmið og enn frekari tafir í að minnsta kosti ár. Þá hafi hann horn í síðu efnamanna og þeirra framtakssömu einstaklinga sem haldi atvinnulífi og hagkerfi gangandi. Hatur Corbyns á auðmönnum sé raunar slíkt að ekki hafi sést síðan í herferð Stalíns gegn bændum sem voru landeigendur í Sovétríkjunum.

Þá sagði hann Corbyn hafa greitt atkvæði gegn skattalækkunum upp á jafnvirði 1.250.000 króna til þeirra sem hafi hófleg laun og hafi þegar lýst yfir áformum um að leggja skatt á fyrirtæki sem yrði einn hinn hæsti í Evrópu. Þessu eigi að fylgja gríðarleg þjóðnýting fyrirtækja sem hafi verið einkavædd.

Andstætt Corbyn vilji Íhaldsflokkurinn, sem fer fram undir slagorðinu Ein þjóð, styðja við verðmætasköpun framtakssamra einstaklinga, auk þess að setja meira fé í grunnstoðir á borð við skóla, lögreglu, heilbrigðiskerfi, vegi og háhraðanet inn á öll heimili.

En fyrst og fremst vilji ríkisstjórn Íhaldsflokksins virða lýðræðislegan vilja fólksins eftir þriggja og hálfs árs tafir. Brexit er það sem kosningarnar snúast fyrst og fremst um.

Einn helsti kosturinn við bresk stjórnmál – fyrir utan að þar koma oft fram litríkir einstaklingar sem hafa munninn fyrir neðan nefið – er að þar eru línur yfirleitt skýrari en víðast annars staðar. Og það er mikilvægt í stjórnmálum að línur séu skýrar og að kjósendur átti sig á hvaða kostir eru í boði, fyrir hvað hver flokkur stendur og hvar skilur á milli. Með þessu verða áhrif almennings meiri og áhrif ósýnilegra embættismanna – kerfisins eins og það er stundum kallað – minni. Með því eykst skilningur á lýðræðinu og áhuginn á lýðræðislegri þátttöku. Þetta eru grundvallaratriði sem stjórnmálamenn ættu að leggja sig fram um að verja og viðhalda.