Hjólað Rafmagnshjólin styðja notanda. Kraftur úr mótor bætist við þegar hjólað er með stigbúnaði á meðan hraði er ekki yfir 25 km á klukkustund.
Hjólað Rafmagnshjólin styðja notanda. Kraftur úr mótor bætist við þegar hjólað er með stigbúnaði á meðan hraði er ekki yfir 25 km á klukkustund. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Sala á rafmagnshjólum og reiðhjólum gæti tekið kipp eftir áramót, ef nýtt frumvarp verður að lögum um afnám virðisaukaskatts á farartækjunum.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Sala á rafmagnshjólum og reiðhjólum gæti tekið kipp eftir áramót, ef nýtt frumvarp verður að lögum um afnám virðisaukaskatts á farartækjunum. Þetta er mat framkvæmdastjóra hjólabúðarinnar TRI við Suðurlandsbraut, Róberts Grétars Péturssonar, sem er þegar byrjaður að búa sig undir mögulega söluaukningu.

Í lagafrumvarpinu er lögð til niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagnshjól sem kosta að hámarki 400 þúsund krónur og hefðbundin reiðhjól sem kosta að hámarki 100 þúsund. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi í byrjun næsta árs og gildi út 2023.

Jafngildir 20% afslætti

Róbert Grétar segir í samtali við Morgunblaðið að þessar ívilnanir komi til með að þýða afslátt upp á 20% miðað við núgildandi verð.

Eins og fram kemur í lagafrumvarpinu eru ívilnanirnar til þess fallnar að draga úr bílaumferð og fjölga í hópi þeirra sem ferðast með vistvænum hætti. „Þannig stuðla slíkar ívilnanir að umhverfisvænum samgöngum og eru til þess fallnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum.“

Þá er sagt að sérstök áhersla sé í frumvarpinu lögð á stuðning við rafmagnsreiðhjól þar sem rannsóknir hafi leitt í ljós að reiðhjól búin rafknúinni hjálparvél geti verið staðkvæmdarvara fyrir bifreiðir og leitt til þess að fólk velji slíkan samgöngumáta frekar en þær. Slík þróun sé til þess fallin að minna álag verði á samgöngumannvirki en ella.

Algengustu reiðhjólin sem knúin eru rafmagni eru þau, eins og fram kemur í rökstuðningi með frumvarpinu, sem styðja notanda með því að kraftur úr rafmagnsmótor bætist við þegar hjólað er með stigbúnaði á meðan hraði er ekki yfir 25 km á klst.

Róbert segir að lögin þýði það m.a. að hjól sem kostar 496 þúsund krónur fari niður í 400 þúsund með breytingunni, og yrði þá dýrasta rafmagnshjólið sem fengist skattfrjálst. „Ef þú kaupir hjól fyrir 700 þúsund færðu það skattfrjáls upp að 400 þúsundum en borgar skatt af því sem eftir stendur.“

Hefði viljað hærra hámark

Róbert segir að frumvarpið muni virka hvetjandi fyrir kaup á bæði rafmagns- og venjulegum reiðhjólum en segist hefðu viljað sjá hærri hámarksupphæð í reiðhjólunum. „Það má segja að á meðan rafmagnshjól er umhverfisvænna en bíll, þá er hefðbundið hjól enn umhverfisvænna en rafmagnshjól. Ég hefði viljað sjá sama hámark á báða flokkana, þ.e. 400 þúsund króna hámark á bæði rafhjól og reiðhjól.“

Róbert segir að mikið sé um að fólk selji annan bílinn og kaupi sér rafmagnshjól í staðinn. „Við heyrum af því nánast á hverjum degi,“ segir Róbert, en að hans sögn er sala rafmagnshjóla 10-15% af heildarsölu hjóla í TRI.

Umhverfisvænt
» Rannsóknir hafa leitt í ljós að reiðhjól búin rafknúinni hjálparvél geta verið staðkvæmdarvara fyrir bifreiðir og leitt til þess að fólk velji slíkan samgöngumáta frekar en þær.
» Framkvæmdastjóri TRI segist heyra af því nánast daglega að fólk skipti út öðrum bílnum á heimilinu fyrir rafmagnshjól.
» Rafmagnshjól skattlaus upp að 400 þúsund krónum og reiðhjól upp að 100 þúsund kr.