Frakkland Rúnar Alex Rúnarsson í leik með Dijon gegn PSG.
Frakkland Rúnar Alex Rúnarsson í leik með Dijon gegn PSG. — AFP
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur nú kynnst leiðinlegri hliðunum á atvinnumennsku.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur nú kynnst leiðinlegri hliðunum á atvinnumennsku. Hann gerði langan samning við franska liðið Dijon, sem leikur í efstu deild, og spilaði mikið á sínu fyrsta tímabili. Síðasta sumar urðu hins vegar þjálfaraskipti og Rúnar hefur setið á varamannabekknum í deildarleikjum að undanförnu. Rúnar Alex er markvörður eins og knattspyrnuunnendur þekkja og því aðeins pláss fyrir einn slíkan í byrjunarliðinu.

„Ég er ekki í neinni óskastöðu akkúrat núna. Hingað kom nýr þjálfari, Stéphane Jobard, með nýjar áherslur. Hefur hann fengið marga menn til félagsins og notar þá menn sem keyptir voru.

Þjálfarinn vildi fá nýjan markvörð í hópinn og hann hefur verið í markinu að undanförnu. Upp á síðkastið hafa úrslitin verið allt í lagi og um daginn náði liðið mjög flottum úrslitum (vann meistarana í Paris Saint Germain 2:1). Ekki eykur það líkurnar á því að maður fái að spila. Svona lagað getur gerst í boltanum og maður getur ekkert annað gert en að leggja sig fram á æfingum og spila eins og maður þegar tækifæri gefst,“ sagði Rúnar, en einungis þrír leikmenn sem spiluðu reglulega á síðasta tímabili gera það einnig um þessar mundir. Margir aðrir eru í sömu stöðu og Rúnar. Spiluðu mikið í fyrra en eru nú fyrir utan byrjunarliðið og samningsbundnir Dijon.

„Ég spilaði fyrstu fjóra leikina en eftir landsleikina í september var mér tilkynnt að ég myndi ekki spila næstu leiki. Ekkert hefur breyst eftir það,“ sagði Rúnar, en markvörðurinn Alfred Bomis var keyptur til félagsins í september. Rúnar spilaði bikarleik á dögunum og í þeirri keppni fær hann líklega tækifæri til að sýna sig. „Ég spilaði í bikarnum í síðustu viku og mun fá bikarleiki áfram. Hér eru tvær bikarkeppnir og við erum enn með í annarri þeirra. Ég mun fá að spila þá leiki.“

Lánssamningur ekki á dagskrá

Rúnar gerði fjögurra ára samning við Dijon og á því enn rúm tvö og hálft ár eftir af samningi sínum við félagið. Hann er því ekki í skemmtilegri stöðu ef þjálfarinn mun halda sig við að nota annan markvörð. Spurður hvort það hafi komist til tals að hann verði lánaður segir hann svo ekki vera.

„Ég er ekki byrjaður að hugsa um mögulegan lánssamning ennþá. Ég kem til með að setjast niður með þjálfaranum og markmannsþjálfaranum í desember eða janúar. Ef staðan breytist ekki, og það væri einhver möguleiki að vera lánaður til annars liðs, þá finnst mér það áhugaverður kostur. Ég er fótboltamaður og vil spila enda er það skemmtilegra en að æfa bara. En ég er samningsbundinn til fjögurra ára og þetta er ekki bara undir mér komið.“

Þar sem Rúnar gerði langan samning er staðan snúin. Atburðarásin var hins vegar ekki fyrirsjáanleg því hann stóð sig vel á fyrsta tímabili sínu í Frakklandi og spilaði þá marga leiki. Fyrir 24 ára gamlan markvörð var það dýrmæt reynsla og Rúnar var því fullur tilhlökkunar í sumar.

„Á heildina litið var mjög gott að fá að spila svo marga leiki í jafn sterkri deild og þeirri frönsku á síðasta tímabili. Ég held að fólk heima geri sér ekki grein fyrir því hversu sterk franska deildin er, en hún er talin vera sú fjórða eða fimmta sterkasta í heimi. Ég er rosalega stoltur af því að hafa náð mörgum leikjum í þessari deild á þessum tímapunkti. Ég stefni á að spila fleiri leiki þótt ég sé ekki í neinni óskastöðu eins og er.“

Mun umfangsmeira í Frakklandi en í Danmörku

Rúnar Alex lék í mörg ár með Nordsjælland í Danmörku áður en hann færði sig til Frakklands. „Það eru eitt til tvö skref fram á við varðandi allt sem tengist fótboltanum að fara frá Danmörku til Frakklands. Áhuginn er meiri, umfjöllunin er meiri, leikvangarnir miklu stærri og betri umgjörð í kringum leikina. Inni á vellinum er hraðinn meiri, líkamlegur styrkur leikmanna er meiri og gæði einstaklinga eru meiri. Mér skilst að ensku úrvalsdeildarliðin kaupi flesta leikmenn frá frönskum liðum. Það segir eitthvað um styrkleikann.

Ég þurfti líka hálft ár til að komast inn í hlutina hérna og aðlagast en tungumálið hjálpaði ekki til. Þegar það var komið og ég var farinn að tala frönsku fannst mér þetta smella. Þegar ég gat talað við alla á þeirra tungumáli breytti það öllu varðandi það hvernig mér var tekið í hópnum. Þá fór ég að kynnast fólki að einhverju ráði og það mér. Ég var mjög spenntur fyrir þessu tímabili og því er leiðinlegt hvernig það byrjar en það er mikið eftir af vetrinum,“ sagði Rúnar Alex Rúnarsson enn fremur.