[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Albert Sveinsson er fæddur 7. nóvember 1969 á Akranesi. Fyrstu uppvaxtarár ólst Albert upp á Vogabraut hjá móðurömmu sinni og afa, Körlu og Friðrik.

Albert Sveinsson er fæddur 7. nóvember 1969 á Akranesi. Fyrstu uppvaxtarár ólst Albert upp á Vogabraut hjá móðurömmu sinni og afa, Körlu og Friðrik. Síðar fluttist hann með foreldrum sínum á Krókatún og síðar að Reynigrund, með smá viðkomu á Vesturgötu hjá Rannveigu föðurömmu Alberts.

Albert dvaldi nokkur sumur í sveit á Arnbjargarlæk hjá hjónunum Davíð og Guðrúnu. Einnig var hann við sveitastörf á Skipanesi.

Albert lauk grunnskólaprófi frá Brekkubæjarskóla á Akranesi og lauk stýrimannsprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík.

Fyrsta vinna Alberts var þegar hann var 10-12 ára að járnabinda í steypumót hjá fjölskyldufyrirtækinu HB&Co. Síðan vann hann á Sleggjunni, eins og Vélaverkstæði HB&Co var kallað. „Ég hugleiddi að læra vélvirkjun en ég ætlaði alls ekki að fara á sjó, var drullusjóveikur á fyrsta túrnum mínum, en svo var bara haldið áfram.“

Síðan þá hefur Albert allan sinn starfsaldur stundað sjómennsku, fyrst sem háseti en síðar stýrimaður og svo skipstjóri. Hann fór sinn fyrsta túr á Haraldi Böðvarssyni AK-12 og var á honum í tvö ár og var síðan á Höfrungi í níu ár. Á þessum tíma fór hann í Stýrimannaskólann og var undir lokin annar stýrimaður á Höfrungi og leysti af sem fyrsti stýrimaður. Fyrsta reynslan af skipstjórn var þegar hann leysti af á Elliða GK á loðnuveiðum 23 ára gamall. Hann varð síðan fyrsti stýrimaður á gamla Víkingi AK-100 næstu tvö árin. Hann tók svo við sem skipstjóri á Elliða og var á honum í tvö ár, meðal annars í Tasmaníu um tíma. Tók siglingin þangað 62 daga. Hann var síðan skipstjóri á Faxa RE-9 og Ingunni AK-150 þar til hann varð skipstjóri á nýjum Víkingi árið 2015 og sótti hann til Tyrklands.

Víkingur er uppsjávarskip og getur tekið allt að 2.800 tonn af afla. Það er með stærri skipum á landinu þótt þau fari stækkandi og var aflahæsta skipið á landinu í fyrra. „Manni fannst þetta vera ævintýralega stórt skip fyrst, en ég held það sé ekki of stórt. Ef maður ætlar að koma með vel kælt og gott hráefni í land þá veitir ekkert af plássinu og það þarf að vera nóg pláss fyrir sjó líka til að kæla hráefnið. Svo þurfum við færri ferðir en áður þegar verið er að sækja langt eins og á kolmunnanum og því er þetta á allan hátt hagkvæmara.

Við vorum að klára síldarvertíðina og erum að skipta yfir á kolmunnann núna,“ segir Albert, sem var á leið heim eftir að hafa verið um borð í Víkingi þegar blaðamaður talaði við hann. „Ég á að vera í fríi núna, en þegar skipið er í landi er maður alltaf eitthvað að sinna því. Við erum að taka trollin um borð og skipta um víra og gera skipið tilbúið fyrir kolmunnavertíðina sem verður fram að jólum.

Áhugasvið Alberts hefur lengi verið hestamennska og hefur hann átt hesta síðan um fermingaraldur. „Þessi áhugi blundaði í mér alla tíð frá því að ég man eftir mér. Þegar ég var 6-7 ára gamall og hjólaði á hverjum degi upp í hesthús til að fylgjast með hestunum og hestamönnunum. Enginn skildi í þessum áhuga mínum því ekki nokkur maður í minni fjölskyldu hefur verið í hestamennsku. Langafi minn, Haraldur Böðvarsson, var þó hestamaður,“ en Albert er með fimm hross núna en var mest með tíu.

Fjölskylda

Eiginkona Alberts er Ásta Pála Harðardóttir, f. 27.6. 1970, yfirþroskaþjálfi hjá Fjöliðjunni – Akraneskaupstað. Foreldrar Ástu Pálu: Hjónin Hörður Sigþórsson, fv. umsjónarmaður, f. 2.8. 1947, og Freyja Kolbrún Þorvaldsdóttir móttökuritari, f. 26.2. 1947, d. 16.11. 2016.

Börn Alberts og Ástu Pálu eru 1)Sindri Albertsson, f. 29.11. 1990, leiðbeinandi, bús. á Akranesi 2) Atli Albertsson, f. 3.11. 1994, íþróttafræðingur, sambýliskona er Eva Katrín Friðgeirsdóttir, f. 29.12 1994, íþróttafræðingur, þau búa í Reykjavík; 3) Albert Páll Albertsson, f. 19.1. 1996, nemi og sjómaður, sambýliskona er Emilía Halldórsdóttir íþróttafræðingur, f. 29.12. 1993, þau búa á Akranesi.

Bróðir Alberts er Sturlaugur Friðrik Sveinsson, f. 27.7. 1976, sjómaður, bús. á Akranesi.

Foreldrar Alberts eru hjónin Sveinn Sturlaugsson, f. 9.6. 1951, fv. útgerðarstjóri og Halldóra Friðriksdóttir, f. 20.5. 1950, tannsmiður. Þau eru búsett á Akranesi.