Þorvaldur Jósefsson

fæddist 17. febrúar 1931. Hann lést 6. október 2019.

Útför fór fram 16. október 2019.

Minningar eru eitt það dýrmætasta sem við eigum og á einu augnabliki verða þær svo miklu dýrmætari.

Ástæðan er sú að 6. október síðastliðinn kvaddir þú þennan heim og fékkst að fara til ömmu.

Þó svo að sorgin sé mikil þá finn ég fyrir miklu þakklæti.

Þakklæti yfir því að þú fékkst að kveðja þennan heim eins og þú gerðir.

Þakklæti yfir því að vera barnabarnið þitt og að sonur minn sé barnabarnabarnið þitt. Svo yndislegt að sjá hvað þið voruð hrifnir hvor af öðrum alveg frá fyrstu kynnum og alltaf brosti minn maður þegar hann sá langafa.

Þakklæti yfir öllum þeim minningum sem ég á um þig og það sem við höfum brallað saman.

Já það sem þú og amma voruð dugleg að bralla eitthvað skemmtilegt með okkur systkinum og voru þeir nú ekki fáir sunnudagsbíltúrarnir í Akrafjöru eða þegar það snjóaði þá var farið að leita að brekku til að renna sér.

Elsku afi, takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér, til dæmis að umgangast og sitja hest.

Svo má nú ekki gleyma að þakka þér fyrir allt það magn af bumbumolum sem þú hefur gefið mér í gegnum tíðina.

Ég mun ávallt varðveita þessar minningar og margar fleiri.

Blængur Þór mun sko fá að heyra allskonar skemmtilegar sögu af langafa sínum sem hann var svo hrifinn af.

Ég elska þig ávallt.

Harpa Dröfn Blængsdóttir.